Úrslitaleikur um deildarmeistaratitilinn í Olís-deild kvenna á laugardaginn!
Það verður sannkallaður úrslitaleikur í Safamýrinni á laugardaginn klukkan 13:30 þegar stelpurnar okkar mæta KA/Þór. Stelpurnar okkar geta tryggt sér titilinn annað árið í röð en lið KA/Þór er afar erfitt við að eiga og því þurfa stelpurnar okkar að vera klárar í alvöru bardaga þar sem ekkert verður gefið eftir. Bæði lið hafa 20 stig í deildinni en KA/Þór nægir jafntefli en okkur dugir ekkert minna en sigur.
Á föstudaginn klukkan 19:30 kemur lið HK-U í heimsókn og spilar við stelpurnar okkar í U liðinu sem hafa þegar tryggt sér deildarmeistaratitilinn í Grill66-deildinni. Því eigum við Fram-arar möguleika á því að tryggja okkur deildarmeistaratitilinn í báðum kvennadeildunum annað árið í röð! Það er því ljóst að það fer bikar á loft á föstudaginn og svo er bara að klára titilinn fyrir Olís-deild kvenna líka.
En það er ljóst að það verður erfitt verk að sigra lið KA/Þór sem hefur sýnt frábæra spilamennsku í vetur. Það er mikil eftirspurn eftir miðum á þennan þýðingarmikla leik og biðjum við því stuðningsmenn okkar að skrá sig fyrir miðum sem allra fyrst. Við getum aðeins tekið við 100 gestum á laugardaginn. Stúkan okkar býður því miður ekki upp á meira. Árskorthafar ganga fyrir og hafa möguleika að taka frá miða fyrir sig til 12.00 á fimmtudaginn. Allir aukamiðar munu fara í almenna sölu á appinu ,,Stubbur” kl. 16.00 á fimmtudaginn! Allir árskorthafar eru því beðnir um að hafa samband á toggi@fram.is – Aðeins hægt að taka frá einn miða með hverju árskorti! Áfram FRAM!