Framarar mættu til leiks gegn toppliði 1. deildar, Fjölni, í 32-liða úrslitum bikars í dag. Úti var veðrið gráslyppulegt en inni í höllinni var heitt og fínt.
Leikurinn byrjaði með látum, mikið skorað og allt stefndi í hörkuleik. Jafnræði var með liðunum allan hálfleikinn og hvorugt lið með frumkvæði en okkar menn með helling af töpuðum boltum og margir hverjir ekki að ná sér á strik nema Viktor í markinu sem hélt okkur inni í leiknum. Staðan í hálfleik 14:13 fyrir Fjölni sem náðu að refsa okkur með hraðaupphlaupum trekk í trekk.
Í seinni hálfleik var meiri stemning í liðinu og strákarnir byrjuðu að spila meira saman, fækkuðu lélegum sendingum og vörnin varð þéttari. Við uppskárum eftir því og strax um miðjan seinni hálfleik höfðum við náð 4 marka forskoti 18:22.
Fjölnismenn voru þó ekki hættir og okkar menn duttu niður á hælana og hleyptu þeim inn í leikinn aftur í stað þess að slíta sig alveg frá þeim.
Úrslitin réðust ekki fyrr en á lokamínútum leiksins og náðu okkar menn með seiglu og karakter að klára leikinn og góður sigur í höfn 27:28.
Ef ekki hefði verið fyrir Viktor Gísla í markinu sem fór hamförum og varði 24 bolta og frábæran leik Andra Þórs, markahæstur í dag með 10 mörk, hefðu úrslitin verið önnur.
Góður sigur í dag hjá okkar mönnum og við komin í 16-liða úrslit í bikarnum og stefnan sett á höllina.
Næsti leikur er á fimmtudaginn í deildinni gegn Stjörnunni á okkar heimavelli. Sjáumst þá.
Áfram FRAM