Það er algjör samningaveisla í gangi hjá meistaraflokki kvenna á þessum lokadegi félagaskiptagluggans.
Fimm leikmenn hafa framlengt samninga sína um 2 ár, tveir nýjir leikmenn hafa skrifað undir 2 ára samning og einn leikmaður kemur að láni frá KR.
Lára Ósk Albertsdóttir kom til Fram frá HK fyrir síðasta tímabil en náði ekki að spila leik með liðinu þar sem hún varð ólétt stuttu áður en tímabilið hófst. Hún er nú mætt aftur, betri en nokkurntímann, og klár í slaginn með liðinu næstu 2 árin hið minnsta. Lára er flinkur og vel spilandi miðjumaður með góða sendingagetu.
Ólöf Ragnarsdóttir kom einnig til Fram frá HK fyrir síðasta tímabil en sleppti því að verða ólétt. Hún gegndi stóru hlutverki í velgengni síðasta árs þar sem hún spilaði bæði sem sóknar- og miðjumaður. Olla er kraftmikill og framsækinn miðjumaður en líka aðaltrúðurinn í hópnum, það skal ekki vanmeta það.
Auður Erla Gunnarsdóttir er uppalin hjá Fram og í henni rennur algjörlega blátt blóð. Auk þess að spila með meistaraflokki kvenna þjálfar hún yngri flokka bæði karla og kvenna. Auður er skynsamur no-nonsense hægri bakvörður og mjög öflugur karakter.
Þórdís Ösp Cummings er ólíkindatól. Síðustu 2 tímabil hefur hún spilað sem sóknarmaður en leyst af í flestum stöðum eftir þörfum, m.a. í marki. Fyrir þetta tímabil og það næsta að lágmarki, verður hún alfarið í markmannstreyjunni. Þórdís er áræðin í úthlaupum og óhrædd, sem sést á því að hún fer lúmskt slösuð heim eftir hverja einustu æfingu.
Karítas María Arnardóttir kom til Fram frá Leikni þegar meistaraflokkur kvenna var stofnaður árið 2020. Hún var fyrirliði liðsins á sínu fyrsta tímabili, þrátt fyrir að vera aðeins 18 ára, og er virkilega öflugur karakter í hópnum og utan hans. Karí er hægri bakvörður í grunninn en getur leyst miðvarðastöðuna vel líka, sem hún gerði í bandaríska háskólaboltanum síðastliðinn vetur.
Allar framlengja þær samninga sína við Fram um 2 ár.
Ylfa Margrét Ólafsdóttir kemur til Fram frá uppeldisfélagi sínu, Haukum. Ylfa er vængmaður sem býr yfir miklum hraða og sprengikrafti og er verulega öflug í pressunni. Hún hefur staðið sig vel með liðinu á undirbúningstímabilinu og sýnt að hún hefur alla burði til að ná langt.
Guðrún Pála Árnadóttir kemur til Fram frá uppeldisfélagi sínu, Víkingum. Guðrún er fjölhæf og mjög efnileg, hvort sem það er sem miðjumaður, bakvörður eða kantmaður. Hún er fljót og sterk með góðan fótboltagrunn.
Báðar semja þær við félagið til 2 ára.
Emilía Ingvadóttir kemur til félagsins að láni frá KR. Hún er nútíma miðvörður með góðan leikskilning og boltameðferð og mjög gott auga fyrir spili. Hún hefur staðið sig mjög vel með liðinu á undirbúningstímabilinu og var meðal annars valin maður leiksins í leik liðsins gegn Víkingi í Mjólkurbikarnum.
Fram býður þessa glæsilegu leikmenn allar velkomnar í félagið. Við hlökkum mikið til að sjá þær á nýjum velli félagsins í Úlfarsárdal í sumar og á komandi árum. Framtíðin er klárlega björt.
Knattspyrnudeild Fram