Klukkan níu að staðartíma vaknaði fréttaritari Framsíðunnar á aðeins of fína hótelinu sem hann og félagar hans höfðu valið fyrir hópferðina sem þeir skipulögðu á Edinborgarslaginn milli Hearts og Hibernian sem fram fór í gær. Hótelið var rétt fyrir neðan hina „konunglegu mílu“, sem er mekka lundabúðanna í höfðborg Skotlands, nema lundabúðir þar í landi selja tuskudýr sem eiga að kallast á við Loch Ness-skrímslið og alls konar skran með tartan-mynstri. Hann skellti sér í sturtu – örlítið ryðgaður eftir átök gærkvöldsins og rúllaði svo niður í morgunverðinn, með appelsínusafa, ristuðu brauði, stökku beikonu, kaffitári og haggisslettu. Ástæða þess að morgunsiðir fréttaritarans eru raktir í slíkum smáatriðum er sú að það var þó amk einn Framari sem vaknaði í dag.
Fjörutíu mínútum fyrir leikinn í Kópavogi hringdi Addi í bankanum og bauðst til að sækja fréttaritarann. Hann var of seinn, enda sá síðarnefndi þegar kominn upp í stóra gula Volvoinn og á hraðleið í voginn sem kenndur er við urtubörnin. Stokkið var út efst á Arnarneshæðinni og á leiðinni á völlinn kom téður bankamaður og bjargaði fréttaritaranum illa áttuðum upp í bílinn. Langsetur á flugvöllum og í millilandaþotum höfðu tekið sinn toll.
Fréttaritarinn var búinn að tryggja sér miða í Stubbs-forritinu. Það reyndist fljótræði, því uppgjöf Blika á þessu tímabili er slík að þeir hirtu ekki um að manna miðasöluhliðin. Fréttaritarinn og nafni hans voru því einu mennirnir á vellinum sem greiddu uppsett miðaverð. Þar með var fjárstuðningi við UBK ekki lokið því kvöldverðinum var bjargað í hamborgararöðinni og nokkrum óvenjuflötum Lite-bjórum slátrað að auki. Það sem maður leggur ekki á sig til að styrkja æskulýðsstarf í nágrannasveitarfélögunum!
Fréttaritarinn sat á milli Adda og Hnífsdalstrymbilsins. Í sömu röð voru nafni, Ívar Guðjóns og Þorbjörn Atli og fjölskylda. Hvar var Skjaldsveinninn kynni einhver að spyrja? Auðvitað í Langtibortistan – eða öllu heldur í Mónakó að horfa á fótbolta á fjórðu hæð í verslunarmiðstöð. Einhver er nú innkoman!
Byrjunarliðið var óbreytt frá hetjudáðunum gegn Val. Viktor í marki. Þorri, Kyle og Sigurjón aftastir. Halli og Kennie bakverðir. Israel aftastur á miðjunni með Simon, Fred og Frey þar fyrir framan og Jakob hinn svarfdælska uppi á toppi. Um liðskipan grænklæddra hirðum við ekkert að nefna, utan að Gummi Magg var á bekknum. Það gladdi fréttaritarann óstjórnlega, enda var hann skíthræddur um að Fram og UBK hefðu gert eitthvað skítasamkomulag um að Gummi mætti ekki koma við sögu í þessum leik. Slík samkomulög eru að mati fréttaritarans svívirða og ódrengskapur og réttast væri að draga stig af öllum liðum sem að slíku standa! Og engan eftirmat!
Fagurkerar í stúkunni veittu því athygli að Framarar léku í sínum alhvítu varabúningum, en brutu þá upp með fagurbláum sokkum. Þetta er gullfalleg samsetning og mætti endilega nota oftar!
En leikurinn? Æjá, það var þessi leikur.
Öfugt við fréttaritarann sem hafði verið á fótum í níu eða tíu tíma – eftir því hvernig reiknað er fyrir tímamismun – voru Framarar steinsofandi frá fyrstu mínút. Blikar blésu til sóknar og fengu tvö hörkufæri á upphafsmínútunum. Annað þeirra var skalli í þverslá. Þetta var ekki að byrja vel. Strax í næstu sókn reið hörmungin yfir. Kyle var svo óheppinn að reka boltann í skottilraun eins Kópavogsbúans og senda hann þar með í fallegum boga í eigið markhorn, 1:0.
Við tók tími nauðvarnar þar sem heimamenn fengu hverja sóknina á fætur annarri og hornspyrnur á pari við Vatnsdalshóla eða Breiðafjarðareyjur. Það var bara spurning um tíma hvenær staðan yrði 2:0 og það raungerðist þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður eftir farsakenndan varnarleik þar sem boltinn var sendur beint í tærnar á aðvífandi Blika sem skoraði meira að segja með vinstri, til að snúa hnífnum í sárinu.
Yrði þetta margra marka afhroð? Stemningin Frammegin í stúkunni var amk nægilega súr. Valtýr sendi dómaranum tóninn og Röddin skammaði alla sem í boði voru. Á sama tíma kepptust stuðningsmenn Breiðabliks við að mjólka alla söngvana sína þar sem fram kæmi að þeir séu ríkjandi Íslandsmeistarar – vitandi að Víkingar væri að fara að taka við þeim titli á næsta klukkutímanum.
Í síbreytilegum heimi er gott að geta treyst á einhverjar fasta þætti – og einn slíkur er að Breiðabliksvörn hátt á vellinum er brothætt. Þótt Framarar hafi ekki getað neitt í fyrri hálfleik og varla náð að tengja saman þrjár sendingar, rataði löng sending frá Þorra í gegnum Blikavörnina á 40. mínútu þar sem Kennie og Jakob böðluðust báðir í gegn og sá fyrri lagði upp fyrir þann síðarnefnda sem skoraði af öryggi, 2:1 og allt í einu virtist þetta orðið leikur á ný.
Þremur mínútum síðar komust Framarar fjórir á móti þremur en Fred náði ekki nægilega góðu skoti úr prýðilegu færi. Fimm mínútum var bætt við vegna tafa og heimamenn nýttu það vel. Kyle var óheppinn að stíga á boltann og braut af sér í kjölfarið. Hættulítil aukaspyrnan hrökk af öxl eins Framarans í varnarveggnum og Viktor kom engum vörnum við, 3:1.
Neðanþilja sleiktu Framarar sárin. Flosi Blikaformaður og Gylfi Steinn þjáningarbróðir fréttaritarans í dálæti á Luton Town komu báðir og reyndu að vera kurteisir. Höfðuðu til þess að UBK hefði meira við stigin að gera o.s.frv. Framarar hugsuðu sitt.
Fram fékk fyrsta dauðafæri seinni hálfleiksins, þar sem Tibbling (samkvæmt minnispunktum fréttaritarans – en Freyr samkvæmt Fótbolta.net, sem er þá líklega rétt) átti hörkusendingu fyrir markið en Jakob missti naumlega af því að renna honum í autt markið.
Tveimur mínútum síðar gerði þjálfarateymið tvöfalda skiptingu. Hún var óvænt að tvennu leyti. Í fyrsta lagi er fágætt að Framarar skipti mönnum inná svona snemma í leikjum sínum – hvað þá tveimur í einu. Og í öðru lagi var skiptingin sjálf nokkuð skrítin, þar sem Simon og Freyr voru kallaðir af velli, báðir frekar ósáttir og inná komu Róbert og Már. Reyndar var mjög rökrétt að setja Má inn í þennan leik þar sem þungir og staðir varnarmenn heimaliðsins buðu ítrekað upp á veislu fyrir skjóta menn.
Skiptingin reyndist ekki breyta miklu. Blikar áttu ekki í miklum vandræðum með að verjast máttlitlum sóknarlotum okkar manna. Erfitt var þó að átta sig á leikkerfinu og allt í einu var eins og Kyle væri ítrekað orðinn okkar fremsti maður. Sú varð raunin á 67. mínútu þegar aukaspyrna frá Halla hitti Kyle fyrir í miðjum markteignum en einhvern veginn tókst honum að sópa yfir úr dauðafæri. Fimm mínútum síðar átti Kennie snilldarsendingu á Róbert sem skaut framhjá úr opnu marktækifæri.
Þegar kortér var eftir fóru Þorri og Jakob af velli fyrir Minga og Kristófer. Hvorugum var sérstaklega skemmt og hefðu einhverjir stúkuspekingar íhugað að gefa frekar Kyle eða Fred hvíldina, sem voru báðir úrvinda á þessum tímapunkti. Blikum tókst að drepa niður leikinn. Gott skot Róberts var glæsilega varið á 88. mínútu og flótlega í kjölfarið átti Már ágætt skot en beint á markvörðinn.
3:1 tap var niðurstaðan. Enginn leikmanna Fram verðskuldar sérstakt hrós eða útnefningu sem maður leiksins. Fráfarandi Íslandsmeistarar halda enn í vonina um Evrópusæti og við munum hjálpa til við það með því að vinna frægan sigur á Stjörnunni í næsta leik – en fyrst er það landsleikjahlé. Sjáumst að tveimur vikum liðnum!
Stefán Pálsson
 
								