fbpx
fred gegn val.

Eyðimerkurhálsar

Almennt er álitið að Jobsbók gamla testamentisins hafi verið rituð einhvers staðar á milli 7du og 4ðu aldar okkar tímatals. Hún segir frá Job sem er heiðvirður og góður maður sem drottinn allsherjar ákveður þó að prófa með því að leggja á hann hinar svæsnustu píslir og hörmungar. Einhverjir kynnu að segja að þema Jobsbókar hafi verið endurnýtt á skrokk fréttaritara Framsíðunnar sem hefur mátt þola að yngri sonurinn, hans eigið hold og blóð, haldi með bæði Val og Manchester City! Þessi djöfullega blanda hefur oft tekið á sig undarlegar birtingarmyndir. Nú síðast þeirri að fréttaritarinn hélt um helgina til Englands með orminn í síðbúinni borgaralegri fermingargjöf með þeirri afleiðingu að á tæpum sólarhring horfði hann á tvo fótboltaleiki. Fyrst Man. City : Newcastle og því næst Fram : KA.

Nú má margt slæmt segja um þróun nútímafótbolta en fréttaritarinn verður þó að viðurkenna eftir þessa upplifun að það er magnað að sjá hvað bestu nútímafótboltaleikvangar bjóða upp á flotta aðstöðu fyrir áhorfendur. Hversu mikið er lagt í hönnun stúkunnar þannig að sjónarhornið sé fullkomið, völlurinn óaðfinnanlegur og umhverfið frábært. Sömuleiðis er ekki hægt annað en að dást að fumlausu skipulaginu, úthugsaðri afþreyingu fyrir vallargesti, ljúffengum veitingum og alhliða upplifun! Etihad var líka alveg næs.

Klukkan var rétt rúmlega hálf fimm þegar fréttaritarinn skilaði sér upp í Dal draumanna eftir að hafa barið sig í gegnum fríhöfnina, Reykjanesbrautina og húkkað sér far uppeftir í Bauhaus-sveitina. Hann náði rétt í skottið á fínumannaboðinu og gúffaði í sig fáeinum þríhyrningsskornum snittum (merkilegt hvað ómerkilegustu samlokur verða herramannsfæða við það eitt að vera kantskornar!) Þarna var valinkunnur skríllinn. Siggi Tomm og Garðar sendiráðsbílstjóri höfðu miklar skoðanir og Skonrokks-Snorri Már vildi fá skýrslu um heimsókn fréttaritarans á Elland Road á föstudagskvöldið. Það var skjálfti í mannskapnum, enda lífsnauðsynlegt að hirða þrjú stig, en líka bjartsýni þar sem andstæðingarnir hafa verið að sökkva eins og steinar síðustu vikurnar.

Það mætti enginn Aðalsteinn til að kynna liðið en þess gerðist ekki þörf þar sem öll voru með gemsa og gátu lesið byrjunarliðið á vefsíðum að eigin vali. Það kom að sumu leyti á óvart: Óli var í markinu með Delph og Aron Kára Aðalsteinsson í miðvörðunum fyrir framan sig. Brynjar Gauti var á bekknum, væntanlega ekki fyllilega heill heilsu. Í bakvörðunum voru Adam og Óskar. Breki Baldursson byrjaði aftast á miðjunni. Fréttaritarinn er gamall rómantíker og verður að viðurkenna að hann veit fátt skemmtilegra en að sjá sautján ára heimaalinn pjakk byrja leik eftir leik í lykilstöðu. Þetta er ástæðan fyrir því að við nennum að halda úti fótbolta hér á skerinu!

Tiago og Aron Jó voru fyrir framan Breka á miðjunni. Aron Snær og Fred á sitthvorum kantinum og Gummi Magg uppi á toppi. Naskir lesendur hafa líklega rekið augun í það rugl að hafa  þrjá menn sem heita Aron í byrjunarliði. Það er augljóslega algjör steypa og þarf að vinda af. Væri fráleitt að setja kvóta á nafngiftir barna, þannig að t.d. mætti ekki gefa barni sama nafn nema í 5% tilvika? Maður spyr sig.

Í stúkunni hlammaði fréttaritarinn sér niður við hliðina á skjaldsveininum Val, sem aldrei þessu vant var ekki í Timbúktú og Garðari úr sendiráðinu. Sævar Guðjóns kom sér fljótlega fyrir þar við hliðina og mamma hans í röðinni fyrir framan. Það var heitt. Ó, það var heitt. Það blés á vellinum en í stúkunni var 20 stiga hiti, brakandi sól og algjör stilla. Þetta mannvirki er furðurlegt og einstakt verkfræðilegt fyrirbæri. Er hægt að skilgreina logn sem ófyrirséðan galla í íslenskum byggingum?

Aronarnir Snær og Jó. Áttu ágætan samleik þegar á 4. mínútu sem endaði á skoti frá Fred rétt framhjá. Framarar ætluðu greinilega að byrja af krafti. Skömmu síðar átti Aron Jó prýðilega sendingu innfyrir á Fred sem átti skor himinhátt yfir.

Þrátt fyrir fína byrjun Framara áttu KA-menn fínar sóknir inn á milli og á milli og á 11. mínútu dansaði boltinn rétt á marklínunni eftir hættulega stungusendingu. Mínútu síðar þurfti að gera hlé á leiknum eftir að hausarnir á Gumma Magg og markverði KA skullu saman með háum smelli.

Framliðið var talsvert öflugra á þessum tímapunkti og á sextándu mínútu var Gummi Magg nánast búinn að skalla inn góða sendingu frá Óskari. Fimm mínútum síðar átti Gummi hreinan skalla beint á mark en hann var varinn vandræðalítið.

Þegar fyrri hálfleikur var nákvæmlega hálfnaður leit glæsilegt Fram-mark dagsins ljós. Tiago tók langa og hárnákvæma sendingu á Fred, einu sinni sem oftar. Fred virtist hafa ýmis tækifæri til að senda áfram en nýtti þau ekki – og virtist þá leiðast þófið og ákvað í staðinn að smyrja boltanum upp í markhorn Akureyringa, 1:0! Glæsilegt mark og loksins sjáum við aftur Tiago/Fred-mark, sem er eins og allir vita knattspyrnuleg samsvörun við fyrirbærið Lennon/McCartney-lag…

Framarar héldu áfram að sækja eftir markið enda með öll völd leiksins í hendi sér. Á 44. mínútu varð þvaga fyrir framan KA-markið sem lauk á því að boltinn hraut til Tiago sem skaut rétt framhjá úr dauðafæri. KA-menn áttu hins vegar uppbótartímann með húð og hári þar sem Óli varði frábærlega og Framliðið varpaði öndinni léttar þegar flautað var til leikhlés.

Í fínumannastúkunni var blendin stemning. Öllum bar saman um að Fram hefði haft miklu betur í fyrri hálfleik en KA hlyti að mæta sterkara til leiks eftir hlé. Fulltrúi ÍK-manna á vettvangi, Auðun Georg, var mættur til leiks og hlammaði sér niður hjá fréttaritaranum og skjaldsveininum, auk Rabba trymbils sem mættur var eftir hlé. Allir kvörtuðu undan skorti á sólaráburði í þessari hitabeltisstúku sem boðið var uppá.

Fram gerði tvöfalda skiptingu í hléi. Breki og Aron Kári, sem báðir höfðu leikið afbragðsvel, fóru af velli fyrir Brynjar Gauta og Ion hinn spænska. Skömmu síðar fékk Fred dauðafæri í vítateig KA en skot hans rataði beint á markvörð KA. Á 51. mínútu var Fred aftur að verki og lyfti boltanum inn í teig þar sem Gumm Magg kom aðvífandi og skallaði stöng, þar sem allir á vellinum héldu að boltinn væri inni!

KA-menn komust upp með að stöðva efnilega skyndisókn Framara með augljósri hendi á 52. mínútu og beint í kjölfarið átti Aron Snær, einn okkar bestu manna í kvöld, góða rispu upp kantinn en enginn náði að pota sendingunni inn. Nokkrum mínútum síðar mátti litlu muna að alrómönsk sóknarloka Tiago, Fred og Ion skilaði marki. Ekkert gat hindrað sigur Úlfarárdalsstórveldisins… eða hvað?

Um það bil á sextugustu mínútu datt botninn úr leik Framara. Enginn einstakur viðburður varð til þessa, en allt í einu var eins og Framliðið hætti að sækja og drægi sig þess í stað til baka. Gummi Magg var óheppinn að ná ekki til boltans á 62. mínútu eftir fína sendingu frá Ion en samt var eins og KA væri komið með mojo-ið. Á 64. mínútu fengu KA-menn billegustu (en samt réttmæta) vítaspyrnu í heimi, þegar Framvörnin hafði verið að gaufa upp út nákvæmlega engu. KA jafnaði og allt var komið í klessu!

Þremur mínútum síðar voru Framarar lygilega heppnir þegar dómarinn ákvað að dæma ekki víti á brot frá Delph sem var hundrað sinnum meira víti en hið fyrra. Hjúkk! – Í næstu sókn átti Aron Snær markskot sem var vel varið hjá markmanni KA.

Þegar tuttugu mínútur voru eftir gerði Raggi þjálfari breytingu, þar sem Fred fór af velli fyrir Má. Skiptingin virtist litlu breyta. Framarar virtust orkulitlir og ekki ráða við að klára leikinn á meðan gestirnir sóttu stöðugt meira. Tíu mínútur liðu þar sem fátt bar til tíðinda. Framarar bölvuðu í hljóði en KA-menn pressuðu sífellt hærra. Þetta var allt að fara að enda í tárum…

…þar til! Á 80. mínútu gerði stjórnendateymið tvöfalda skiptingu. Aron Snær og Gummi Magg fóru af velli fyrir Tryggva og Jannik. Síðastnefnda skiptingin varð til þess að hjörtu allra Framara tóku stökk. Okkar allra besti Dani var lemstraður strax í fyrsta leik, sem fokkaði gjörsamlega upp tímablilnu, en bara það að sjá hann inni á vellinum breytti öllu… og átti eftir að breyta öllu í leiknum!

Jannik kom sér í 1-2 hálffæri strax eftir skiptinguna en það voru gestirnir sem voru sannfærðir um að sigurinn yrði þeirra. Þrumuskot KA úr dauðafæri á 88. mínútu var slegið yfir af Óla með sjónvarpsmarkvörslu. Mínútu síðar skallaði leikmaður KA rétt framhjá úr opnu færi. Norðlenskt sigurmark virtist tímaspursmál. Á lokamínútu venjulegs leiktíma unnu Framarar boltann aftarlega á vellinum og sendu út á kant þar sem Tryggvi skeiðaði fram – og sendi svo hárnákvæmt fyrir markið á Aron Jó sem kom aðvífandi og skoraði upp úr nákvæmlega engu – 2:1.

Var þetta sanngjarnt miðað miðað við gang leiksins? Ónei, svo sannarlega ekki! Fram var mun betra í fyrri hálfleik en átti í ströggli í seinni hálfleik… fram að innkomu Jannik. Er fráleitt að eigna Jannik markið þrátt fyrir að hafa hvergi komið nærri? Maður spyr sig…

Maður leiksins var Aron Jó. – okkar allra besti Grindvíkingur. Næsti leikur er í Keflavík og þangað mæta allir nema aftaníossar og labbakútar.

Stefán Pálsson

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!