Halldór B. Jónsson F: 6. desember 1948. D: 9. júlí 2024.
* Útför Halldórs fer fram frá Fossvogskirkju á morgun, 25. júlí 2024, kl. 15.
Kveðja frá Knattspyrnufélaginu Fram
Halldór sýnir ungum leikmönnum Fram, góða takta.
Við fráfall Halldórs B. Jónssonar, heiðursfélaga Knattspyrnufélagsins Fram, sjá Framarar á eftir afar öflugum og litríkum félagsmanni sem setti sterkan svip á félagslíf Fram. Halldór, sem var gerður að heiðursfélaga Fram á 100 ára afmælisárinu 2008, lagði til ófá handtökin til að efla félagið. Það er erfitt að rekja sögu Fram án þess að minnast Halldórs – svo afgerandi spor markaði hann í sögu félagsins sem leiðtogi og fyrst og fremst sem ljúfur félagsmaður, sem unni félagi sínu heitt. Sterk einkenni Dóra í öllum hans störfum voru fórnfýsi, nákvæmni, dugnaður, kraftur og ódrepandi baráttuvilji.
Halldór var einn af þeim félagsmönnum sem tóku ekki krónu fyrir það sem þeir gerðu fyrir félagið og voru alltaf tilbúnir þegar til þeirra var leitað – til að halda merki félagsins hátt á lofti. Dóri sóttist ekki eftir að vera sjálfur í sviðsljósinu, heldur kappkostaði hann að láta verkin tala. Dóri var fastur fyrir; var ákveðinn og stóð á sínu. Hann lagði sig alltaf allan FRAM og fór fram á að aðrir gerðu það sama.
Halldór vann mjög gott starf fyrir Fram og íslenska knattspyrnu, þegar hann hafði heilsu til.
Halldór gengur frá ráðningu Ásgeirs Sigurvinssonar sem þjálfara 1992.
Það var mikil gæfa fyrir Fram er Halldór svaraði kallinu og tók við umsjón á getraunasölu félagsins, ásamt Sigurði J. Svavarssyni, sem störfuðu saman hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur og urðu báðir heiðursfélagar Fram. Starf þeirra var rafmagnað! Halldór varð síðan öflugur formaður knattspyrnudeildar Fram 1981.
Dóri og stjórnarmenn hans lögð mikla áhersla að styrkja meistaraflokk Fram, sem varð mjög sigursæll undir stjórn Ásgeirs Elíassonar, þjálfara; vann 15 bikara á 7 árum á árunum 1985-1991. Fram varð Íslandsmeistari þrisvar og einnig bikarmeistari þrisvar.
Þá stóð Framliðið sig vel í Evrópukeppni og sýndi besta leik sem íslenskt lið hefur leikið í Evrópukeppni; gegn Bracelona á Laugardalsvellinum 1990. Varð þá að sætta sig við tap á rangstöðumarki tveimur mín. fyrir leikslok, 1:2.
Halldór og hans menn horfðu ekki aðeins á leiki meistaraflokks Fram. Þeir mættu á alla leiki Fram í yngri flokkum og hvöttu strákana til dáða. Þeir þekktu alla strákana í fjórum flokkum, a og b-lið, með nafni og kunnu strákarnir svo sannarlega að meta stuðninginn frá Dóra og stjórnarmönnum, sem sýndi þeim mikla væntumþykju og virðingu. Yngri flokkar Fram urðu afar sigursælir á þessu mikla blómatímabili; tryggðu sér 28 stóra bikara. Flokkarnir urðu 19 sinnum Íslandsmeistarar og 9 sinnum bikarmeistarar.
Fram átti stóran hóp af leikmönnum í unglingaliðum Íslands og eitt sinn þegar Framarar tilnefndu ellefu leikmenn úr sigursælum flokki til æfinga hjá einu unglingalandsliðinu, voru þeir spurðir: „Getið þið ekki einnig útvegað varamenn!“
Þrír öflugir Framarar á góðri stundu. Eyjólfur Bergþórsson, Kristinn R. Jónsson og Halldór B. Jónsson
Lyfti Grettistaki
Eftir mikið og gott starf hjá Fram, óskaði Knattspyrnusamband Íslands eftir kröftum Halldórs, sem svaraði kallinu. Það var mikil gæfa fyrir knattspyrnuna á Íslandi. Hann lyfti Grettistaki á öllu innra skipulagi sambandsins. Dóri varð formaður mótanefndar og síðan einnig dómaranefndar. Halldór kom öllu mótafyrirkomulagt og dómaramálum í fastar skorður og lagði grunninn að afar árangursríku starfi. Dóri sýndi mikla festu og kom röð og reglu á marga hluti. Áður voru það jafnvel þjálfarar félaganna sem komu sér saman um frestun leikja. Dóri sá til þess að þannig vinnubrögð gengu ekki lengur. Halldór vann ekki bara fyrir Fram, heldur kappkostaði að vinna fyrir öll félög í landinu, hvar sem þau voru. Það bar ríkulegan ávöxt, sem sást best á því að mikil virðing var borin fyrir Halldóri B. Jónssyni, sem hafði hag íslenskrar knattspyrnu fyrir brjósti.
Ég man alltaf eftir því þegar Dóri sagði við blaðamenn fyrir bikarúrslitaleik í Laugardalnum. „Mótanefndin hefur lokið störfum – mótið hefur gengið upp. Bikardrátturinn var alltaf hárréttur hjá okkur og niðurröðun leikja eftir því. Við getur því miður ekki sagt ykkur hvort liðið lyftir bikarnum á loft! Við viljum ekki skemma bikarspennuna!“
Halldór varð yfirumsjónarmaður A-landsliðs karla og var varaformaður KSÍ er hann veiktist og hætti störfum 2007 (17. júní).
Halldór sæmdi knattspyrnusnillingnum Pele merki Fram er hann kom í heimsókn í Safamýrina.
Stutt í spaugið
Það var oft stutt í spaugið hjá Dóra og hann gat verið stríðinn og komið mönnum á óvart. Frægt var þegar landsliðið var á heimleið frá Chile 1995, að fresta varð flugi vegna þoku frá Temuco til Santiago. Þegar landsliðið komst frá Santiago til Buenos Aires í Argentínu, var ljóst að liðið hafði misst af flugi til London. Var þá flogið til Frankfurt í Þýskalandi og Kaupmannahafnar á leiðinni heim.
Halldór hrellti þá landsliðsmenn í Buenos Aires, er hann kallaði saman hópinn og sagði það það kæmust ekki allir með sömu vél. „Ég verð að biðja einn til tvo, sem eru tilbúnir að vera eftir, að gefa sig fram. Þú hefðir átt að sjá svipinn á mönnunum er ég bar spurninguna upp. Það gaf sig að sjálfsögu engin fram,“ sagði Dóri undirrituðum.
Ég var síðan vitni að svipaðri uppákomu í Bombey á Indlandi 2001, þegar landsliðið var á heimleið eftir mikla ævintýraferð. Þá kom landsliðið frá Kalkútta til Bombey, þaðan sem var flug til Dubai, Frankfurt og heim. Þá komu upp miklir erfiðleikar með að fá flug frá Bombey og það var aðeins vegna ákveðni og harðfylgni Halldórs að flug fékkst fyrir allan hópinn. Þegar Halldór hafði lokið miklum fundarhöldum um flugið, kallaði hann landsliðshópinn saman og sagði það sama og í Argentínu um árið: „Það verða tveir til þrír að vera eftir. Gefa einhverjir sig fram?“ Það sló þögn á hópinn, og sumir földu sig fyrir aftan næsta mann. Þá sprakk Dóri og sagði: „Að sjálfsögðu förum við allir saman!“ um leið og hann fór að dreyfa farseðlum. Það var létt yfir ungum landsliðsmönnum.
Framarar kveðja og minnast Dóra með þakklæti fyrir mikil störf í þágu félagsins.
Blessuð sé minning Halldórs B. Jónssonar.
Sigmundur Ó. Steinarsson.
Jóhann Gunnar Kristinsson hefur tekið saman myndir úr starfi Halldórs B. fyrir Fram.
Þær má sjá hérna https://frammyndir.123.is/photoalbums/297866/