Þeir fjölmörgu bláklæddu Frammarar sem lögðu leið sína í Víkina í kveld voru pínu óöruggir og ráðvilltir til að byrja með er leiktíminn nálgaðist. Ekki skrifaðist þetta óöryggi á starfslokin hjá sóttvarnarlækni heldur var Stefán Pálsson hvergi sjáanlegur – maðurinn sem er í baráttusæti hjá Vinstri Grænum fyrir borgarstjórnarkosningarnar næsta laugardag. Þessi léttklæddi aðgerðarsinni sem hefur séð okkur fyrir listaskemmtilegum leiklýsingum var að skrópa. Reyndar hefur Stefán þótt klæða sig óvenju vel að undanförnu, jafnvel sést í peysu í staðinn fyrir að skarta litríkum bol með fótboltatilvísun á belgnum. Líklega er þetta ástæðan fyrir því að hann hafði lagst endilangur í rúmið með flensu dauðans, núna korter fyrir kosningar. Á meðan hann ætti með réttu ná sem flestum knattleikjum íklæddur gula vestinu sínu, milli þess sem hann arkar um og kyssir börn á kollinn, eða má það ekki lengur?
Andstæðingar Fram að þessu sinni voru ekki af verri endanum, tvöfaldir meistarar síðasta árs þar sem allt féll með þeim, sem fallið gat með þeim, sem í raun féll með þeim (ekki mín besta setning – en hér er verið að draga það fram að það féll ALLT með þeim sem fallið gat með þeim). Þetta gekk reyndar svo langt að samtök barnabókahöfunda sögðu að þetta væri einum of langt gengið – við uppgjör og endalok á sögu, t.d. í meðalgóðri barnabók má ekki allt ganga upp – bara flest. Börn verða að upplifa smá andstreymi endrum og eins til að höndla raunveruleikann. Þannig að skilaboðin eru skýr; haldið ykkur við raunveruleikann Víkingar!
Víkingar mæta með svipað lið og í fyrra. Reyndar hættu tveir reynslumestu menn liðsins og er aðalstyrkaraðili þeirra, Voltaren Forte enn að ná sér. Til að bæta gráu ofan á svart þá nöppuðu þeir okkar eina sanna Kyle McLagan úr vörninni til þess eins að hafa á bekknum hjá sér, ef ske kynni að Halldór Smári Sigurðsson af Giljalandi eða Oliver Ekroth væru hnjaskaðir. Reyndar hafa áhrif Kyle verið svo lítil hjá Víkingum að sumir þeirra hafa ruglað honum saman við leikarann Kyle MacLachlan – þið munið Dale Cooper úr Twin Peaks…„Dear Diane“
Undirritaður á pínu erfitt með að skrifa þessa leiklýsingu, búandi í hjarta Víkingshverfisins og með dætur sem æfa hjá klúbbnum og hafandi mætt á þeirra úrslitaleiki í fyrra (sem bílstjóri barna auðvita og til að vera gjaldgengur í hverfispartíin). En Víkingar hafa alltaf, nema hugsanlega í fyrra, verið okkar litlu systkini sem hafa yfirleitt haldið sig á mottunni, í raun alveg frá stofnun. Systkinahópur sem hefur einbeitt sér að vinna glæsta titla í borðtennis eða öðrum jaðarsportum, engum til ama eða armæðu. Miðað við byrjun mótsins virðast Víkingar stefna hraðbyrði þangað aftur, því allt leitar jafnvægis að lokum.
Undirritaður tók veðrið rétt áður en haldið var að stað gangandi í Víkina, suddi og norðaustan kaldi kallaði vissulega á ullardress og auðvita var engin þörf fyrir sólgleraugu né derhúfu. Vissulega hitnaði manni við að ganga á völlinn og síðan fór sólin að skína sem aldrei fyrr og allt datt í dúna logn, það átti eftir að hafa veruleg áhrif á framhald leiksins.
Fyrir leik voru miklar vangaveltur í fínukallaboði þeirra Víkinga hvernig þessi leikur myndi byrja – þar sem undirritaður graðgaði í sig föstum veitingum og skolaði niður með öli. Hvernig byrjar meistaralið leik á móti liði sem er nýbúið að gefa þeim eftir heimkynni sín? Hvernig myndu Kyle McLagan og Helgi Guðjóns – fyrrum leikmönnum okkar ganga að gefa boltann á bláa skyrtur? Hvernig myndu okkar menn höndla lognið í Fossvoginum? Hvernig myndu áhorfendur höndla það að koma úr Stjörnustúkunni – sem er kaldasta stúka landsins yfir í heitustu stúku landsins? Spurningarnar voru fjölmargar, en svörin duttu eitt af öðru inn þegar leið á kveldið.
Uppstilling Framliðsins var nokkuð hefðbundin enda Jón Sveinson hefðarsinni fram í fingurgóma. Hlynur og Delphin í miðvörðum, Alex og Mási í fullbökkum. Tryggvi og Indriði þar fyrir framan og svo Fred, Albert og Jannik þar rétt fyrir framan á meðan Guðmundur tyllti sér uppá topp.
Sólin skein sem aldrei fyrr í upphafi leiks og grillmökkurinn lá yfir vellinum þannig að áhorfendur í gestahluta stúkunnar þurftu að geta sér til hvað var að gerast á vellinum. Allt leit vel út í upphafi – jafnræði með liðunum og vorum við ívið sterkari ef eitthvað var. Þessu jafnvægi var svo raskað strax á 10 mínútu ef einn Víkingurinn fékk sendingu á fræstöng til þess eins að skalla fyrir á annan Víking sem var einusinni bláklæddur og sá gerði sér lítið fyrir og skallaði í markið. Hvort hér megi kenna grillmekkinum eða afstöðu sólar um – þá má ekki gleyma því að vörnin okkar ekkert að skítlúkka í þessu marki.
Áfram gakk – áhangendur Víkings voru svo brattir á þessum tíma að þeir hentu í eitt Víkingaklapp. Uppúr þeirri smekkleysu kom næsta mark og var það álíka tilkomulítið og fyrra markið. Þarna fóru hlaup og sending saman og skyndilega var maður einn á móti Óla og hann kláraði þá stöðu nokkuð vel.
Nú fór um alla Frammara í grillmekkinum og ekki átti ástandið eftir að skána. Sólbarðir og grillmökkaðir aðdáendur Fram horfðu því næst uppá leikmann sinn tapa stöðu sinni þar sem einföld sending galopnaði allar flóðgáttir. Þrjú núll eftir 26 mínútur og lítið stuð né stemming.
Þarna ákváðu Frammarar að hefja leik fyrir alvöru og settu nokkra pressu á Víkingsmarkið og var Fred nokkuð nálægt því að skora. Rétt fyrir leikhlé fékk Alex í nárann og kom Gunnar inná og fór Hlynur þá í bakvörðinn.
Hálfleikstjattið sérist aðalleg um þessa herfilegu stöðu og þá staðreynd að Víkingarnir hefðu nú ekkert skapað sér neitt fyrir utan þessi mörk. Nonni var ekkert að tvínóna við hlutina og henti í tvöfalda skiptingu, Albert og Gummi komu út og Alexander Már og Tiago komu inn. Þetta var fyrsti leikur Tiagó Manuel Da Silva Fernandes fyrir Fram síðan hann lék síðast með okkur árið 2019 í Innkassó deildinni fornfrægu.
Seinni hálfleikurinn var í meira jafnvægi – Víkingar tudduðu nokkuð á þessum tímapunkti og fengu einhver spjöld á meðan við fórum illa með fjölmargar álitlegar sóknarstöður. Ekki var Hlynur allskosta ánægður með stöðu mála – tók við boltanum á miðjunni og rakti hann eilítið fram á við til þess eins að ná fullkomnu skoti í nærhornið. Frammarar í stúkunni urðu forviða – hvenær hefur Hlynur skorað með þessum hætti. Var það ekki á móti Vestra í Borgunarbikarnum 2016 eða átti hann eitt svona mark með Þór 2014?
Á meðan þessar umræður áttu sér stað gerðu Víkingar fjórfalda skiptingu og við skoruðum vafasamt sjálfsmark – Gisp. Í framhaldinu kom Jesú bróðir bezti inná fyrir Indriða og leikurinn fjaraði út. Víkingar reyndu að venju að fiska eitt víti, hafandi ekkert lært af síðasta leik sínum gegn Leikni. Leikurinn koðnaði svo niður að endingu og dómarinn flautaði þetta af.
Af úrslitum kveldsins má ráða að leikurinn við Leikni næstkomandi mánudagskveld er afar mikilvægur. Þangað mæta allir og ömmur þeirra, sem og kvefsæknir frambjóðendur með kosningaþynnku.
Skjaldsveinninn