Sigurður Jóhann Svavarsson F. 5. febrúar 1933 D. 8. janúar 2016
* Útför Sigurðar Jóhanns fer fram frá Fossvogskirkju í dag,
þriðjudag 19. janúar 2016, kl. 15.00.
Kveðja frá Knattspyrnufélaginu Fram
Við fráfall Sigurðar Jóhanns Svavarssonar, heiðursfélaga Knattspyrnufélagsins Fram, sjá Framarar á eftir einum af sínum traustasta og öflugasta félagsmanni. Siggi Svavars, eins og hann var kallaður í Safamýrinni, lagði Fram margvísleg störf af mörkum sem verður seint þakkað.
Sigurður lék á yngri árum knattspyrnu með Fram, en lagði skóna á hilluna ungur vegna mikillar vinnu hjá Rafmagnsveitunni. Það má með sanni segja að Siggi hafi síðan mætt „rafmagnaður“ til leiks á nýjan leik 1979 er hann og vinnufélagi hans Halldór B. Jónsson tóku að sér umsjón með getraunastarfi Fram og lyftu Grettistaki í getraunasölu og félagslífi. Þeir félagar unnu gríðarlega öflugt starf og voru fljótlega kallaðir til enn frekari starfa. Halldór varð formaður knattspyrnudeildar og Sigurður fyrsti framkvæmdastjóri deildarinnar 1982, en gerðist síðan stjórnarmaður deildarinnar í fjölmörg ár. Gulltímabil deildarinnar rann upp, sem er nefnt: Gullár Ásgeirs Elíassonar.
Sigurður var hrókur alls fagnaðar – glaðlyndur, glettinn og fljótur að sjá broslegu hliðarnar – og þá var stutt í spaugið. Þæð eru óteljandi skemmtilegu stundirnar við billiardborðið í gamla félagsheimilinu í Safamýrinni, þar sem skemmtilegar sögur voru rifjaðar upp – og hlegið, jafnframt því sem félagsmenn sýndu listir sínar með kjuðann við græna borðið. Sigurður lék þá oft við hvern sinn fingur og hló dátt þegar hann fékk viðurnefnið „Gullkúlan!“ Siggi var alla tíð mjög Fram-rækinn – einn af þeim félagsmönnum sem sagði aldrei Nei! Mönnum sem félög eiga aldrei nóg af – mönnum sem hugsa: Hvað get ég gert fyrir félagið mitt, en ekki hvað getur félagið gert fyrir mig?
Sigurður hugsaði alltaf um Fram með jákvæðu hugarfari og sýndi ræktarsemi sína og góðan hug til félagsins með ýmsu móti – átti persónulega vináttu fjölmargra Framara. Hann var alltaf mættur þegar Framarar komu saman í Safamýrinni og víða. Var með fast sæti við háborðið í getraunakaffi á laugardagsmorgnum. Þar er hans sárt saknað. Hann lét sig aldrei vanta á heimaleiki Fram á Laugardalsvellinum og í Úlfarársdalnum.
Þó að stundum hafi á móti blásið hjá Fram sá Sigurður alltaf björtu hliðarnar – hafði ætíð jákvætt hugarfar og gafst aldrei upp.
Sigurður var gerður að heiðursfélaga Fram á 100 ára afmælishátíð félagsins 2008 – ásamt Halldóri. Hann var sæmdur gullmerki Knattspyrnusambands Íslands, KSÍ, 2003.
Aðalstjórn Fram kveður góðan félaga, Sigurð J. Svavarsson, með söknuði og þakkar honum mikil og vel unnin störf í þágu félagsins. Eiginkonu hans Katrínu Lovísu Irvin, börnum þeirra Ingibjörgu, Einari, Gróu Margréti og öðrum ástvinum, eru sendar hugheilar samúðarkveðjur.
Fyrir hönd aðalstjórnar,
Sigmundur Ó. Steinarsson.