Byrjum á stund sannleikans. Fréttaritari Framsíðunnar hefur átt betri daga en þennan þjóðhátíðardag. Fyrir því eru ekki þjóðernislegar ástæður eða sérstök andúð á þeim táknmyndum lýðveldisins sem skjóta oft upp kollinum á þessum degi. Nei, skýringin liggur frekar í þeirri staðreynd að fréttaritarinn tók að sér að stýra bjórsmökkun fyrir stóran hóp Framara í veislusal félagsins að loknum Þróttarleiknum. Sem kennari hefur fréttaritarinn alltaf trúað á þá aðferð að leiðbeina með fordæmum. Það var þungt höfuð og önugur magi sem vöknuðu í morgunsárið. Lifrin er löngu búin að gefast upp á að kvarta.
Þar sem dagurinn var fullur af fjölskylduskuldbinginum, félagsmálastörfum og þjónkun við fjórða valdið með því að mæta í brakandi hita sjónvarpsljósanna í EM-stofu Stöðvar 2 sport – auk síðdegislúra og nauðsynlegrar inntöku á fitu, sykri og svörtu kaffi – gafst lítill tími til að setjast niður til skýrslugerðar fyrr en í lok dags. Þá fyrst rann upp fyrir fréttaritaranum að hann er þegar búinn að spandera fyrirsögninni „Hæ hó jibbý jei“ í annan pistil á þessari leiktíð. Eins og það hefði nú verið tilvalinn titill að nota á 210 ára afmæli Jóns Sigurðssonar.
Blessunarlega er þó lag Upplyftingar um sautjánda júní smekkfullt af öðrum góðum frösum sem hægt er að nota í sama skyni í umfjöllun um leik sem markaði í raun upphaf þjóðhátíðargleðskapsins í Reykjavík árið 2021. Þegar fólk mun eftir mörg á spyrja hver hafi verið hápunktur hátíðarhaldanna þetta árið, þá mun enginn tala um fjallkonur í múnderingu prílandi upp á háa palla til að lesa ljóð eftir dauða kalla – onei, fólkið mun nefna epískan sigur Sambamýrarstórveldisins á Þrótti að kvöldi þess sextánda. Til að njóta þessa pistils til fullnustu er því mælt með því að fólk opni Jútúb og spili Hæ hó jibbý jei, þó ekki væri nema til að pabbi Gumma Magg fái stefgjöld fyrir fumlausan bassaleikinn.
Fréttaritarinn mætti í fínumannasamkvæmið hálftíma fyrir leik. Hann var ofklæddur eins og fábjáni í snjáða frakkanum sínum sem frú Steinunn vill láta farga, gula vestið góða var látið vera heima. Þessi dómgreindarlausa ákvörðun byggðist á því að fyrr um daginn hafði fréttaritarinn mætt á fótboltaleik í fimmta flokki í veðravítinu sem Stjörnuvöllurinn er og sloppið þaðan við illan leik. Er ekki Stjarnan örugglega að fara að falla svo við fáum ekki öll bronkítis eftir Garðabæjarferð á næsta ári? Í Sambamýri var tiltölulega stillt og fallegt veður, þokkalega hlýtt og að mestu laust við úða þrátt fyrir að skýin hefðu í hótunum.
„Í hjarta sínu fólkið gleðst og syngur lítið lag“, söng Upplyfting og það lýsti stemningunni á vellinum. Það var stappað á pöllunum og í hópnum mátti sjá andlit sem varla hafa mætt frá 2013. Allir vilja skiljanlega stökkva á Framvagninn, en samt var örlítið óvænt að sjá sjálfan Erp Eyvindarson mættan með fríðu föruneyti! Honum er svo sannarlega boðið!
Ein breyting var gerð á byrjunarliðinu frá fyrri leikjum. Albert hefur verið að kljást við lítilsháttar meiðsli og því var ákveðið að hvíla hann að þessu sinni fyrir bikarleikinn uppá Skaga í næstu viku. Gummi Magg kom því inn sem fremsti maður en Þórir færði sig aftur í stöðu Alberts. Indriði Áki og Aron Þórður voru með honum á miðjunni, Fred og Tryggvi hvor á sínum kanti, Haraldur og Alex bakverðir, Kyle og Gunnar miðverðir og Ólafur í marki. Þið ættuð að vera farin að læra þetta núna…
Sagt er að forseti og varaforseti Bandaríkjanna megi ekki ferðast saman í flugvél, til að minnka líkurnar á að báðir farist í slysi. Þessari skynsamlegu varúðarráðstöfun skaut upp í kollinn þegar í ljós kom að fréttaritaranum hafði verið fundinn staður með tvo af Orrasonum á aðra hönd en fóstbræðurna Steingrím Sævarr og Auðun Georg á hina. Má þetta? Eru ekki takmörk fyrir því hversu miklum vísdómi og mannviti óhætt er að safna saman á litlum reit, hvað þá á farsóttartímum?
Fyrstu mínúturnar fóru í að venjast nýja Þróttarbúningnum. Síðustu misserin hafa vinir okkar í Þrótti boðið upp á treyjur sem þykjast vera Valsbúningur að aftan. Nú hefur þeim verið skipt út fyrir útgáfu sem reynir að vera FH-búningur á bakinu. Mætti ég þá frekar biðja um strangheiðarlegu röndóttu náttfötin sem stofnendur félagsins ákváðu í bragganum á Grímstaðarholtinu á ofanverðum fimmta áratugnum. Standið með valinu ykkar Þróttarar!
Þessar treyjupælingar gerðu það að verkum að fréttaritarinn gleymdi að punkta hjá sér fyrsta dauðafæri gestanna, þegar Róbert Hauksson slapp einn í gegn en Ólafur varði vel. Þróttarar höfðu greinilega ekki fengið minnisblaðið um að þeir ættu að leggjast flatir og leyfa okkur að marsera óáreittir hina óumflýjanlegu sigurför okkar til fyrirheitna landsins. Fyrsta stundarfjórðunginn voru þeir mjög frísklegir, áttu síst minna í spilinu og sköpuðu sér ágæt færi.
Stuðningssveitin Geiramenn, sem safnast hafði saman á Kringlukránni fyrir leik, lét þetta ekki slá sig út af laginu heldur söng og trallaði frá fyrstu mínútu – rækilega efld með Kristjáni Frey sem yfirtrommuleikara, sem gengur í öll störf í félaginu um þessar mundir. Blessunarlega voru Framarar heldur ekki lengi að losna við þennan upphafsskjálfta og fyrsta markið leit dagsins ljós eftir stundarfjórðung. Brotið var á Fred rétt fyrir utan vítateig. Hann tók aukaspyrnuna sjálfur og lyfti inn í teiginn þar sem Kyle stökk hæst allra og skallaði auðveldlega í netið, 1:0.
Næstu tíu mínúturnar áttu Framarar góðar sóknarlotur, þar sem Alex kom við sögu og liðið tók smátt og smátt völdin á miðjunni. Það var því nokkuð gegn gangi leiksins þegar Þróttarar jöfnuðu eftir tæplega hálftíma leik með einföldum skalla upp í þaknetið eftir hornspyrnu, 1:1.
Hamingja gestanna reyndis skammvinn. Tveimur mínútum síðar var brotið á Guðmundi rétt fyrir utan vítateig. Þórir stillti knettinum upp og lét ríða af skot sem var ekki tiltakanlega fast en alveg út við stöng og tókst einhvern veginn að leka framhjá markverðinum, 2:1. – Undir eðlilegum kringustæðum hefði markafleygurinn góði nú verið dreginn upp úr vasa Vals Norðra, en því var ekki að heilsa. Enn og aftur skrópaði skjaldsveinninn, með þeim afleiðingum að sífellt fleiri fastir lesendur þessara pistla eru farnir að draga tilvist hans í efa. Er Valur Norðri í raun einhvers konar Tyler Durden-týpa og hvergi til nema í hugskoti fréttaritarans? Í ljósi þess hvernig átti eftir að spilast úr morgundeginum má þó teljast ágætt að fleygurinn var ekki með í för.
Þróttarar minntu aftur á sig með bylmingsskoti tíu mínútum fyrir hlé. Það sem eftir var af hálfleiknum áttu Framarar hins vegar skuldlaust. Fred tókst nánast að prjóna sig í gegnum fjóra Þróttara og uppskar horn. Allar hornspyrnur Framara í leiknum ollu stórkostlegu uppnámi í liði þeirra röndóttu ekki hvað síst þar sem markvörðurinn var rúinn sjálfstrausti eftir mark Þóris. Úr einu horninu, á 40. mínútu sendi Fred beint á kollinn á Guðmundi sem breytti stöðunni í 3:1.
Á lokamínútunni áttu Framarar enn eina hornspyrnuna sem var hreinsuð frá en Halli kom aðvífandi, skaut að marki og notaði Guðmund nánast sem batta. Boltinn hrökk í netið og Gummi bætti enn á markareikninginn, 4:1.
Það var létt yfir mannskapnum í hléi og kaffibrauðið hvarf eins og dögg fyrir sólu. Hrókasamræður við félaga Erp leiddu til þess að fréttaritarinn var seinn út völl og var rétt sestur þegar Fred átti sendingu á Þóri sem lét vaða úr vítateigshorninu, í einn Þróttarann og þaðan í netið, 5:1 og leikurinn rækilega búinn þótt enn væru nærri 40 mínútur eftir að forminu til.
Í hléi hafði Guthrie komið inn fyrir Tryggva. Það er sérstaklega skemmtilegt að fylgjast með því hvað stuðningsmenn á pöllunum verða barnslega spenntir og glaðir í hvert sinn sem hann kemst í tæri við boltann.
Eftir klukkutíma leik lá boltinn enn á ný í Þróttarnetinu en Indriði Áki var dæmdur rangstæður. Fimm mínútum síðar var dæmd vítaspyrna á Aron Þórð fyrir hálfklaufalegt samstuð, en Ólafur gerði sér lítið fyrir og varði ágæta spyrnu. Enn þurfti Óli að hafa sig allan við fimm mínútum síðar eftir góðan skalla eins Þróttarans. Á þessum tíma var varnarleikur okkar manna alltof kærulaus og einkenndist nánast af hroka.
Þreföld skipting á 73. mínútu hrærði upp í hlutunum. Óskar, Arons Snær og Hlynur komu inn fyrir Gunnar, Fred og Guðmund. Sérlega er ánægjulegt að sjá Hlyn koma aftur úr löngum meiðslum. Breiddin í hópnum okkar er fáránlega mikil.
Slök spyrna Þóris á 75. mínútu var næstum búin að leka inn vegna farsakennds varnarleiks og markvörslu Þróttar, sem mátti heita einkennandi fyrir leikinn. Nokkrum mínútum síðar átti Guthrie bylminggskot rétt yfir. Í síðustu skiptingu leiksins kom Már inn fyrir Aron Þórð. Fleira bar þó ekki til tíðinda enda 5:1 sigur andskotans nóg.
Það var kátt á hjalla í veislusalnum að leik loknum. 21 stig eftir sjö umferðir er ekkert minna en stórkostlegt. Engu að síður bar flestum sem rætt var við saman um að okkar menn hafi í raun ekki átt neinn sérstakan leik – og það sem skringilegra var, að mörkin komu ekki endilega á þeim köflum leiksins þar sem við lékum best heldur þvert á móti.
En betri getur upptakturinn varla orðið fyrir stórleikinn í bikarnum í næstu viku. Nú verður Hvalfjörðurinn tekinn, stoppað í Staðarskála og heitar étnar pylsurnar. Reyndar skilst fréttaritaranum að bikarmeistaratitillinn í haust muni ekki gefa okkur sæti í Evrópudeildinni heldur í nýjum Framrúðubikar Evrópu sem verið er að stofna. Það eru ákveðin vonbrigði en við munum láta okkur hafa það samt.
Stefán Pálsson