fbpx
Israel gegn UBK

Smalabakan

Fegurðin við það að hafa hafnað ofan við strik í Bestu deild karla er að það sem eftir lifir Íslandsmóti getum við Framarar einbeitt okkur að því að spilla fyrir öðrum. „Í dag ætla ég að vera virkilega vondur“ – sagði Láki jarðálfur í skemmtilegu smábarnabókinni og út frá því er unnið þessi dægrin í Dal draumanna.

Skjaldsveinninn, sem er búsettur í Fossvoginum miðjum og orðinn hálfgerður Víkingur fyrir vikið, bauð til veislu fyrir leik kvöldsins. Hann hafði grafið upp uppskrift að breskri smalaböku (Sheperd´s pie) og mallað hálfan daginn. Efst á brauðhjúpinn hafði hann svo meitlað merki Knattspyrnufélagsins Fram. Bakan var fáránlega bragðgóð og ekki verri með ómældum bjór og írsku viskí. Auk fréttaritara Framsíðunnar mættu Rabbi trymbill og vænlegri sonurinn, KR-ingurinn úr næsta húsi (sem stoppaði stutt), Víkingurinn og konferentzráðið Ragnar Kristinsson, Þorbjörn Atli og Ragnheiður kona hans og nafni Fréttaritarans að norðan. Þegar leið að því að leikurinn var rölt á völlinn. Það var hryssingslegt og svalt í veðri en þó stillt.

Fram var án síns besta manns, Tibblings, sem nældi sér í leikbann gegn FH-ingum í síðasta leik fyrir litlar sakir. Róbert Hauksson var líka utan byrjunarliðs vegna höfuðhöggs, þótt hann væri skráður meðal varamanna. Liðið var annars á þessa leið: Viktor í marki. Kyle, Þorri og Sigurjón í miðvörðum. Kennie og Halli bakverðir. Israel aftastur á miðjunni með Frey, Fred og Má fyrir framan sig og Mingi uppi á toppi.

Fyrri hálfleikur bar með sér að Framliðið vildi drepa leikinn niður og það tókst með miklum ágætum. Á 26. mínútu komst einn Víkingurinn í dauðafæri skaut framhjá í kjörstöðu, en annars gerðist fátt fréttnæmt og fullkomlega bragðlausum fyrri hálfleik lauk með 0:0. Það var nokkuð létt yfir Frömurum neðanþilja í hálfleik. Sagnfróðir rifjuðu þó upp að Frömurum hefði gengið afleitlega að hirða stig af Víkingsliðinu á liðnum árum, þrátt fyrir að vera margoft móralskur sigurvegari í leikjum liðsins.

Eftir sjö mínútna leik í seinni hálfleik reið ógæfan yfir. Víkingar fengur fullkomlega fáránlegt víti, sem allar endursýningar í sjónvarpi leiddu í ljós að var fullkomið réttarmorð. Víkingar tóku vítaspyrnuna og Viktor varði vel, en aðstoðardómari lét endurtaka vítið af þeirri ástæðu að Vitkor hefði verið farinn naumlega af marklínunni. Úr endurtekinni spyrnunni skoruðu Víkingar 1:0, sem aldrei skyldi verið hafa.

Markið varð til þess að botninn datt nokkuð úr leiknum. Heimamenn sóttu lítið en Framarar héldu sig einnig til hlés. Á 63. mínútu var svo komið að fyrstu skiptingu okkar manna þegar Mingi fór útaf fyrir Jakob Byström. Sjö mínútum síðar fengu Framarar aukaspyrnu þar sem Halli sendi inn í teig, en hreinsun heimamanna rataði beint í tærnar á Jakob sem jafnaði metin með alvöru framherjamarki, 1:1.

Næstu mínúturnar virtust Framarar líklegri en óvænt skyndisókn Víkinga á 79. mínútu endaði á hnitmiðuðu skoti í mark og réttarmorðingjarnir allt í einu komnir í 2:1. Tvöföld skipting Fram með Kristófer og Alex inná fyrir Frey og Má náði ekki að breyta þessu og sama gengdi um rautt spjald Rúnars þjálfara sem lét dómgæsluna í kvöld fara í raugarnar á sér. Það var gaman að sjá hjartað í Framliðinu í leiknum og frammistaðan í seinni hálfleik var til hreinnar fyrirmyndar þar sem menn drógu ekki af sér í tæklingum. Israel var maður leiksins en margir aðrir verðskulda hrós fyrir góða frammistöðu. Þetta er nákvæmlega spilamennskan sem við vildum sjá hjá okkar liði í úrslitakeppninni þótt við vinnum ekki hvern leik.

Stefán Pálsson

Share this post

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!