fbpx
Þórðir vefur

Foreldrar og synir

Táningurinn á heimili fréttaritara Framsíðunnar fékk húsið undir sig og vini sína í kvöld. Ekki til að halda e-pilluknúið reif eða kýla í fötu og hluta í táningsangistarrokk með lystarstolnum heróínsjúklingum. Ónei. Planið var að búa til grænmetis-dumplings frá grunni og gúffa í sig undir söngleikjatónlist. Æskan er svo heilbrigð að það er skuggalegt.

Fyrir vikið var yngri grísinn, Valsarinn með ljósa bifukolluhárið skikkaður með í Sambamýrina. Litla dýrið er stríðalið þessi misserin, haldandi með bæði Val og Manchester City. Þegar þú ert tólf ára er söguvitundin takmörkuð og ég á síðar eftir að útskýra fyrir honum hvílíkt happ það hafi verið að fá að sitja við hliðina á sjálfum Pétri Ormslev og gúffa í sig Subway-snittur fyrir leik.

Sumarleyfi, útileikir og sóttkví andstæðinga gerir það að verkum að fréttaritarinn hefur ekki mætt á völlinn í háa herrans tíð. Raunar ekki síðan í leiknum á móti Aftureldingu fyrir margt löngu. Fótboltaþorstinn var því mikill. Andstæðingarnir ekki af verri endanum: hörkugott Fjölnislið sem við máttum hafa okkur alla við að vinna í fáránlegum slagviðrisleik í Grafarvogi í vor. Að þessu sinni voru veðuraðstæður allar hinar bestu. Þunn skýjahula, hlýtt og stillt veður. Gráa peysan var notuð í fyrri hálfleiknum en stuttermabolurinn eftir hlé. En var gula vestið með í för? Ekki spyrja svona kjánalegra spurninga!

Afmælisbarnið Jón Sveinsson útskýrði á hlaupum fyrir leik að margir leikmenn væru tæpir. Sumir væru þó í byrjunarliði, aðrir á bekknum eða utan hóps. Breiddin hjá Fram er mikil í ár eins og fram hefur komið og því var ekki að sjá af uppstillingunni að þjálfarateymið hafi verið í vandræðum. Ólafur í markinu, Kyle og Aron Kári í miðvörðum, Halli og Alex bakverðir. Aron Þórður aftastur á miðjunni með Indriða Áka og Albeerrt fyrir framan sig. Fred og Alexander á köntunum og Þórir fremstur.

Fréttaritarinn arkaði að álitlegum sætum og veitti því enga athygli að sætaval væri ekki frjálst. Sætin reyndust frátekin fyrir Gauta Laxdal og félaga hans. Gauti og fréttaritarinn halda báðir með Luton Town og var því lítið mál að leysa úr þessu. Þeir hlömmuðu sér í næstu sæti við hliðina – sem reyndust vera sætin sem fréttaritarafeðgunum hafði verið úthlutað! Í röðinni fyrir neðan sat svo kona sem reyndist móðir Þóris Guðjónssonar. Reyndist hún viðræðugóð og náði vel saman við úfna Valsdrenginn. Það er alltaf gaman og heimilislegt að hitta foreldra leikmanna á vellinum.

Okkar menn byrjuðu með látum og á fyrstu fimm mínútunum litu þrjú góð færi dagsins ljós, þar sem markvörður Fjölnis varði m.a. yfir frá Aroni Þórði og Alexander Már var nærri því að skora. Fjölnismenn virtust slegnir út af laginu, lágu mjög aftarlega og máttu bara þakka kæruleysi sóknarmanna Fram fyrir að lenda ekki 2-3 mörkum undir á fyrstu tuttugu mínútunum. Fyrri hálfleikur var nærri hálfnaður þegar fréttaritarinn páraði hjá sér fyrsta hálffæri Fjölnis, en Fram var þá búið að ná 6-7 alvöru sóknarlotum.

Leikáætlun gestanna var greinilega að traysta á skyndisóknir og þeim tókst í fáein skipti að brjóta sér leið upp völlinn, en miðvarðaparinu tókst í hvert einasta skipti að verjast. Aron Kári á sérstakt hrós skilið fyrir frammistöðuna í kvöld.

Eftir rétt um hálftíma leik átti Þóri frábæra sendingu á Albert sem var einn á móti markverði en flaggaður rangstæður – sem virtist í það minnsta afar tæpt. Um það vorum við móðir Þóris hjartanlega sammála.

Nokkrum mínútum síðar áttu Framarar flotta skyndisókn. Alex Freyr tók á rás upp kantinn og átti góða stungusendingu fyrir markið sem Indriði Áki framlengdi áfram á Þóri sem var á auðum sjó og afgreiddi boltann glæsilega í netið, 1:0. Tvö foreldri og Valsgutti fögnuðu vel. Það sama gerðu Framarar umhverfis. Áhorfendastúkan í Sambamýri þessi misserin lítur út eins og Hverjir voru hvar-dálkurinn í Fókus í upphafi aldar. Þannig var gaman að sjá stjörnusenterinn og Sveitta gangavörðinn Andra Fannar Ottósson í hópnum. Lengi verður í minnum haft þegar hann lagði skóna á hilluna alltof snemma en gerði það með lærðri bókmenntavísun í lagið „Aðeins smekksatriði“ eftir Megas. Við þurfum meiri Megas í nútímaknattspyrnu.

Á markamínútunni virtist Albert ætla að tvöfalda forystu Framara en var flaggaður rangstæður. Mínútu síðar komst Indriði Áki einn í gegn en skaut yfir – í sömu sókn virtist Albert togna en náði þó að halda áfram, góðu heilli. Það sem eftir leið hálfleiks komust Þórir og Albert báðir í ágæt færi. Yfirburðir Framarar voru algjörir.

Það var létt yfir mannskapnum í anddyri Framheimilisins í leikhléi, þótt Framherjakaffi eða sjoppurekstur væri ekki í boði í sóttvarnarskyni. Borgarfulltrúi Samfylkingarinnar var öllu brattari en þegar hann lék Jens í Karíusi og Baktusi fyrir ótal árum, enda óaðfinnanlega tannburstaður. Trymbillinn Óskar er líka snúinn aftur af krafti, eftir að hafa verið fremur lítt virkur seinni hluta síðasta tímabils og frameftir þessu. Óskar á stóran þátt í því að við Framarar erum ekki bara langbesta liðið inni á vellinum í ár, heldur einnig langsniðugust á pöllunum. Það eina ergilega í hléi var að forystan væri ekki 3-4 mörk.

Seinni hálfleikur byrjaði eins og þeim fyrri lauk. Framarar áttu nokkur markskot en engin sérlega hættuleg ef frá er talið bylmingsskot Þóris, sem var frábær í kvöld, á 52. mínútu sem Fjölnismarkvörðurinn varði glæsilega. Þó ekki nógu glæsilega til að fréttaritari Framsíðunnar hirði um að víkja frá þeirri vinnureglu að nafngreina helst enga leikmenn andstæðinganna í þessum pistlum.

Eftir fyrstu tíu til fimmtán mínúturnar var eins og botninn dytti úr leik okkar manna. Fjölnismenn tóku að sækja og sífellt lengra varð á milli sókna Framara. Þegar seinni hálfleikur var akkúratt hálfnaður lá boltinn í Framnetinu eftir ágætan skalla Fjölnis. Flaggið var hins vegar farið á loft til marks um rangstöðu – sem fréttaritarinn er alls ekki sannfærður um að hafi verið réttur dómur…

Þegar um tuttugu mínútur voru eftir gerðu afmælisbarnið og Aðalsteinn tvöfalda skiptingu. Albert fór af velli fyrir Danny Guthrie. Beint í kjölfarið kom svo tvöföld skipting þar sem Alexander og Þórir fóru af velli fyrir þá Má og Gumma Magg. Sá síðarnefndi var nánast kominn á blað mínútu síðar eftir góðan undirbúning frá Fred.

Rétt á eftir átti Kyle hörkutæklingu sem virtist góð og gild. Hann uppskar þó gult spjald að launum á meðan gestirnir vildu sjá annan lit. Mótherjinn var studdur meiddur af velli. Skömmu síðar þurfti Óli að taka á honum stóra sínum í nánast eina skiptið í leiknum þegar hann varði vel skot frá Fjölnismönnum, en flagg aðstoðardómarans var raunar komið á loft.

Þegar fimm mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma skeiðaði Indriði Áki upp völlinn, var sloppinn einn í gegn en felldur á vítateigslínu. Beint rautt spjald virtist augljós dómur en andstæðingurinn slapp með gult – en hafði áður nælt sér í annað slíkt með því að hrinda Aroni Þórði upp úr þurru (væntanlega af hreinni öfund af því að Aron Þórður var frábær í leiknum – og er að verða ein af vanmetnustu hetjum þessa sumars) og Grafarvogsbúar því tíu undir lokin.

Þegar komnar voru tvær mínútur fram yfir venjulegan leiktíma Fékk Már boltann úti á kanti, skildi varnarmann Fjölnis eftir í gúmmíkurlsrykinu og renndi glæsilega fyrir markið þar sem Gummi Magg potaði í netið af metersfæri, 2:0. Alvöru framherjamark og sigurinn í höfn. Þrátt fyrir það náðu Framarar enn 1-2 sóknum og heiiðursskiptingu þar sem Halli og Fred fóru af velli fyrir þá Gunnar og Matthías. Vestfirðingurinn var augljóslega einvörðungu settur inn til að geta stýrt zigga-zagga í leikslok. Mögulega er Matti besti zigga-zagga forsöngvari frá því að Jón Pétursson kynnti þennan sigursöng til sögunnar fyrir tæpum 50 árum. Það er sjálfsögð krafa að aðalstjórn Knattspyrnufélagsins Fram hefji nú þegar formlegt ferli til að fá zigga-zagga tekinn upp á menningarminjaskrá Unesco.

Næsti leikur er í Ólafsvík. Þangað mun fréttaritarinn vonandi mæta með skjaldsveininum Val Norðra og markafleygnum góða, en labbakúturinn sá ákvað eina ferðina enn að taka fjölskylduskuldbindingar og ferðalög fram yfir leikinn. Ljótt, ljótt sagði fuglinn.

Stefán Pálsson

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!