fbpx
kenny gegn KR

Milli funda

Þann 9. nóvember 1932 brutust út einhverjar stærstu götuóeirðir Íslandssögunnar í miðbæ Reykjavíkur. Verkamenn mótmæltu þar fantabrögðum borgarstjórnar. Einn maður var þó fjarri góðu gamni, Brynjólfur Bjarnason, einn öflugasti leiðtogi kommúnista var upptekinn við kennslu í Kvennaskólanum. Haft var að orði að líklega myndi Brynjólfur missa af sjálfri byltingunni ef hún yrði á skólatíma…

Fréttaritari Framsíðunnar er sjálfur að burðast við að vera atvinnustjórnmálamaður milli þess sem hann skrásetur Framleiki. Þótt ekki sé ætlunin að leggja hann að jöfnu við Brynjólf Bjarnason er hætt við að örlög hans verði þau sömu. Þegar hið óumflýjanlega skippbrot auðvaldsfyrirkomulagsins og borgarastéttarinnar mun eiga sér stað, verður fréttaritarinn líklega fastur í Kórnum eða í kæliklefanum í Garðabæ að horfa á fótboltaleik með Knattspyrnufélaginu Fram.

Fréttaritarinn átti að vera á landsfundi flokksins síns, en stalst í burtu til að ná stórleik Fram og Vestra í Dal draumanna síðdegis, samherjum sínum og eiginkonu til lítillar ánægju. Hann hafði um morguninn búið sig undir leikinn með því að pakka niður peysu – sem reyndist óþörf – en gleymdi sólgleraugum og sólarvörn. Veðráttan á Lambhagavellinum hættir ekki að koma á óvart. Engar D-vítamíntöflur í kvöld.

Framvöllurinn skartaði sínu fegursta en hrakfarirnar gegn stórveldinu í síðasta leik skiluðu sér þó í því að færri voru í stúkunni en alla jafna. Gestirnir voru þó fjölmennir og háværir, enda með bakið uppi að veggnum.

Byrjunarliðið var nokkuð breytt frá síðasta leik. Óli Íshólm í markinu. Adam, Kennie og Þorri í miðvörðum en Alex og Halli bakverðir. Tiago aftastur á miðjunni með Fred og Tryggva, sem sneri aftur eftir langt hlé, fyrir framan sig. Gummi Magg og unglingurinn Markús Páll frammi.

Hefur komið nægilega skýrt fram að það var bongó á vellinum? Fréttaritarinn, frekar einn síns liðs þar sem Skjaldsveinninn og Rabbi trymbill ákváðu báðir að skrópa, reif sig úr úlpunni og stóð á bolnum við hliðina á nafna sínum, Þorbirni Atla og Ívari Guðjóns rétt við miðlínuna. Það þurfti fleiri en einn og fleiri en tvo bjóra úr Bar8-unni til að vinna á hitasvækjunni.

Leikurinn byrjaði rólega en Fram fékk þó fyrsta færið þegar Halli sendi fyrir strax á fimmtu mínútu en hvorki Markús né Gummi náðu að koma fótunum í boltann. Skömmu síðar heimtuðu Vestramenn vítaspyrnu þegar boltinn hrökk í höndina á Tiago en dómarinn lét það réttilega óátalið. Fyrsta dauðafærið, í frekar dauflegum leik, kom svo á tuttugustu mínútu þegar Fred skallaði á Tryggva sem aftur nikkaði boltanum á fjærstöng þar sem Alex kom aðvífandi en skot hans endaði í fanginu á markverði Vestanmanna.

Mínútu síðar og örlítið gegn gangi leiksins voru gestirnir komnir í 0:1. Stungusending náði að sprengja upp rangstöðugildru Framara og boltinn endaði í netinu. Framarar virtust örlítið slegnir út af laginu við markið en unnu sig þó aftur inn í leikinn. Markús, sem var mjög líflegur í leiknum, átti fínustu sendingu á Tryggva sem skaut úr úrvalsfæri en markvörðurinn varði vel. Á 33. mínútu mátti minnstu muna að gestirnir skoruðu sjálfsmark þegar einn Vestramaðurinn skallaði yfir eigið mark. Úr hornspyrnunni náði Gummi góðum skalla, sem var naumlega varinn. Upp úr því barst boltinn útfyrir teig þar sem Fred lyfti honum aftur inní og Alex kom aðvífandi og jafnaði metin, 1:1.

Framarar tóku öll völd á miðjunni eftir jöfnunarmarkið og Markús var nálega sloppinn einn í gegn nokkrum mínútum síðar. Þegar mínúta var eftir að venjulegum leiktíma fór hins vegar allt í skrúfuna. Fyrst misstu okkar menn boltann klaufalega á miðjunni og Ísfirðingar skoruðu vandræðalítið í kjölfarið. Tveimur mínútum síðar var staðan orðin 1:3. Fréttaritarinn var svo sannfærður um augljósa rangstöðu að hann var farinn að semja í huganum áfrýjunina til Íþróttadómstólsins í Lausanne. Í hléi reyndust skoðanir hins vegar mjög skiptar milli þeirra sem töldu markið fáránlega ólöglegt og hinna sem hölluðustu að því að líklega hefði sóknarmaðurinn verið rétt fyrir aftan síðasta varnarmann. Málefnalegri pistlahöfundur en Fréttaritari Framsíðunnar myndi kannski bíða eftir stóradómi sjónvarpsins, en það er ekki í boði á landsfundardögum.

Freyr kom inná fyrir Tiago í byrjun seinni hálfleiks, væntanlega í þeirri von að fá aðeins meiri hraða og hörku inn á miðjuna. Engu að síður voru gestirnir nær því að auka forystuna enn frekar þegar Kennie þurfti að skalla frá á marklínu þegar á upphafsmínútunum. Tíu mínútum síðar var staðan svo orðin 1:4 eftir enn eina skyndisókn Vestra sem setti allt í uppnám eins og venjulega (varnarlínan okkar hefur átt betri daga).

Stuðningmenn Vestra vissu eiginlega ekki í hvorn fótinn þeir ættu að stíga, óvanir slíkri markasúpu. Leikmennirnir ákváðu hins vegar að draga sig til baka og verja fenginn hlut. Gummi Magg komst í kjörfæri til að minnka muninn á 56. mínútu þegar hann fékk boltann í teignum eftir þvögu, náði að setja hann fyrir sér og skjóta, en Vestramenn vörðu á línu. Skömmu síðar átti Markús skot í þverslána.

Þegar seinni hálfleikur var tæplega hálfnaður Mingi og Dahl hinn danski komu inná fyrir Gumma og Tryggva. Fram hélt áfram að sækja og 67. mínútu fékk Fram aukaspyrnu rétt við vítateigslínu. Kennie stillti henni upp og skoraði af fádæma öryggi í hornið, 2:4 og skyndilega var þetta orðið leikur á ný!

Góð markvarsla Vestramarkvarðarins kom í veg fyrir að Þorri minnkaði muninn enn frekar með bylmingsskoti skömmu síðar. Þegar kortér var eftir varð svo undarleg uppákoma þegar Fram fékk aukaspyrnu við vítateigshornið en um leið og skotið reið af gall flautan. Vestramaður hafði slæmt hendi til Minga – sem er til marks um sérlega fúlmennsku, enda Mingi hvers manns hugljúfi – og rauða spjaldið fór á loft. Hvers vegna ekki var dæmt víti er svo önnur og betri spurning.

Mingi fór af velli nokkrum mínútum síðar fyrir Daniels (Höskuldarviðvörun) sem var nærri því að skora fáeinum sekúndum síðar. Það að missa manninn af velli varð hins vegar til að þjappa gestunum saman og síðustu mínúturnar bar fátt til tíðinda. Vestri landaði dýrmætum 2:4 sigri, sem gladdi vissulega Fréttaritarann örlítið, enda barnabarn Ísafjarðar og sérstakur áhugamaður um að fá HK og Fylki niður um deild – en þetta var samt alveg óþarfa greiðasemi við hinar dreifðu byggðir. Við væntum betri frammistöðu gegn HK í Kórnum í næsta leik – þar verður þó amk ekki hægt að nota þá afsökun að brennandi sólin hafi verið of heit.

Stefán Pálsson

Share this post

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!