Stelpurnar okkar í fótboltanum léku í gær sinn fyrsta leik á Íslandsmótinu og í fyrsta sinn í nokkur ár undir merkjum FRAM. Mig minnir að það hafi verið árið 2016 sem við lékum síðast undir merkjum FRAM en liðið sameinaðist UMFA á tímabili og gekk það samstarf í tvö ár.
Liðið hélt snemma morguns austur á land þar sem stelpurnar mættu hálfu austurlandi, sameiginlegu liði Leiknir F, Hattar og Fjarðabyggðar en leikið var í Fjarðabyggðarhöllinni á Reyðarfirði.
Leikurinn byrjaði fjörlega, fengum á okkur mark strax á 2 mín. en náðum að jafna leikinn á þeirri sautjándu, með marki frá Ásdísi Örnu Sigurðardóttur. Eftir markið vorum við mun betri, áttum þó nokkurð af færum en inn vildi boltinn ekki og staðan í hálfleik 1-1. Flottur fyrri hálfleikur, góð barátta í liðinu og við betri ef eitthvað var.
Síðari hálfleikur byrjaði vel en fljótlega dró til tíðinda þegar markvörður Fram fékk að líta beint rautt spjald sem að “okkar mati” var tóm þvæla en við deilum ekki við dómarann.
Við vildum meina að Þóra markvörður hefði spyrnt boltanum burt áður en hún og leikmaður austan kvenna rákust saman en niðurstaðan rautt á Þóru sem þurfti að fara á sjúkrahús eftir þetta samstuð. Sendum henni batakveður.
Þetta er annar leikurinn í röð þar sem við missum markvörðinn okkar af velli með rautt og heldur farið að þynnast í þeirri leikstöðu. Svanhvít markvörður en enn að jafna sig eftir vont samstuð í leik okkar gegn Grindavík á dögunum.
Þrátt fyrir að vera einum færri náðum við að skora, 1-2, á 74 mín. og var þar að verki Salka Ármannsdóttir. Stelpurnar að spila vel, berjast og höfðu í fullu tré við 11 leikmenn að austan.
En það er erfitt að vera einum færri til lengdar, við fengum á okkur mark á 78 mín, 2-2. 89 mín, 3-2, og á 96 mín, 4-2.
En við ekki hættar og Sigurlaug Sara setti gott mark á 98 mín, 4-3 en lengra komumst við ekki, mark á 99 mín. kláraði leikinn endanlega og niðurstaðan súrt tap 5-3.
Heimildarmaður Fram á austurlandi var ánægð með leikinn, stelpurnar að spila vel, héldu boltanum vel, vildu spila og halda boltanum, kraftur í liðinu, bullandi barátta út allan leikinn.
Hún sagði að í raun hefði verið magnað að fylgjast með stelpunum í leiknum, gríðarlegar framfarir hjá liðinu á mjög stuttum tíma og hún er spennt að fylgjast með liðinu í næstu leikjum.
Við erum að byggja upp og það tekur tíma, fínn fyrsti leikur og þessi leikur gefur góð fyrirheit um framhaldið. Upp með hausinn stelpur, vel gert.
Næsti leikur er á föstudag 26. júní gegn ÍR á Framvelli og hvetjum alla FRAMarar til að mæta á völlinn og styðja Fram.
ÁFRAM FRAM