Í gærkvöldi rúllaði OLÍS deild kvenna aftur af stað eftir langt hlé. Fram sem var í þriða sæti deildarinnar hóf leik á móti Haukum sem voru í því fjórða einu stigi á eftir Fram.
Leikurinn byrjaði frekar rólega. Haukarnir fyrri til að skora fram eftir hálfleiknum en munurinn var aldrei mikill, yfirleitt eitt mark. Staðan var 15 – 15 í hálfleik eftir að Þórey Rósa skoraði gott mark úr horninu þegar leiktíminn var að renna út eftir vel útfærða síðustu sókn hálfleiksins.
Fram byrjaði síðan síðari hálfleikinn betur náði strax smá forustu. Hún var samt aldrei mikil og Haukar minnkuðu munninn aftur í eitt mark. Þannig gekk síðari hálfleikur. Fram náði smá forustu en Haukar minnkuðu muninn aftur og aftur. Undir lok leiks hafði Fram náð þriggja marka forustu sem Haukar náðu ekki að vinna upp og Fram vann mjög góðan útisigur á góðu liði Hauka 31 – 30.
Nokkuð góður leikur. Varnarleikurinn oft fínn en leikmenn hefðu mátt hirða fleiri fráköst og lausa bolta því að Haukar skoruðu nokkur ódýr mörk eftir að hafa hirt slíka bolta þegar vörnin var búinn að vinna vel.
Sóknarlega gengu hlutirnir alveg þokkalega. Þórey Rósa mjög góð í horninu. Ragnheiður drjúg að vanda og skorað úr öllum stöðum. Einnig komu nokkur ódýr mörk úr hraðaupphlaupum og hraðri miðju.
Sigurbjörg Jóhannsdóttir var að spila sinn fyrsta leik á tímabilinu, en hún átti barn í byrjun nóvember, og er kominn á fullt aftur. Velkominn Sigurbjörg.
Mörk Fram: Þórey Rósa 10, Ragnheiður 9, Steinunn 4, Sigurbjörg 3, Harpa María 3, Hildur 1 og Lena Margrét 1.
Heiðrún Dís stóð í markinu allan tímann, varði 18 skot og stóð sig mjög vel.
Í heild góður sigur í fyrsta leik eftir langt hlé.
Næsti leikur er heimaleikur á móti HK næst komandi þriðjudag.