fbpx
54462948055_5448a1f578_k

Biðin

Þegar netbólan stóð sem hæst um síðustu aldamót töldu margir að framtíðin og peningarnir lægju í að stofna vefsvæði þar sem birtar væru stuttar fréttir, haldið væri utan um tengla á innlendar og erlendar vefsíður, notendum gæfist kostur á að stofna netfang sér að endurgjaldslausu og rífast í athugasemdakerfum um allt milli himins og jarðar. Metnaðafyllst þessara verkefna var vefsvæðið Strik.is sem var í íslenskum góðærisanda formlega tekið í notkun með blaðamannafundi á Strikinu í Kaupmannahöfn, þar sem búið var að fljúga út hópi fréttamanna og millistjórnenda.

Strik.is hélt sínu striki í nokkur misseri. Reksturinn komst þó aldrei yfir rauða strikið og að lokum ákváðu lánardrottnar að draga strik í sandinn og strika félagið úr sínum bókum.

Það er á fleiri sviðum en í fjölmiðlarekstri sem það skiptir máli að enda réttu megin við strikið. Í Bestu deild fótboltans er strikið milli sjötta og sjöunda sætisins. Liðið í sjötta sæti lendir ofan striks – það er haukaþing á bergi, öfugt við kolsvart hrafnaþingi í holti sem bíður labbakútanna í neðri hlutanum. Við munum öll hvað Rúnar þjálfari varð skapstyggur þegar Framliðið álpaðist til að enda í hor og slef-hluta úrslitakeppninnar í fyrra. Enginn vill endurtaka þau ósköp.

Fyrir leikinn gegn FH í Kaplakrikanum í dag lá fyrir að sigur myndi tryggja Fram meðal þeirra bestu. Tap gerði slíkar vonir nær örugglega að engu en jafntefli myndi þýða að bíða þyrfti úrslita í leikjum morgundagsins. Samningaviðræður við eldhúsborðið leiddu í ljós að aðrir fjölskyldumeðlimir höfðu augastað á bílaflota heimilisins og staða fréttaritarans var fremur slæm á meðan aðrir ætluðu að kaupa inn og undirbúa matseld í stað þess að góna á fótbolta og sötra bjór. Eins og svo oft áður brást skjaldsveinninn á ögurstundu, þóttist þurfa að sitja við að skrifa betlibréf fyrir einhverja rannsóknarsjóði í vinnunni. Við vitum samt öll að hann hefur engu komið í verk heldur gónt á textavarpið til að fylgjast með gangi mála. Ljótt, ljótt sagði fuglinn.

Addi í bankanum kom til bjargar. Sótti fréttaritarann, reyndar ekki á happabílnum en við tökum viljann fyrir verkið. Ívar Guðjóns var sóttur í leiðinni í suburbiu. Á planinu fyrir framan völlinn slógust svo Rabbi trymbill og Gummi Torfa í hópinn. Kryddað með nokkrum gömlum og nýjum stjórnarmönnum myndaði hópurinn óárennilega heild í stúkunni – vitaskuld þó með upphitun í bráðskemmtilegu bjórtjaldi Hafnfirðinga þar sem glímukóngurinn og sveitarstjórnarmógúlinn Skarphéðinn Orri Björnsson stýrði bjórdælunni. Eins illa og fréttaritaranum getur verið við FH-inga verður hann að viðurkenna að þeir eru höfðingjar heim að sækja og Kaplakriki einn skemmtilegasti heimavöllur landsins.

Vuk er ennþá meiddur og utan hóps og sama gildir væntanlega um Tryggva. Byrjunarliðið var með þeim hætti að Viktor stóð í markinu, prýddur glæsilegri derhúfu í anda Friðriks Friðrikssonar (markvarðarins knáa frá níunda áratugnum það er, ekki æskulýðsforkólfsins með barnagirndina). Þorri, Sigurjón og Kyle mynduðu öftustu varnarlínu. Kennie og Halli hvor í sinni bakvarðarstöðunni. Israel aftastur á miðjunni með Tibbling, Frey og Fred fyrir framan sig og Róbert uppi á toppi.

Heimamenn voru í þeirri stöðu að vita frá upphafi að jafntefli myndi duga þeim til að lenda ofan striks og voru þeir því býsna varfærnir í öllum aðgerðum í byrjun og treystu á skyndisóknir. Fótboltinn sem boðið var uppá var kannski ekkert til að hrópa húrra fyrir og ótrúlega mikið var um slakar sendingar á báða bóga.

Eftir rétt rúmar fimmtán mínútur tóku Framarar forystuna, nokkuð óvænt. Tibbling, sem var yfirburðabesti maður vallarins frá upphafi til enda (og var að skrifa undir framlengingu á samningi sínum í vikunni – eigum við að hrópa þrefalt húrra fyrir því? Húrra! Húrra! Húrra!) prjónaði sig framhjá 1-2 hvítklæddum, renndi boltanum á Frey sem var í þröngri stöðu. Einhvern veginn er eins og að boltinn límist alltaf við þennan besta son Hornafjarðar og hann náði að leggja snyrtilega út á Israel sem kom svífandi að og þrumaði knettinum hárnákvæmt í bláhornið, 0:1 og strikið langt að baki!

Það sem eftir leið af hálfleiknum tókst Frömurum að halda Hafnfirðingum vel í skefjum á miðjunni og skástu færin féllu í okkar hlut, s.s. þegar Israel átti sendingu á Róbert sem var hársbreidd frá því að sleppa í gegn. Tiltölulega sanngjörn forysta í leikhléi en sannast sagna hefur fréttaritarinn sjaldan í sumar tekið niður jafn fáa punkta í einum hálfleik.

Á dögunum bar það til að glæpamenn brutust inn í Kaplakrika og höfðu á braut með sér peningaskáp. Það geta ekki hafa verið mjög snjallir þjófar, nema þá hafi beinlínis vantað peningaskáp. Allir vita að fjárhirslur Fimleikafélagsins eru tómar ef frá eru taldar fáeinar óútfylltar ávísanir frá bæjarsjóði. Til að leggja sitt að mörkum til að koma Hafnfriðingum a.m.k. fjárhagslega yfir strikið hélt fréttaritari Framsíðunnar því aftur í tjaldið góða og fékk nú Guinness sem dælt var af manni sem aldrei hefur komið nálægt Grettisbelti. Síðan horfði hann ásamt pólitískum kollega sínum úr borginni á lokasekúndurnar af leik Burnley og Liverpool. Það var sannkölluð Öskubuskusaga… af þeirri gerðinni þar sem Öskubuska lendir fyrir strætó á lokasekúndunni og vonda stjúpan vinnur í Lottóinu. Heimurinn er táradalur.

Seinni hálfleikur byrjaði og hann var bragðdaufur. Í aðdraganda leiksins í dag var rætt um að mæta með rútu úr Úlfarsárdalnum. Margir héldu að tilgangurinn væri að flytja unga stuðningsmenn á völlinn, en í raun virðist planið hafa verið að leggja henni fyrir framan markið eftir hlé. Við notuðum hvert tækifæri til að hægja á öllu, hvert innkast tók óratíma og svo mætti lengi telja. FH-ingar náðu hins vegar lítið að nýta sér þessa passívu nálgun ef undan er skilið háskalegt færi á 52. mínútu þegar Viktor var nærri búinn að koma sér í stórvandræði markinu með misheppnaðri hreinsun. Fyrstu tuttugu mínútur hálfleiksins bar annars fátt til tíðinda ef frá er talið glæsilegt skot frá Israel sem stefndi upp í skeytin en markvörður heimamanna varði frábærlega.

Eftir því sem Framarar féllu aftar á völlinn og skyndisóknirnar urðu hægari þar sem farið var að draga af leikmönnum, varð sú spurning áleitnari hvort ekki væri tímabært að setja inná ferskar fætur, með Minga, Má og Alex alla á bekknum. Það voru hins vegar Hafnfirðingar sem gerðu breytinguna og hana þrefalda á 65. mínútu. Nánast um leið breyttust valdahlutföllin í leiknum. FH fór framar á völlinn og aðeins fjórum mínútum síðar lá boltinn í Framnetinu. Enn liðu þrjár mínútur og staðan varð 2:1 fyrir heimamenn, fyllilega verðskuldað og algjört hrun í leik okkar manna. Á 77. mínútu hefði Fimleikafélagið getað jarðað leikinn endanlega en eftir snarpa sókn þeirra small boltinn í þverslánni.

Þegar tíu mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma gerði þjálfarateymið sína fyrstu breytingu. Útaf fóru Kyle og Freyr sem báðir voru uppgefnir en inná komu Jakob og Már. Þessi skipting hefði gert mikið fyrir leikinn fimmtán mínútum fyrr en virtist nú örvæntingarfullt viðbragð við tapaðri stöðu. Á sama tíma bárust fréttir að norðan þess efnis að KA væri að raða inn mörkum gegn Vestra – ekkert annað en jafntefli gæti haldið í vonina um að lenda réttu megin striks.

Sannast sagna virtist Fram ekki líklegt til að sprengja sig aftur inn í leikinn. Þá ákvað hins vegar varamaður FH að grípa til sinna ráða. Einhverra hluta vegna hafði FH-þjálfarinn ákveðið að taka út af sinn besta mann (og nei, hann verður ekki nafngreindur hér – þið kunnið reglurnar) og setja inná einn blóðheitan og rauðhærðan. Sá ákvað eftir að hafa verið inná í þrjár mínútur að strauja Tibbling í glórulausri tæklingu úti á miðjum velli og fékk rautt spjald. Það breytti öllu.

Það sem eftir leið leiks sóttu Framarar. Jakob komst í dauðafæri á 87. mínútu en markvörðurinn varði frábærlega. Beint í kjölfarið freistaði Halli þess að prjóna sig í gegnum vörnina en var stoppaður á síðustu stundu. Fjórði dómarinn tilkynnti að sjö mínútum yrði bætt við. Miði er möguleiki!

Þegar tvær mínútur voru liðnar af uppbótartímanum jöfnuðu Framarar. Eftir klafs í þvögu náði Sigurjón (einn okkar bestu manna í dag) að pota boltanum sem rann fáránlega hægt í netið. Ó hvað við öskruðum og sungum. Við náðum meira að segja að yfirgnæfa Röddina – Sævar í fagnaðarlátunum. Þær mínútur sem eftir voru freistuðu Framarar þess að hirða öll stigin og Róbert komst í sannkallað dauðafæri á lokasekúndunni en náði ekki að skalla í netið. Það verður þó að viðurkennast að Framsigur hefði verið algjört rán.

Og þá tekur bara við biðin. Klukkan sex á morgun verðum við öll Blikar, eins óyndisleg og sú tilhugsun er að öðru leyti. Nái Blikar að vinna eða gera jafntefli gegn Eyjamönnum lendir Fram fyrir ofan strik. Guðmundur Magnússon – þig höfum við ungan alið! Núna er standa sig!

Stefán Pálsson

Share this post

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!