fbpx
Liðið gegn ÍBV I

Á hálum ís

Hér fyrr á árum, á gullöld íslenskunnar – þegar menntskælingar gátu ennþá lesið Laxness, Snorri Másson gat keypt sér kaffibolla á móðurmálinu og enginn sagði „mér vill“ – voru bíómyndatitlar í kvikmyndahúsum íslenskaðir. „Beint á ská“, „Illa farið með góðan dreng“ og „Í kröppum dansi“ voru sígild dæmi um þessa málvernd í verki. Sama má segja um fjölnotatitilinn „Á hálum ís“ – sem er jafnframt lýsandi fyrir leik dagsins í lokaumferð Bestu deildar.

Óhætt er að segja að knattspyrnuheimurinn hafi verið með augun á uppgjörinu í Kaplakrika. Hverjir myndu hreppa fimmta sætið eftirsótta í Íslandsmótinu í fótbolta? Skjaldsveinninn Valur Norðri renndi við í Hlíðunum. Ljóst var að stuðningsmannabekkurinn yrði laskaður að þessu sinni. Trymblarnir tveir: Rabbi og Kristján báðir fjarri góðu gamni. Annar í laxveiði en hinn á pönkhátíð.

Neðanþilja í Kaplakrika urðu fagnaðarfundir þegar gengið var í flasið á Garðari bílstjóra, rafverktakanum Arnari og Hauki Róbertspabba. Þeir voru allir í Framtreyjum en í norskri ull innanklæða enda brunagaddur. Fimmmenningarnir vösku fengu sér sæti saman í stúkunni. Eldfjallaaskan úr Grindavík svínar alltaf út sætin á Kaplakrikavelli, en blessunarlega var mamma Ívarssona fyrirhyggjusöm með handklæðið á lofti.

Internetið hafði ljóstrað upp um liðsuppstillinguna. Kyle var ekki í hóp og þá væntanlega meiddur frekar en í banni. Mási kom inn í staðinn. Liðið var því á þessa leið: Viktor í marki. Sigurjón, Þorri og Kennie aftastir (að svo miklu leyti sem hægt er að segja að Kennie sé á einhverjum ákveðnum stað á vellinum frekar en að spila þar sem honum sýnist hverju sinni). Halli og Már í bakvörðum. Israel aftastur á miðjunni. Tibbling, Freyr og Fred fyrir framan hann og Byström einn frammi.

Fyrsta sjokkið þegar í stúkuna var komið, var kuldinn. Rakastigið gerði það að verkum að þótt lofthitinn væri rétt um frostmarkið, var upplifunin miklu hryssingslegri. Fréttaritaranum, sem er yfirleitt aldrei kalt og að auki í gráu ullarpeysunni, var hrollkalt. Sjokk númer tvö var ástandið á vellinum. Grasflöturinn var orðinn að einhvers konar túndru með vatnspollum og yfirborðinu svo hálu að leikmenn voru eins og beljur á svelli. Þriðja sjokkið var svo klæðnaðurinn á okkar mönnum…

FH-ingar höfðu ákveðið að gera viðureignina að styrktarleik fyrir gott málefni og léku þess vegna í alheiðbláum búningi. Í sjálfu sér má skilja að félag sem ekki leikur alla jafna í bláu þrái að fá að gera það, en þessi ráðstöfun olli vandræðum þar sem mótherjarnir voru jú Framarar, með dökkbláan aðalbúning og hvítan varabúning. Niðurstaðan varð því sú að Fram lék í bláu aðaltreyjunni en svörtum stuttubuxum og sokkum. Þetta er væntanlega í fyrsta sinn í sögunni sem Framarar leika í slíkri litasamsetningu, en það vill þó til að Framtreyjan er svo fögur að hún virkar í öllum litasamsetningum.

Strax á fyrstu mínútu kom í ljós hversu fáránlegar vallaraðstæðurnar væru þegar stungusending í gegnum Framvörnina virtist ætla að skila einum ljósbláum einum í gegn, en boltinn stoppaði í polli! Lítið bar til tíðinda næstu mínútur. Eftir stundarfjórðungsleik átti Fred góða rispu upp allan völlinn en ágætt markskot hans var skallað frá og í innkast. Nokkrum mínútum síðar var Fred aftur á ferðinni með frábæran skalla eftir sendingu frá Frey en markvörður FH varði glæsilega.

Nær ekkert markvert gerðist næstu tuttugu mínúturnar ef frá eru talin langskot frá Má og Fred sem hvorugt sköpuðu mikla hættu. Það var því nokkuð gegn gangi leiksins þegar heimamenn komust yfir á 38. mínútu eftir mistök Viktors í markinu sem missti frá sér frekar viðráðanlegan bolta. Kennum samt grasinu um, staðan orðin 1:0.

Tveimur mínútum síðar jöfnuðu okkar menn eftir að Freyr (eða Halli – heimildum ber ekki saman) hafði fengið nægan tíma til að athafna sig við vítateigshornið, sendi fyrir og Kennie skallaði í netið, 1:1. Dómarinn beið ekki í sekúndu framyfir 45 mínúturnar og flautaði til leikhlés og allir héldu neðanþilja til að reyna að ná upp kjarnhita.

Fyrstu tíu mínútur síðari hálfleiks voru nákvæmlega jafntilþrifalitlar og leikurinn hafði verið fram að því. Farið var örlítið að rökkva sem er auðvitað ekki gott fyrir menn sem vanir eru UEFA-vottuðum flóðljósum sem hægt er að nota til að hreinsa hringorma eða framkvæma flókinn hjartaskurð. Eftir það fór hins vegar að hlaupa fjör í leikinn.

Á 55. mínútu átti Jakob ágætan skalla að FH-markinu í fyrsta hættulega færi seinni hálfleiks. Framarar virtust með yfirhöndina í spili úti á vellinum en skömmu síðar tóku heimamenn forystuna á ný eftir hnoð fyrir framan Frammarkið, 2:1.

Minnstu mátti muna að FH kláraði leikinn endanlega á 64. mínútu eftir kröftuga sókn þar sem Sigurjón varði stórkostlega á marklínu. Þessi varsla reyndist dýrmæt því tveimur mínútum síðar jöfnuðu okkar menn metin. Fred tók á rás og átti svo hárnákvæma sendingu í gegn á Jakob sem átti þó eftir að gera helling áður en hann setti boltann í bláhornið, 2:2. Svarfdælski Svíinn hefur verið í stóru hlutverki í Framliðinu í síðustu leikjum og augljóst að þjálfarateymið ætlar honum stóra hluti á næsta ári. Byström mun skora 15 mörk á næsta ári – þið lásuð það fyrst hér!

Framarar voru búnir að panta skiptingu þegar markið kom og héldu sig við hana. Markaskorarinn og Sigurjón fóru af velli en Róbert og Mingi komu inná í staðinn. Skömmu síðar átti Freyr þrumuskot upp úr hornspyrnu en boltinn rétt yfir markið.

Þegar kortér var eftir af leiknum fengu Fh-ingar vítaspyrnu eftir eitthvað sem virtist sárasaklaust samstuð tveggja manna í teignum. Fáránlegt víti og í þriðja sinn voru heimamenn komnir með forystuna.

Nokkuð dró af leikmönnum eftir markið og leikurinn fór að hægjast. Freyr fór af velli á 82. mínútu og Kristófer leysti hann af hólmi. Tveimur mínútum síðar kom jöfnunarmarkið. Simon hafði komið boltanum á Róbert sem skaut á markið. Skotið var varið en Már var fljótur að hugsa og tók frákastið, 3:3.

Þegar leikklukkan sýndi 87 mínútur gerðu Framarar sínar síðustu breytingar þegar Mási og Halli fóru af velli fyrir unglingana Hlyn Örn Andrason og Kajus Pauzolis. Tilvalið að nota lokaleik sem þennan til þess að blóðga smápjakka, en þeir hefðu að ósekju mátt fá aðeins fleiri mínútur.

Þegar mínúta var eftir að venjulegum leiktíma kom framherji FH boltanum í netið í fjórða sinn, en markið var dæmt af vegna rangstöðu eða fyrir hendi. Framarar skeiðuðu upp völlinn í staðinn og Kristófer fékk að dansa með boltann á vítateigslínunni í góða stund á meðan tilfallandi Hafnfirðingar kepptust við að reyna að sparka hann niður. Að lokum flautaði dómarinn – reyndar ekki vítaspyrnu, heldur færði hann brotið rúman metra út fyrir teig. Kennie og Kristófer stilltu sér upp og allir á vellinum voru sannfærðir um að Kennie væri að fara að skjóta. Kristófer hljóp af stað í því sem virtist augljós gabbhreyfing, en í stað þess að hlaupa yfir boltann lyfti hann honum einfaldlega snyrtilega yfir varnarvegginn og í bláhornið. FH-markvörðurinn reyndi ekki einu sinni að hreyfa sig, 4:3 og glæstur sigur staðreynd.

FH gerði líklega nokkuð réttmætt tilkall til vítaspyrnu á þessum örfáu sekúndum sem lifðu af leiknum, en fengu ekkert – það verður að vera smá réttlæti í þessum grimma heimi! Dómarinn nennti ekki að bíða nema í mínútu áður en flautað var til leiksloka og dýrðlegur sigur var okkar. Fimmta sætið var uppskeran – að mörgum talið besta sætið sem í boði er. Kristófer stýrði svo zigga-zagga í lokin eins og herforingi.

Það er alltaf ljúfsárt að horfa á síðasta leik tímabils. Í senn er maður feginn að leiktíðinni ljúki loksins svo hægt sé að snúa sér að öðrum viðfangsefnum, en um leið byrjar eftirsjáin og óþreyjan eftir því að við byrjum upp á nýtt. Sumarið 2026 verður frábært!

Stefán Pálsson

 

Share this post

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!