Friðarsúla John Lennon stendur í Viðey og er tendruð á hverju hausti til að minna á kröfuna um alheimsfrið. Aðeins austar í borgarlandinu hefur nú verið komið upp öðrum og enn kraftmeiri ljósgjafa, sem er tákn um allt sem er gott og fagurt. Það eru nýju UEFA-vottuðu flóðljósin á Lambhagavelli. Með áður óþekktum lúmenstyrk er nú hægt að horfa á besta fótbolta landsins í veðurparadísinni í Dal draumanna – í eina íslenska íþróttamannvirkinu sem er sjáanlegt úr geimnum. Framarar eru sannarlega hinir upplýstu menn.
Fréttaritari Framsíðunnar fékk far með Skjaldsveininum Val Norðra á leikinn. Þeir mættu tímanlega og vel dúðaðir enda hráslagaleg rigning á láglendi. Þegar uppeftir var komið reyndist þó veðrið hlýrra eins og endranær. Leiðin lá strax í fínumannaboðið. Rúnar þjálfari var raunar búinn að romsa út úr sér liðinu en það var kunnuglega skipað: Viktor í markinu, Þorri, Kyle og Sigurjón aftastir. Halli og Kennie bakverðir. Israel aftastur á miðjunni með turnana þrjá: Fred, Frey og Tibbling fyrir framan sig. Ofurtáningurinn sænski Jakob Byström einn uppi á toppi. Vinningsuppskrift.
Garðar uppgjafabílstjóri norska ríkisins sat við borð ásamt glaðsinna rafverktaka. Fréttaritarinn og Skjaldsveinninn slógust í hópinn og öll hersingin hélt svo niður í fremur fáskipaða stúkuna. Þar hittu þeir fyrir Hnífsdalstrymbilinn og urðu fagnaðarfundir. Leikurinn hófst. Framarar léku í sínum íðilfögru búningum en kjánaprikin úr Garðabænum mættu í alhvítum búningi og glitruðu því eins og endurskinsmerki. Sjaldan hefur myndlíkingin um dádýr í háuljósunum átt betur við.
Leikurinn byrjaði afar rólega og fátt sem benti til að gestirnir væru að berjast fyrir Evrópusæti. Fyrsta færið leit ekki dagsins ljós fyrr en eftir tæpt kortér, þar sem Freyr hljóp upp að endamörkum og sendi fyrir á kollinn á Fred sem skallaði beint á markvörð Stjörnunnar. Tíu mínútum síðar komst Jakob í prýðilegt færi eftir að Þorri náði einhvern veginn að böðlast í gegnum Stjörnuvörnina. Þegar hálftími var á klukkunni setti Jakob svo boltann í netið en var flaggaður rangstæður.
Á 36. mínútu skoruðu Framarar öðru sinni, þegar Kennie skallaði í netið, en aftur fór flagg á loft – að þessu sinni var úrskurðað að Kyle hefði stuggað við einhverjum beljakanum sem féll til jarðar með tilþrifum. Fram að þessu höfðu okkar menn átt öll færin sem eitthvað kvað að, rétt undir lokin rönkuðu gestirnir þó aðeins við sér og Þorri þurfti að bjarga bylmingsskoti á marklínu.
Í hálfleik lá leiðin í Bar8una. Þar kom í ljós að hamborgararnir voru allir búnir, þrátt fyrir fámennið á vellinum. Styður það þá kenningu að fólk hamstri þessa dýrindisborgara og þeir fari fyrir háar fjárhæðir á svarta markaðnum. Bjórinn flaut hins vegar og var búið að slá upp ritstjórnarfundi Fótbolta-punktur-nets við eitt borðið.
Seinni hálfleikur hófst með látum, þar sem Kyle og Kennie áttu hvor sinn skallann á upphafsmínútunum. Það var svo brasilíska undrið Fred sem braut ísinn með glæsilegu langskoti á 52. mínútu, 1:0 og einmöltungurinn á loft. Fimm mínútum síðar var staðan hins vegar aftur orðin jöfn eftir skyndisókn Stjörnumanna, 1:1.
Fyrsta skipting Framara kom þegar tuttugu mínútur voru eftir, þar sem Róbert kom inná fyrir Jakob. Skömmu síðar fór Fred af velli fyrir Vuk, sem snýr aftur eftir alltof langt hlé. Beint í kjölfar skiptingarinnar átti Freyr gott skot að marki en naumlega framhjá.
Í blálokin virtist það renna upp fyrir gestunum að mögulega væri skynsamlegra að vinna leikinn en að gera það ekki og síðustu mínúturnar sóttu þeir af krafti, þar sem Viktor varði tvívegis glæsilega. Kristófer og Már komu inná síðustu mínúturnar fyrir Halla og Frey, en meira gerðist ekki. Jafntefli varð raunin og þá er bara einn leikur eftir. Góðu heilli hefur honum verið flýtt og verður á laugardag. Nú er bara að skipuleggja menningarferð til Hafnarfjarðar með sögugöngu, átveislu í Víkingakránni og heimsókn í eimingarhús.
Stefán Pálsson
 
								