Í dag er alþjóðlegur dagur sjálfboðaliðans sem haldinn hefur verið frá árinu 1985 en það voru Sameinuðu þjóðirnar sem ákváðu að helga 5. desember öllum sjálfboðaliðum um allan heim!
Íþróttahreyfingin á Íslandi hefur undanfarna áratugi verið drifin áfram af sjálfboðaliðum og væri ekki á þeim stað, sem hún er í dag, án allra þeirra sjálfboðaliða sem leggja félagi sínu lið við mörg störf. Má þar nefna stjórnir íþróttafélaga og deilda, fjáraflanir yngri flokka, skipulag barna- og unglingamóta, dómgæslu, miða- og veitingasölu, aðstoð við umgjörð leikja, söfnun og uppsetningu auglýsingaskilta og svo mætti lengi telja.
Það er ómetanlegt að hafa traust og gott fólk í kringum sig sem stendur vaktina í blíðu og stríðu og aðstoðar við lítil sem stór verkefni.
Fram býr að því að njóta aðstoðar fjölda sjálfboðaliða við störf félagsins sem vinna ómetanlegt starf alla daga svo félagið og íþróttastarf þess geti vaxið og dafnað.
Við viljum nýta þetta tækifæri og þakka þessu góða fólki fyrir þeirra framlag og vonumst til að enn fleiri sjálfboðaliðar bætist við þann frábæra hóp sem er nú þegar til staðar.
Takk fyrir okkur, í dag og alla daga.
ÁFRAM FRAM