Íslandsmeistaramótið í Poomsae, tækni hluta Taekwondo, fór fram í Kópavoginum í dag. Taekwondodeild Fram átti þar þrjá þátttakendur sem allir stóðu sig frábærlega.
Rúdolf Rúnarsson sigraði í A flokki karla 50 ára og eldri og varð þar með Íslandsmeistari.
Lilja Jóhanna Birgisdóttir keppti í B flokki stúlkna og gerði hún sér lítið fyrir og sigraði á sínu fyrsta Íslandsmeistaramóti og tryggði sér þar með sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil. Lilja er á sínu fyrsta ári í þessum sterka keppnisflokki og óhætt að segja að hún sé búin að stimpla sig rækilega þar inn því hún sigraði einnig á báðum bikarmótunum sem haldin hafa verið á árinu.
Lilja varð svo í öðru sæti í keppni para með Nojus Gedvilas og hlutu þau silfur verðlaun. Nojus keppti einnig í einstaklings keppninni og hlaut annað sætið og silfur verlaun í fjölmennum B flokki drengja.
Þau Lilja og Nojus eru afskaplega efnileg og þrátt fyrir ungan aldur eru þau orðin þaul vön að keppa saman og fengu m.a brons verðlaun í keppni para á Norðurlandamótinu í upphafi árs.
Deildin er stolt af sínu fólki og óskar þeim innilega til hamingju með frábæran árangur.