Stelpurnar okkar í handboltanum fengu lítið frí eftir bikarinn um helgina og mættu Selfoss í Olísdeildinni á heimavelli í kvöld. Alltaf erfitt að rífa sig upp eftir bikarinn og því spennandi að sjá úr hverju okkar stelpur eru gerðar. Frekar rólegt á pöllunum, sennilega smá spennufall hjá okkur stuðningsmönnum líka.
Leikurinn var ekki upp á marga fiska í byrjun, lítið skorað og dálítil deyfð yfir mannskapnum. Við nýttum færin illa, daufar varnarlega og lítill kraftur í okkar leik,
staðan eftir 15 mín. 6-5.
Fyrri hálfleikur sennilega með þeim slakari sem ég hef séð hjá okkar stúlkum í mjög langan tíma, það gekk fátt vel, varnarlega vorum við ekki nálægt því að vera á fullu og fórum illa með mikið af færum sóknarlega.
Staðan í hálfleik 12-12
Ljóst að við þyrftum eitthvað að skoða okkar mál og gera mun betur í þeim síðari.
Síðari hálfleikur byrjaði heldur ekki vel, við lentum strax undir og gerðum ekki mark fyrr en eftir um 8 mín. Við ekki að ná upp stemmingu í liðinu og spilamennskan eftir því. Staðan eftir 45 mín. 18-18.
Aftur misstum við þær fram úr okkur og farið að fara um mig á pöllunum. Við náðum okkur aldrei á strik í þessum leik, vorum bara í tómu basli frá upphafi til enda. Náðum samt að jafna leikinn aftur þegar um 5 mín. voru eftir, stóðum tvær varnir og áttu möguleika á því að klára þennan leik í stöðunni 24-23. Það gekk því miður ekki, náðum ekki að skora, þær jöfnuðu þegar um 14 sek. voru eftir og við tókum leikhlé.
Það var svo Ragnheiður Júlíusdóttir sem skoraði frábært mark á loka sekúndu leiksins og við hirtum öll stigin í kvöld. Lokatölur 25-24.
Við verðum bara að þakka fyrir að hafa unnið þennan leik, lékum ferlega illa og mjög ólíkar sjálfum okkur frá upphafi. Tökum samt stigin, ljótir sigrar eru líka sigrar.
Næsti leikur verður erfiður gegn KA/Þór fyrir norðan, við verðum að gera betur þá, held að það sé ljóst.
ÁFRAM FRAM
Hér má sjá myndir úr leiknum http://frammyndir.123.is/pictures/