Fyrsta bikarmót vetrarins fór fram í íþróttahúsi Seljaskóla um helgina. Gríðarlega góð þátttaka var á mótinu að þessu sinni og sýndu keppendur hörku baráttu og glæsileg tilþrif.
Taekwondodeild Fram átti ekki keppendur í fullorðins flokki í bardaga að þessu sinni en unga fólkið stóð sig vel og voru glæsilegir fulltrúar félagsins.
Í keppni í tækni fóru keppendur Fram á kostum og rökuðu inn verðlaunum.
Unga fólkið og keppendur með lægri beltin stóðu sig með prýði og eru þau reynslunni ríkari eftir mótið.
Okkar keppendur í A og B flokkum voru í bana stuði og áttu frábæran dag. Hin unga Lilja Jóhanna Birgisdóttir endaði frábært ár með enn einu gullinu í grjóthörðum B flokki stúlkna 12-14 ára og tók hún brons verðlaun í keppni para í sama aldursflokki ásamt Nojus Gedvilas. Arnar Freyr Brynjarsson varð þriðji í B flokki unglinga og Sveinbörn Sævar Sigurðarson tók fyrsta sætið í B flokki fullorðinna.
Í A flokkum sigraði Rúdolf Konráð Rúnarsson í U60 flokknum og Guðrún Nína Petersen tók annað sætið í sama aldursflokki. Hulda Dagmar Magnúsdóttir tók annað sætið og silfurverðlaun í flokki U50 og Bjarki Kjartansson hafnaði í þriðja sæti eftir hörku baráttu í flokki U30.
Fleiri verðlaun unnust svo í keppni para og hópa bæði í A og B flokkum sem eru þeir flokkar sem telja til stiga. Taekwondodeild Fram vann reyndar það frækilega afrek að vinna flest verðlaun þeirra níu félagsliða sem tóku þátt í mótinu.
Fram leiðir því liðakeppnina í tækni og stefnir í æsi spennandi keppni um bikarmeistaratitilinn.