Mannkynið hefur sent geimför út fyrir ystu mörk sólkerfis okkar, klofið atómið og klónað spendýr. Engu að síður hefur okkur ekki enn tekist að búa til hárrétta klukku í mælaborði bifreiðar. Sem betur fer hefur reynsla kynslóðanna þó kennt okkur að takast á við þær áskoranir sem af þessari tæknilegu vankunnáttu leiðir. Við leggjum einfaldlega á minnið hver skekkjan er í klukku einstakra bifreiða og reiknum fyrir honum í hvert sinn sem brýnt er að fá hárnákvæma tímasetningu.
Í litla snakkbílnum eiginkonu fréttaritarans, sem þykist vera rafmagnstvinn en er í raun bara sparneytin Toyota-dós (bíllinn það er, ekki eiginkonan) er klukkan t.d. átta mínútum of sein. Þýski metandrekinn mannsins hennar (eiginkonunnar þar er, ekki Toyotunnar) er hins vegar með klukku sem er tveimur mínútum of fljót. – Þessar upplýsingar eru AFAR mikilvægar, eins og síðar á eftir að koma í ljós.
Fréttaritarinn vinnur í upplifunarhagkerfinu og varði eftirmiðdeginum sem leiðsögumaður hóps opinberra starfsmanna í hópefli í sögugöngu í miðborg Reykjavíkur. Að henni lokinni tyllti hann sér á knæpu til að hvílast og lesa um byrjunarlið kvöldsins á KSÍ-vefnum. Fátt kom á óvart í liðsuppstillingunni. Óli í markinu, Kyle og Gunnar hafsentar, Alex og Halli bakverðir. Aron Þórður aftastur á miðjunni, Indriði Áki og Albert framar, Fred og Tryggvi á köntunum og Þórir frammi. Þetta er nálega sama lið og á móti Víði.
Þegar farið var að styttast í leik tók fréttaritarinn sitt hafurtask og hélt í bílinn. Hann ók fumlaust, stystu leið á völlinn. Ferðaáætlunin stóðst upp á hár. „Djöfull ertu nákvæmur, Stefán!“ – Sagði fréttaritarinn upphátt við sjálfan sig um leið og hann renndi í hlað í Safamýri. Fréttaritarinn á það til að tala upphátt við sjálfan sig og í þriðju persónu. Það var líka ástæða til að fagna. Klukkan í bílnum sýndi nákvæmlega 19:15, en eins og glöggir lesendur þessa pistils ættu að vita, þýðir það í raun 19:13.
Það voru því veruleg vonbrigði að heyra fagnaðarlæti vallargesta – fyrst lágstemmd og svo hálfri mínútu síðar kröftugari í þá mund sem gengið var inn á völlinn. Staðan var 1:0. Bannsettur dómarinn hafði flautað leikinn á rúmlega mínútu of snemma!
Ekkert er aulalegra en fréttaritari sem missir af marki – nema kannski fréttaritari sem missir af marki og getur ekki einu sinni drekkt sorgum sínum með dreytli úr markapelanum, því skjaldsveinninn Valur Norðri lék konu sína draga sig út að borða. Maður fer að spyrja sig hvar hollustan liggur í raun?
Eftir örlitla eftirgrennslan kom í ljós að brotið hafði verið á Indriða eftir þrjátíu sekúndna leik og það var Albert sem tók spyrnuna. Það reyndist þó ekki mikill tími til að ganga frá pappírsvinnunni, því eftir þriggja mínútna leik fengur Framarar aukaspyrnu á góðum stað. Hún small í þverslá en þaðan hrökk knötturinn til Tryggva sem renndi honum á Indriða sem skoraði auðveldlega, 2:0.
Fyrr í þessari viku tilkynnti Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra nýja reglugerð um heimild til heimaslátrunar. Flókið regluverk fylgir slátrun af öllu tagi hér á landi. Leiðarstefið í öllum þeim reglum er þó að aflífunarferlið skuli vera sem kvalaminnst og taka snöggt af.
Eflaust áttu fáir von á að heimaslátrunarreglugerðinni yrði fyrst hrint í framkvæmd í Safamýri og það á Víkingum frá Ólafsvík. En það tók vissulega skjótt af. Eftir fjórar mínútur og átta sekúndur var leikurinn búinn þegar boltinn lá í þriðja sinn í marki Ólsara. Fred opnaði þar markareikning sumarsins með snyrtilegu skoti.
Næstu mínútur óðu bláklæddir í færum til að auka muninn enn frakar. Albert komst einn í gegn en prýðilegur markvörður gestanna varði og Þóri mistókst að skora úr frákastinu. Tvö afbragðsfæri litu dagsins ljós áður en vallarklukkan sýndi kortér. Hrun Víkinga var algjört og sú hugsun flögraði að áhorfendum að það hafi verið mikil heppni að mæta þeim svona snemma. Þetta lið á eftir að hressast þegar líður á mót.
Upp úr miðjum hálfleiknum tóku okkar menn að slaka á klónni. Fred fékk eitt hörkugott færi og Þórir tvö, annað var skalli sem small í slánni. Staðan í leikhléi 3:0 en hefði svo auðveldlega getað verið 7:0.
Már kom inná fyrir Tryggva þegar seinni hálfleikur hófst og leikurinn var sem fyrr á sömu nótum. Vonlitlir Ólsarar áttu í vök að verjast og urðu smám saman pirraðir og létu það birtast í óþarfa brotum. Þegar fimm mínútur voru búnar af seinni hálfleik átti Þórir flotta rispu upp að endamörkum, sendir fyrir á Albert sem var skónúmerinu frá því að breyta stöðunni í 4:0. Það gerði hins vegar Fred í næstu sókn eftir að Már lék sig vel í gegn, sendi fyrir og þar þrír Framarar þvældu honum á milli sín áður en brasiíska undrið tók af skarið.
Eftir þetta fór leikurinn að snúast upp í hálfgerða vitleysu, þar sem hafsentarnir voru jafnvel farnir að skella sér fram og reyna að skora með löppunum (má það?) Það var því þvert á gang leiksins að gestirnir náðu skalla í þverslá þegar hálftími var eftir og bættu svo um betur mínútu síðar þegar Kyle skoraði klaufalegt sjálfsmark. Raunar hafði einn Víkingurinn örlítið fyrr brotið klunnalega á Þóri án þess að nokkuð væri dæmt. Þórir höltraði meiddur af velli, vonandi ekkert langvinnt. Aron Snær kom inná í staðinn.
Markvörður Víkinga virtist brjóta augljóslega á Aron Snæ í úthlaupi þegar kortér var eftir, en dómarinn sem er á undan sinni samtíð var ekki á sama máli. Fimm mínútum síðar hikaði hann hins vegar ekki við að dæma andi ódýra vítaspyrnu hinu megin eftir smástympingar Gunnars við einn Ólsarann, 4:2. Í kjölfarið fór Aron Þórður af velli en Guðmundur Magnússon kom inná í staðinn. Hann fékk síðasta dauðafæri okkar í leiknum þegar þrjár mínútur voru til leiksloka, en skaut beint á markvörðinn. Magnús kom inn á í blálokin fyrir Fred.
Markatalan blekkir. Munurinn var vissulega ekki nema tvö mörk en Víkingar prísa sig væntanlega sæla af munurinn hafi ekki orðið sex eða sjö. Frammistaða okkar manna var góð. Albert var verðskuldað valinn maður leiksins, en ýmsir aðrir stóðu sig vel. Það er þó erfitt að leggja mat á leik sem kláraðist í raun á fyrstu fjórum mínútunum. Byrjunin lofar í það minnsta góðu. Næsti leikur verður í Eyjum en þar verður enginn fréttaritari.
Stefán Pálsson