fbpx
Kyle gegn grindavík vefur

Skipið siglir…

Ein af hinum óskiljanlegu þversögnum fótboltans er að hann er einskis virði nema keppt sé um bikar. Tíu marka leikur með stærstu stjörnum samtímans bliknar við hliðina á markalausu jafntefli í þriðjudeild hvítrússnesku knattspyrnunnar er sá fyrrnefndi er bara æfingarleikur. Mögulega er orðið „vináttuleikur“ það andstyggilegasta í íslenskri tungu.

Þessi sannindi voru áréttuð í vikunni þegar Framarar mættu knattspyrnuarmi bæjarsjóðs Hafnarfjarðar í æfingarleik sem lauk með 3:2 sigri okkar manna með sigurmarki í blálokin. Undir öðrum kringumstæðum og í alvöru móti hefðu úrslit þes þessi kallað á kvæðabálka og sagnaljóð, en við vitum öll að lokaleikirnir á vorin eru bara gabb og skrum.

En sumarið byrjar með fyrsta alvöru leiknum, hvort sem það er deild eða bikar. Þar skiptir ekki máli hvort mótherjinn er rúgbrauð eða franskbrauð. Í dag hófst sumarið með bikarleik á móti Herði frá Ísafirði.

Áður en lengra er haldið skal tekið fram að Harðarmenn voru varla mótherjar sem náðu máli. Þetta mun verið venslalið Vestra og margir leikmannanna eru kornungir. Með góðum vilja má eflaust segja að Harðarmenn hafi safnað í reynslubankann í dag, en nákvæmlega í hverju sú reynsla eigi að felast er ekki alveg ljóst. Það er fátt uppbyggilegt við að tapa 8:0 í leik þar sem þú nærð ekki einu einasta skoti á mark.

Segja má að Ísfirðingar hafi í dag verið fórnarlamb Covid-faraldursins. Vegna hans hefur Nonni þjálfari ekki fengið eins marga undirbúningsleiki og æskilegt hefði verið og því var ekki í boði að nota þennan leik til að stilla upp táningum og varamönnum. Þess í stað tefldum við fram okkar sterkasta liði eða því sem næst.

Ólafur Íshólm stóð í markinu, Kyle og Óskar Jónsson byrjuðu í miðvarðastöðunum og Haraldur og Alex sem bakverðir. Aron Þórður, Tryggvi og Indriði Áki á miðjunni, Magnús og Fred á köntunum og Þórir fremstur. …eða nokkurn veginn þannig má ímynda sér að upphaflega liðsuppstillingin hafi átt að líta út. Í raun voru meira og minna allir í sókn frá fyrstu mínútu á meðan gestirnir reyndu að parkera þrefaldri rútu frá Vesturleið í vítateigsboxinu.

Það voru fáeinir tugir grímuklæddra Framara sem mættu í Safamýrina. Lofthitinn var bærilegur, um níu gráður, en skýjað og nokkur blástur. Svona veður telst bærilegt á vorin eftir margra mánaða nepju og vosbúð en þykir skítaveður á haustin þegar sumarsólin er búin að gera okkur að aumingjum.

Strax á fyrstu mínútunum varð ljóst að lið Ísafjarðar-Harðar var ekki steypt í mót hins jökulkalda Harðar stýrimanns úr Tinna-bókunum, heldur minntu fremur á andhetjuna Harða-Hörð sem átti ekkert gos eftir Alexander Marklínu, sem Andrés Önd dáði svo mjög í minnisstæðri sögu. Það tók þó Framara rétt tæpar tíu mínútur að skora fyrsta markið. Það gerði Tryggvi eftir að hafa sólað sig í gegnum miðja ísfirsku vörnina, platað þrjá og skotið svo auðveldlega fram hjá markverðinum.

Tryggvi var aftur á ferðinni í marki númer tvö, þar sem tiltölulega laust skot hans, beint á markvörðinn hrökk á milli fóta honum og í netið. Tilþrifin voru undir sterkum áhrifum frá aðalmarkverði Arsenal-liðsins og því ekki leiðum að líkjast. Framarar á pöllunum voru háttvísir og stilltu sig um að fagna markinu af samúð með hinum ólánsama markverði.

Kyle skoraði þriðja markið með skoti af stuttu færi eftir að gestunum mistókst að hreinsa frá eftir hornspyrnu. Þeim var viss vorkunn. Það getur ekki verið auðvelt að spila í þessum gráu og svörtu felubúningum sem virðast hafa verið sniðnir úr gömlum bílsætisáklæðum frá níunda áratugnum.

Næstu mínúturnar fengu Framarar hvert dauðafærið á fætur öðru, þrátt fyrir að sýna gestunum kurteisi á ýmsan hátt, til dæmis með því að taka flestar hornspyrnur stutt. Það eru takmörk fyrir því hvað unnt er að valda mikilli angist og uppnámi í einum fótboltaleik. Á þessum tímapunkti þakkaði fréttaritarinn fyrir að fylgisveinninn sauðtryggi, Valur Norðri, var víðs fjarri og því enginn markapeli með í för. Annars er nú hætt við að einhverjir hefðu orðið að sofa á sófanum.

Skömmu fyrir leikhlé hélt Kyle áfram í hlutverki hins óvænta markaskorara þar sem hann skallaði inn af stuttu færi upp úr aukaspyrnu frá Fred.

Framarar hlýta sóttvarnaryfirvöldum og því var ekkert kaffi í boði í leikhlénu. Flestir áhorfendur litu þó inn í félagsheimilið til að ná upp kjarnhita. Það eru því engir kaffidómar í boði en sóttvarnarsprittið var gott: sterkt en þó ekki rammt.

Tvær breytingar höfðu verið gerðar á Framliðinu í hléi. Þórir og Indriði Áki fóru af velli en í staðinn komu þeir Aron Snær og okkar allra besti Gummi Magg, sem tók þá skynsamlegu ákvörðun að flýja brennisteinsgufurnar og flúormengunina í hamfarasvæðinu Grindavík.

Aron Snær þurfti ekki langan tíma til að setja mark sitt á leikinn. Þegar tíu mínútur voru liðnar hafði hann skorað í tvígang, í bæði skiptinn eftir klaufalega vörn gestanna. Mörkin komu með þriggja mínútna millibili en á milli þeirra bar það helst til tíðinda að Harðarmenn fengu aukaspyrnu á 55. mínútu. Úr henni kom fyrsta markskotið í átt að Frammarkinu, sem fór þó raunar nokkuð framhjá.

Magnús bættist á markaskoraralistann eftir klukkutíma leik eftir að Tryggvi hafði prjónað sig í gegnum vörn andstæðinganna, var felldur en boltinn barst til Tryggva sem setti hann í netið eftir smávægilegt klafs. Ekki á hverjum degi sem maður sér dómara beita hagnaðarreglu í stað þess að dæma vítaspyrnu.

Kyle fór af velli fyrir Guðlaug Rúnar og seinna leystu þeir Steinar og Anton Hraf þá Harald og Magnús af hólmi. Á þessum lokakafla bjóst maður allt eins við því að Ísfirðingar myndu örmagnast, en þeim virtist fremur vaxa ásmegin undir lokin, einkum amrkvörðurinn sem varði í nokkur skipti vel – einkum frá Guðmundi. Hann kom þó engum vörnuð við á 83. mínútu þegar Harðarmenn höfðu af fífldirfsku álpast með fáeina menn fram í nokkurs konar sókn, en misstu boltann og Steinar brunaði upp völlinn, sendi fyrir og Guðmundur potaði í markið. Þann leik endurtók hann raunar í tvígang en reyndist rangstæður í bæði skiptin.

Leiktíminn rann út og Framarar lönduðu einstaklega þægilegum 8:0 sigri. Sigurlaunin eru ekki af verri endanum: leikur í næstu umferð gegn Víðismönnum á útivelli á frídegi verkalýðsins. Það er aldrei að vita nema fréttaritarinn láti sjá sig þar – einkum ef spilað verður undir beru lofti í Garðinum en ekki í þessum andstyggilega fótboltabragga í Keflavík.

Maður leiksins? Sóttvarnarfulltrúi Fram, án nokkurs vafa! Fumlaus sprittun, hárnákvæm skráning persónuupplýsinga og engir áhorfendur að sleikja hurðarhúna.

Stefán Pálsson

Share this post

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!