Birgir Lúðvíksson F: 3. maí 1937. D: 3. febrúar 2021.
* Útför Birgis fer fram frá Bústaðakirkju í dag, mánudaginn 15. febrúar 2021, kl. 13.
Kveðja frá Knattspyrnufélaginu Fram
Við fráfall Birgis Lúðvíkssonar, heiðursfélaga Knattspyrnufélagsins Fram, sjá Framarar á eftir öflugum félagsmanni sem setti sterkan svip á félagslíf Fram. Birgir, sem var gerður heiðursfélaga Fram á 95 ára afmælisárinu 2003, lagði til ófá handtökin til að efla félagið, af miklum dugnaði, krafti og ódrepandi baráttuvilja. Birgir var mikill félagsmaður, sem unni félagi sínu heitt og mætti við ýmis tímamót, alltaf léttur í lundu.
Birgir var fæddur og uppalinn Framari, sem keppti bæði í knattspyrnu og handknattleik frá barnsaldri. Blátt blóð rann um æðar hans. Hann erfði Framgenið frá föður sínum, Lúðvíki Thorberg Þorgeirssyni, sem var aðeins 18 ára þegar hann gerðist stjórnarmaður í Fram, og móður sinni, Guðríði Halldórsdóttur.
Þegar Birgir fæddist 3. maí 1937 var pabbi hans leikmaður og formaður Fram (1935-1937), 24 ára. Þrír bræður Guðríðar voru einnig formenn Fram; Guðmundur, Ólafur og Sigurður. Guðmundur var nefndur „faðir Fram“ – eftir að hann blés í herlúðra 1928, þegar Fram var nærri dautt. Undir hans stjórn hófst sögulegt tímabil, sem er kallað „Endurreisnartímabilið.“ Lúðvík Thorberg tók virkan þátt í því tímabili.
Þess má geta að Lúðvík Thorberg og Guðmundur, báðir heiðursfélagar Fram, komu mikið við sögu þegar félagssvæði Fram í Safamýri var í uppbyggingu. Guðmundur tók fyrstu skóflustnguna á svæðinu 21. júní 1968 og Lúðvík Thorberg tók fyrstu skóflustunguna að fyrra félagsheimili Fram, 10. apríl 1972.
Birgir varð Íslandsmeistari með meistaraflokki Fram í knattspyrnu 1962, en þá lék hann við hlið bræðra sinna; Halldórs og Þorgeirs. Guðmundur Jónsson, þjálfari Fram, hafði þetta að segja um Birgi, sem lék í stöðu bakvarðar: „Birgir var traustur og brást aldrei. Það var erfitt fyrir andstæðinga að leika á hann og var Birgir mjög góður í návígum og nýtti sér ýmsar hreyfingar úr handknattleiknum.“
Þegar Birgir lagði keppnisskóna á hilluna snéri hann sér að félagsmálum og gegndi margvíslegum trúnaðarstörfum fyrir Fram. Hann varð formaður knattspyrnudeildar 1960-1961, síðan formaður handknattleiksdeildar í 11 ár; fyrst 1963-1969 og síðan 1976-1981.
Karlalið Fram varð gríðarlega sterkt og varð Íslandsmeistari fjórum sinnum á fyrra formannstímabili Birgis og 1968 varð Fram Íslandsmeistari í fimm flokkum af sjö, karla og kvenna. Birgir átti stóran þátt í þeim uppgangi og á síðari formannstímabili hans voru Framkonur óstöðvandi; hömpuðu 17 bikurum og urðu Íslandsmeistarar fimm ár í röð; bæði innan og utanhúss.
Birgir barðist fyrir því að Fram eignaðist eigið íþróttahús, en talaði lengi fyrir daufum eyrum. Hörð barátta Birgirs skilaði árangri, handknattleiksmenn og konur Fram gátu hreiðrað um sig í Safamýrinni; nýtt íþróttahús var vígt 21. ágúst 1994. Gleðin var mikil, Framarar höfðu eignast heimavöll!
Birgir, sem var formaður aðalstjórnar Fram 1986-1989, tók á móti öllum fjórum heiðursmerkjum Fram og þá var hann sæmdur heiðursmerkjum HSÍ, KSÍ, ÍSÍ, HKRR, KRR og ÍBR.
Birgir er einn af þeim félagsmönnum sem tóku ekki krónu fyrir það sem þeir gerðu og voru alltaf tilbúnir til átaka þegar til hans var leitað – til að halda merki félagsins hátt á lofti; „Traustur og brást aldrei!“
Framarar kveðja og minnast Birgis með þakklæti fyrir mikið starf í þágu félagsins. Eiginkonu hans Helgu Brynjólfsdóttur og fjölskyldu eru sendar hugheilar samúðarkveðjur.
Sigmundur Ó. Steinarsson.
Jóhann Gunnar Kristinsson hefur tekið saman myndir úr starfi Birgis fyrir Fram. Þær má sjá hérna http://frammyndir.123.is/pictures/