fbpx
Alex gegn leikni

Bannað að verjast!

Er hægt að hugsa sér stórkostlegri uppskrift að degi en þetta: glampandi sól og blíða, smekkfullur völlur í Dal draumanna af áhorfendum sem mættu löngu fyrir leik til að snúa á bílastæðafæðina og gúffa í sig bestu hamborgara á norðurhveli (orðið á götunni er að Framvöllurinn muni að ári deila Michelin-stjörnunni með Dill) og liðið þitt skorar fjögur mörk??? Vinningsuppskrift? Njah… gettu betur!

Leikur dagsins var svo skrítinn að deila má um hvort rétt eða eðlilegt sé að gera honum skil eins og hverjum öðrum fótboltaleik. Kannski væri heiðarlegast að játa sig einfaldlega sigraðan andspænis þessu furðufyrirbæri sem boðið var upp á í dag? Inniíþróttatímabilið er hafið á Íslandi. Fram er sögufrægt handboltalið og bauð í dag upp á handboltatölur í markaskorun. Vondu fréttirnar voru að Keflvíkingar eru frægir fyrir körfubolta…

Fréttaritarinn mætti seint. Hafði verið að lóðsa kvennahóp um söguslóðir í miðborginni og nennti því ekki að kíkja í fínumannaboðið á undan, en varði tímanum þess í stað í að mingla við pöpulinn í stúkunni. Þar gaf að líta blaðamanninn Gísla Frey, sem er rétt hægra megin við Atla Húnakonung í stjórnmálaskoðunum. Hann var peppaður fyrir Framsigri. Að lokum mættu Valur Norðri með markafleyginn, Rabbi og eldri sonurinn (sá sem hefur gaman af fótbolta, ekki sá yngri sem kemur bara fyrir snúðana og kleinurnar). Hópurinn kom sér fyrir steinsnar frá Geiramönnum með bókmenntafræðinginn, bróður biskupsins, á hægri hönd og mömmu Guðjónssona fyrir framan sig. Innvígðir skilja þessar ættfærslur.

Byrjunarliðið var á þessa leið: Óli í markinu, Delphin og Brynjar miðverðir, Alex og Már í bakvörðum. Miðjan var örlítið breytt þar sem Hlynur og Indriði Áki voru á miðsvæðinu með Fred og Tiago miðsækna hvor á sínum kanti, Jannik og Gummi Magg fremstir. Almarr var kominn á bekkinn og almennt séð var þetta sókndjarfari uppstilling en við höfum séð upp á síðkastið. Það átti ekki endilega eftir að fara vel.

Það var bongó í stúkunni. Þótt lofthitinn væri ekki nema 12-13 gráður skein sterk sólin á vallargesti. Svona hefur þetta alltaf verið í sumar. Fréttaritarinn myndi flytja í Úlfarsárdalinn með allri hans veðursæld ef hann óttaðist ekki að það myndi kosta hann hjónabandið. Stuðningsliðið var líka í banastuði, það var trommað og sungið frá fyrstu mínútu til hinnar síðustu. Hvað sem öðru líður er Knattspyrnufélagið Fram búið að taka öll önnur lið í nefið í stuðningsmannakeppninni á þessu sumri. Við eigum öll bestu lögin. Alla bestu trommarana. Og erum almennt mjög hnyttin þegar kemur að tilfallandi athugasemdum um andstæðinga og dómara. Þeir leikmenn Keflavíkur sem sáu ástæðu til að mæta hanskaklæddir áttu eftir að iðrast þess…

Keflavík byrjaði betur og átti nokkur hálffæri í blábyrjun, ekkert þó sem kallaði á að sultuslakur fréttaritarinn gripi til minnisbókar sinnar. Fyrsta færið sem eitthvað kvað að var eftir tæpar tíu mínútur þegar Jannik skeiðaði upp að endamörkum fram hjá hægri bakverði sem átti erfiðan dag í vinnunni, sendi fyrir en Tiago virtist tvístígandi og skaut laus og langt framhjá úr ágætisskotfæri. Mínútu síðar komust gestirnir yfir. Framarar misstu boltann aftarlega á vellinum og Keflavík geystist upp og skoraði, 0:1.

Markið virtist vekja okkar menn til lífsins og í kjölfarið virtustu blákæddir taka öll völd á vellinum. Á þrettándu mínútu unnu Framarar boltann framarlega á sínum vallarhelmingi, Fred lék honum fram á við og stakk svo inn fyrir á Alex sem hlóp alla af sér og afgreiddi boltann frábærlega í netið, 1:1. Flottur leikur hjá Alex í dag framávið, en aðeins öðru máli gegnir um varnarvinnuna líkt og hjá restinni af liðinu.

Fimm mínútum síðar varð staðan 2:1 eftir stórkostlega stungusendingu frá Tiago í gegnum Keflavíkurvörnina á Gumma Magg sem tók sér allan tímann í heiminum til að leika á aðvífandi varnarmenn og skora síðan af öryggi. Tiago fór með markinu langleiðina í að verða stoðsendingakóngur Bestu deildarinnar. Mikið gleðiefni að hann hafi nú undirritað nýjan samning við félagið.

Í stöðunni 2:1 virtust Framarar hafa öll völd í hendi sér. Jannik var síduglegur við að pressa út um allan völl og aðrir í Framsókninni létu rækilega finna fyrir sér. Fljótlega eftir annað markið átti Fred frábæra sendingu fyrir Keflavíkurmarkið sem Gummi var sentimetrum frá því að koma í netið en aðvífandi Keflvíkingur bjargaði frábærlega. Eftir hornspyrnuna í kjölfarið fékk Brynjar frían skalla en setti hann einhvern veginn yfir markið úr dauðafæri. Þriðja markið virtist liggja í loftinu! Már átti gott skot af löngu færi sem Keflavíkurmarkvörðurinn slá frá og eftir hálftíma leik stakk Tiago boltanum í gegn á Jannik sem hljóp hraðar en allir varnarmennirnir en freistaði þess að lyfta boltanum yfir markvörð Keflavíkur sem kominn var langt út og náði að verja.

Á þessum tímapunkti voru kokrosknir Framarar í stúkunni farnir að einbeita sér að því að rýna í snjallsíma sína til að fylgjast með stöðunni í leik Stjörnunnar og FH, enda þurftu hinir síðarnefndu að vinna til að koma Framliðinu úr ólyktardeildinni og í efri hlutann fyrir lokasprett Íslandsmótsins. En þá reið ógæfan yfir. Gestirnir fengu hornspyrnu og eftir farsakenndan varnarleik Framara fékk einn Suðurnesjamaðurinn að skalla auðveldlega í netið af löngu færi og jafna algjörlega upp úr engu. Mínútu síðar var staðan orðin 2:3 eftir að Framarar misstu boltann á versta stað í leik upp völlinn. Alltof auðvelt mark og slappur varnarleikur.

Fimm mínútur voru eftir af fyrri hálfleik þegar dæmd var aukaspyrna til hliðar við vítateig gestanna á einn Keflvíkinginn (ranglega – þetta var bara flott tækling) fyrir brot á Má. Tiago tók spyrnuna og lyfti inn í pakkann fyrir framan markið þar sem knötturinn þvældist einhvern veginn í netið. Það leit út eins og sjálfsmark en Jannik hafði vit á að fagna markinu og telst því eiga það, 3:3 og áhorfendur farnir að spyrja sig hvaða rugl væri eiginlega í gangi. Tveimur mínútum síðar fengu gestirnir horn og upp úr því frían skalla í netið og staðan 3:4. Markvörður og vörn verða að horfa í eigin barm eftir frammistöðuna í þessu marki og raunar mörgum, mörgum öðrum í dag. Þetta er ekki í lagi.

Þótt sjö mörk hefðu litið dagsins ljós þarna þegar áttu allir von á að þau yrðu fleiri. Eftirlitsdómarinn bætti bara við einni mínútu en í þeim uppbótartíma náðu Framararnir þó að skapa sér dauðafæri þegar knettinum var lyft inn á teiginn þar sem Gummi stökk fram en stangaði framhjá úr upplögðu færi.

Furðulostnir Framarar mættu í fínumannaboðið í hléi. Þrátt fyrir stöðuna gerðu allir sér vonir um sigur og áttu í mestu vandræðum með bæla Þórðargleðinu og halda í staðinn með FH á móti Stjörnunni. Það var amk ljóst að fleiri mörk yrðu skoruð eftir hlé…

Framarar blésu til sóknar í seinni hálfleik og eftir tveggja mínútna leik fór boltinn í hönd eins Keflvíkingsins. Dómarinn sá það en mat sem svo að það hefði ekki haft áhrif á leikinn. Skömmu síðar var Gumma hrint í skyndisókn Framara sem fengu fyrir vikið aukaspyrnu á besta stað en skotið fór hátt yfir. Tiago var svo í stóru hlutverki í tveimur efnilegum sóknarlotum – annarri með Alex en hinni með Jannik. Jöfnunarmarkið lá í loftinu!

Og þó… á 57. mínútu galopnaðist Framvörnin. Keflvíkingar komust í stórsókn með nokkrum marktækifærum, þar sem Óli varði vel en að lokum hirtu gestirnir frákastið og skoruðu 3:5 og Keflavík nánast með mark úr hverju einasta færi í leiknum!

Eftir rúman klukkutíma gerðu Nonni og Aðalsteinn tvöfalda skiptingu. Delphin og Fred fóru af velli fyrir Almarr og Albert. Sá fyrrnefndi varð sérstaklega sprækur eftir innákomuna. Nokkrum mínútum síðar kom svo Jesús inná fyrir Má, sem hafði líkt og Alex átt góðan leik fram á við þótt deila megi um framlagið hinu megin á vellinum. Í millitíðinni höfðu þau undur og stórmerki gerst að Keflvíkingar sköpuðu sér gott marktækifæri án þess að skora!

Jannik var hrint í teignum á 73. mínútu og heimtaði víti. Það var langsótt. Beint í kjölfarið ruku Keflvíkingar upp völlinn en Óli varði skot þeirra af örstuttu færi. Tveimur mínútum síðar endaði sókn Keflvíkinga – sem virtist endalaus því okkar mönnum tókst aldrei að hreinsa í burtu – á því að enn leikmanna þeirra náði að rúlla boltanum í markhornið af löngu færi, 3:6 og úrslitin strax farin að líta út eins og malasískt veðmálasvindl.

Brynjar var nærri búinn að rétt hlut Framara skömmu síðar með hörkuskalla eftir horn sem var vel varin. Þegar tíu mínútur voru eftir af leiknum átti Tiago langa stungusendingu inn þar sem Jannik sýndi mikla hörku og dug, barði af sér varnarmann og hljóp einn í gegn og minnkaði muninn í 4:6. Stemningin í stúkunni var öll á einn veg: við værum enn fyllilega inni í þessum leik og gætum auðveldlega jafnað!

Mínútu síðar átti Alex hörkugott skot sem markvörður Keflavíkur mátti hafa sig allan við að slá framhjá. Þetta var síðasta framlag Alex í leiknum sem fór skömmu síðar útaf fyrir Magnús.

Eftir þetta fjaraði nokkuð undan leiknum, en gestirnir skoruðu þó tvívegis. Annars vegar með óverjandi klínu í samskeytin frá vítateigshorni og hins vegar af stuttu færi milli fóta Óla. Lokastaða 4:8. Fáránlegar tölur og fáránlegur leikur. Úrslitin endurspegla vissulega ekki vel gang leiksins en okkar menn þurfa þó verulega að líta í eigin barm og ljóst að stjórnendateymið lagði ekki varnarleikinn rétt upp í dag. Við blasir hörkubarátta í neðri hluta Bestu deildarinnar þar sem ekkert má klikka. Næsta stopp: ÍR – Fram í úrslitakeppninni hjá stelpunum á morgun, sunnudag.

Stefán Pálsson

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!