fbpx
Fagn mfl. ka.

Vinir Dóra

Skömmu fyrir leik Fram og KR bárust fregnir af því að Halldór B. Jónsson væri fallinn frá. Halldór var líklega sá einstaklingur sem átti stærstan þátt í uppgangi Framliðsins á níunda áratugnum og þeim titlum sem liðið vann á þeim tíma. Við sem kynntumst Halldóri áður en heilablóðfallið svipti hann frá okkur minnumst eiturskarps manns sem gat greint milli góðra og slæmra hugmynda varðandi framtíð knattpyrnuíþóttarinnar.

Það var tilfinningarík stund þegar Valtýr Björn las upp hluta af afrekaskrá Halldórs Bé í aðdraganda leiks Fram og KR í kvöld. Fréttaritarinn mætti tímanlega, með skjaldsveininn Val Norðra sem bílstjóra. Í fínumannaboðinu voru boðnir fram hamborgarar og byrjunarliðið hafði löngu verið tilkynnt. Það var á þessa leið: Óli í markinu, Þorri, Kyle og Kennie sem miðverðir, Már og Halli í bakvörðum, Tiago, Fred og Tryggvi á miðjunni. Gummi og Jannik frammi. Mögulega hafði Fram í fyrsta skipti í ár náð að tefla fram sínu sterkasta liði! Nú skyldi boðið upp á æsilegan kappleik við erkifjendurna úr Ánanaustum.

Fréttaritarinn, Skjaldsveinninn og Konni settust saman í fáskipaðri stúkunni. Mamma Guðjónssona dró fram tusku til að þurrka af gegnblautum sætunum. Framarar byrjuðu með látum. Á fyrstu fimmtán mínútunum fengu Gummi og Tryggvi hvor sitt dauðafærið og yfirburðirnir virtust algjörir. Þetta jafnaðist þó fljótt út. Eftir góða byrjun okkar náðu gestirnir fljótlega yfirhöndinni á leikvellinum, án þess þó fá mörg færi og Framar létu sér nægja skyndisóknir.

Hálfleikurinn leið án þess að Fréttaritarinn þyrfti oft að stinga niður penna. Eftir hlé gerði þjálfarateymið eina breytingu. Már fór af velli fyrir Alex. Takturinn í leiknum hélst svipaður og strax á fyrstu mínútunni fengu KR-ingar dauðafæri en Óli bjargaði með frábæru úthlaupi. Markmaðurinn var okkar besti maður í leiknum og varði allt sem nærri honum kom.

Jannik kom sér í skotfæri þegar tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleiknum og hinu megin sló frá Óli þrumuskot. Þegar þarna var komið sögu virtist KR-mark liggja í loftinu og var heldur að þyngjast hljóðið í stúkunni. Maggi kom inná fyrir Jannik sem var orðinn örþreyttur í sínum fyrsta byrjunarliðsleik í háa herrans tíð. Þegar rúmt kortér var eftir af venjulegum leiktíma þurfti að gera hlé á leiknum þegar stumrað var yfir einum KR-ingnum sem þurfti að lokum að bera af leikvelli. Við það riðlaðist leikur gestanna eins og koma átti í ljós.

Tiago átti ágætt marktækifæri á 77. mínútu og tveimur mínútum síðar átti hann óvænta stungu inn á Gumma Magg sem stakk af sér alla vörnina og setti boltann loks af miklu öryggi í netið. Vissulega nokkuð gegn gangi leiksins… en hverjum er ekki sama?

Markið sló KR-inga útaf laginu og fátt bar til tíðinda fyrr en komið var í ríflegan uppbótartíma. Tryggvi lenti í stympingum við KR-ing og fljótlega voru nær allir leikmenn á vellinum komnir í þvögu með hrindingum og orðahnippingum sem endaði á að Tryggvi og einn Vesturbæingurinn fengu rauða spjaldið. Stressandi lokamínúturnar kláruðust og óvenju ljúfur siggi-saggi ómaði um Dal draumanna. Nú erum við búnir að vinna KR tvívegis í sumar og værum alveg til í að fullkomna þrennuna, en þá verða KR-ingar aðeins að herða sig ef þeir ætla að komast með okkur í efri hlutann.

Stefán Pálsson

Share this post

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!