fbpx
Mur gegn Þrótti

Nýir uppáhaldsmótherjar

Fyrr í sumar var rifjað upp á þessum vettvangi hvernig Framkonur hefðu fengið á baukinn gegn Val í bikarkeppninni sumarið 2024, þegar við töpuðum 8:0 á Hlíðarenda. Fyrr í sumar mættust sömu lið í 16-liða úrslitum bikarsins, þar sem Fram komst í 2:1 fyrir hlé og endaði á að tapa naumlega í framlengingu 2:3. Þrátt fyrir sárt tap varð frammistaðan gegn Völsurum til þess að koma Fram á kortið hjá fótboltaspekingum, sem flestir höfðu spáð ljótu falli fyrir mót. Mánuði síðar mættum við á Hlíðarenda og gerðum enn betur, unnum 1:2 í hörkuleik eftir að hafa lent undir.

Í dag festi Valur sig svo í sessi sem nýjustu uppáhaldsmótherjar okkar þegar Framarar unnu góðar sigur – og Valur varð þar með eina liðið sem gaf okkur öll sex stigin í deildinni í sumar. Valsmenn eru valmenni, það hefur fréttaritarinn alltaf sagt!

Fréttaritari Framsíðunnar var raunar seinn á svæðið eftir að hafa vanmetið tímann sem verslunarleiðangur í Krónuna tók. Vallarklukkan sýndi því tæpar fimmtán mínútur þegar komið var inn á völlinn. Félagi Sigurður Freyr var á vísum stað og gat gefið skýrslu um gang mála fram að þessu og vottað að okkar konur hefðu verið mun beittari. Í næstu röð fyrir ofan sat svo Laufey svilkona fréttaritarans og staðfesti þetta stöðumat. Og ekki færu þau að ljúga.

Ashley stóð í markinu með Olgu og Ennu Young í miðvörðum. Kam og Dom bakverðir. Mackenzie aftast á miðjunni með Unug og Öldu fyrir framan sig. Lily og Eyrún Vala á köntunum og Murielle uppi á toppi. Veðrið var frábært. Fréttaritaraflónið gleymdi sólgleraugum en mætti með peysu sem hann hafði ekkert við að gera enda veður fyrir stuttermabol. Hitamælirinn sagði reyndar bara sjö gráður en veðraundrið á Lambhagavellinum er slíkt að meira að segja Celsíus-mælikvarðinn nær ekki að fanga það. Þrátt fyrir bongóblíðuna virtist Óskar þjálfari verið klæddur í heimskautasvefnpoka frá Skátabúðinni. Skrítið termóstat á þeim bænum.

Fréttaritarinn var ekki fyrr sestur en Valskonur náðu að bjarga nánast á marklínu. Tónninn var sleginn. Á 25. mínútu komst Alda í algjört dauðafæri með allt markið fyrir framan sig, en markvörður Vals varði glæsilega. Fimm mínútum síðar áttu Framarar tvö góð skot upp úr hornspyrnu sem bæði voru varin. Þegar um fimm mínútur voru eftir af hálfleiknum var Murielle tekin niður af aftasta varnarmanni sem mátti teljast stálheppin að fá bara gult spjalt. Upp úr aukaspyrnunni komst Lily í gullið skotfæri en spyrnan varð máttlítil og varin.

Fréttaritarinn vafraði upp í fínumannaherbergið í hléi en hitti þar ekki aðra fyrir en Gumma Magg og Axel gjaldkera sem var jöfnum höndum að horfa á sína menn í Leeds. „Það er óskiljanlegt að við séum ekki 4:0 yfir“, úrskurðaði markahrókurinn og undir það mátti taka. Yrði okkur refsað í seinni hálfleik fyrir kæruleysið?

Það var ágætlega mætt á völlinn, um 180 manns samkvæmt opinberri talningu, en ókeypis var inn að þessu sinni. Það var í boði fyrirtækisins 19da, sem er víst sportbar sem býður upp á pílukast og golfhermi. Núna er tæknin komin á það stig að kylfingar þurfa ekki að fara út fyrir hússins dyr til að slá kúlur helda geta þeir gert það innandyra með hjálp nútímatækni. Vonir standa til þess að innan fárra ára muni tölvurnar líka geta séð um höggin og munu þá tugþúsundir manna losna undan oki golfdjöfulsins. Við lifum á mögnuðum tímum!

Seinni hálfleikur var mun dauflegri en sá fyrri. Máttlítið langskot frá Öldu eftir klukkutíma leik var það fyrsta sem rataði í minnisbókina eftir hlé. Á 65. mínútu bar loks eitthvað til tíðinda. Fram fékk aukaspyrnu rétt framan við miðlínu sem Una Rós stillti upp og sendi  í fallegum boga inn í miðjan teiginn þar sem Murielle stóð alein með allan tímann í veröldinni og vippaði knettinum auðveldlega yfir markvörð Vals, 1:0. Minnispunktur fyrir varnarmenn: aldrei-aldrei-aldrei skilja Murr eina eftir í vítateignum. Hún er eina konan sem ekki er Bliki eða núverandi atvinnumaður í Þýskalandi sem hefur sýnt sig að geta skorað að vild í þessari deild.

Lily og Murr voru nærri því að auka forystuna á næstu mínútum. En Valur fékk sín færi líka og eftir smá kæruleysi í Framvörninni skoppaði langskot Vals oná markslánni. Ólína Sif kom inná fyrir Eyrúnu Völu og tíu mínútum síðar varð 100% aukning á Ólínum í leik þegar Ólína Ágústa leysti Öldu af hólmi. Framarar leituðust við að drepa leikinn en ekki gekk það þó betur en svo að á 80. mínútu fengu gestirnir ævintýralega gott færi þegar aftasti varnarmaður missti boltann við miðlínu, tvær Valskonur brunuðu fram með Kam eina til varnar. Einhvern veginn náði sú aftari að senda senda boltann framá við án þess að rangstaða væri flögguð, en með samblandi af frábærri markvörslu og slakri fræanýtingu rataði boltinn í lúkurnar á Ashely – sem tryggði sér þar með nafnbótina maður leiksins.

Thelma Lind kom inná fyrir Lily í uppbótartíma, þar sem Framliðið átti ekki í vandræðum með að hanga á boltanum og hefði raunar með smá heppni náð að auka forystuna. Dýrmæt þrjú stig í húsi og staðan orðin nokkuð álitleg fyrir lokakeppnina. Fram byrjar á tveimur heimaleikjum, gegn tveimur neðstu liðunum. Sigur á Austfirðingum – og hefnd fyrir klúðurslegt tap gegn þeim eystra – færi langt með að klára fallbaráttuna. Mætum öll á laugardaginn, núna er ekkert kæruleysi í boði.

Stefán Pálsson

Share this post

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!