Einhver minnisstæðasti bókardómur sem birst hefur í Tímariti Máls og menningar var eftir Trausta Jónsson veðurfræðing um Rokksögu Íslands eftir Gest Guðmundsson. Óhætt er að segja að Trausti – sem áður hefur komið við sögu í leikskýrslum þessum – hafi farið hörðum höndum um verk félagsfræðingsins sænskmenntaða. Teygði náttúruvísindamaðurinn Gest sundur og saman í háði fyrir að vera fastur í fortíðarþrá sinna eigin unglingsára og velti því fyrir sér hvort það gæti virkilega staðist að höfundur hafi akkúratt verið svo lánsamur að alast upp á því eina tímabili rokksögunnar þar sem tónlistargreinin hafi staðið í blóma og nálgast tærleika í listsköpuninni, en á öllum öðrum skeiðum hafi ómerkileg markaðsöfl spillt og afskræmt rokkið? Gæti ekki hugsast að fræðimaðurinn hafi hér verið dómgreindarlaus á átrúnaðargoð æskuára sinna en beiti gagnrýninni hugsun á þá sem á undan og eftir komu?
Ábendingar Trausta voru hnitmiðaðar og beinskeyttar. Og auðvitað hafa þær gildi á miklu fleiri sviðum en þegar kemur að rokktónlist. Sú hætta er ætíð fyrir hendi að við horfum um of til mótunarára okkar og lítum á þá mynd sem þá blasti við sem hina einu og réttu – allt annað sé frávik.
Að því sögðu vill fréttaritari Framsíðunnar taka það fram, að níundi áratugurinn ER hið eina og sanna viðmið þegar kemur að íslenskum fótbolta. Hin náttúrulegu stórveldi ERU Fram, Valur, ÍA og Þór Akureyri. KR-ingar eru rauðhærðir varnartuddar og lið sem liggur í fiskinetjum. Stjarnan Í Garðabæ er handboltalið. Kórdrengir eru bresk þungarokkssveit og Víðir í Garði er lið sem á heima í hópi þeirra bestu. Þetta er sá hóll sem fréttaritarinn er tilbúinn að deyja á.
Víðisævintýrið á níunda áratugnum er eitt það skemmtilegasta í sögu íslenskrar knattspyrnu. Það var magnað að keyra suður með sjó, spila á gamalli flugbraut frá ameríska hernum í næðingi á móti liði þar sem allir voru Einarssynir og bræður. Víðismenn í albláu búningunum sínum og með Lýsis-auglýsinguna áttu virðingu allra og það var pínkulítið súrsætt að þurfa að taka það að sér að slökkva í bikardraumi þeirra um árið með 5:0 slátrun á þjóðarleikvangnum.
Allar þessar minningar flugu í gegnum huga fréttaritarans þegar hann ók á sínum heiðbláa metanbíl í Garðinn. Með í för voru Kristján Freyr, vestfirskur trymbill og Valur Norðri, matvælafræðingur ættaður frá Kópaskeri. Skytturnar þrjár voru færar í flestan sjó – eða það héldum við þar til stigið var út úr bílnum…
Knattspyrnufélagið Fram leikur í Lengjudeildinni í ár og meðal andstæðinga eru ýmis lið frá næðingssömum stöðum, s.s. Grindavík og Vestmannaeyjum. Til að æfa sig fyrir þessi verkefni hafa forsvarsmenn félagsins greinilega hnippt í Gylfa Orrason og beðið hann um að kippa í spotta hjá KSÍ til að rigga upp leik í Garðinum. Það var hvínandi rok frá fyrstu mínútu til hinnar síðustu. Hendur fréttaritarans urðu skjótt krókloppnar svo hann tók nánast enga punkta niður. Skýrslan mun bera þess merki og verður því lítið um leikupprifjun en þeim mun meira rant um Trausta veðurfræðing og kaffi. Fátt nýtt þar svo sem.
Framarar tefldu fram sterku og lítt breyttu liði frá leiknum gegn Harðarmönnum frá Ísafirði. Ólafur var í markinu og í miðvörðunum þeir Kyle og Gunnar, sem vantaði í síðasta leik (væntanlega að taka út leikbann). Alex og Haraldur voru í bakvörðunum sem fyrr. Á miðjunni var Óskar aftastur, Aron Þórður, Tryggvi og Albert með Fred og Þóri fremstan. Bekkurinn var firnasterkur. Fram fer inn í þetta keppnistímabil með mjög stóran og breiðan hóp.
Það var ágætlega mætt á iðagrænan Garðsvöllinn. Heimamenn voru rúmlega fimmtíu á að giska og lögðu undir sig steypta stúkuna meðfram annarri hliðinni, en um þrjátíu Frömurum var fundinn staður á grasvöxnum stöllum hinu megin. Allar sóttvarnir upp á tíu.
Tvær deildir skilja liðin tvö að og það sást strax frá fyrstu mínútu. Heimamenn lágu til baka og hugsuðu um að verjast. Þeim tókst ekki að skapa sér nein marktækifæri sem vert er að telja til fyrr en undir blálokin þegar hægt er að tala um 1-2 hálffæri. Okkar menn héldu hins vegar knettinum mestallan tímann og reyndu að spila sig í gegnum varnarmúrinn, oftar en ekki til þess eins að sendingartilraunir færu út um þúfur vegna strekkingsvindsins sem gerði mestalla spilamennsku ómögulega.
Framarar í grasbrekkunni komu varla upp hósta eða stunu í næðingnum en náðu þó að heimta vítaspyrnu í tvígang á fyrstu 25 mínútunum. Á þeim tíma höfðu Safamýrarpiltar átt nokkrar hættulegar sóknir en þó engin dauðafæri. Eftir hálftíma leik tókst loks að höggva á hnútinn. Tryggvi lék sig í gegnum Víðisvörnina, boltinn barst til Arons Þórðar sem átti gott skot utarlega úr teignum í markhornið, 1:0.
Þremur mínútum síðar áttu Víðismenn hættulitla hornspyrnu en í kjölfar hennar hneig Alex til jarðar sárþjáður. Hann var færður af velli og bað þegar um skiptingu. Hann var studdur til búningsklefa í leikslok, greinilega mikið kvalinn. Hætt er við að hann verði eitthvað frá vegna meiðsla sem er vitaskuld afleitt. Indriði Áki kom inn á staðinn.
Fátt markvert gerðist það sem eftir leið af hálfleiknum, að minnsta kosti ekkert sem réttlætti að fréttaritarinn tæki kalda puttana upp úr hlýjum vösunum til að pára í minnisbókina.
Um leið og flautað var til leikhlés spruttu ferðalangarnir þrír á fætur og freistuðu þess að kaupa kaffi af heimamönnum. Sú var tíðin að íbúar Garðsins hikuðu ekki við að stela öllu steini léttara af Kananum, en nú eru breyttir tímar og Garðsbúar hlýða Víði. Engin veitingasala var á vellinum og þurftu hrollkaldir Reykvíkingarnir því að bregða sér í bíltúr um byggðalagið. Bensínstöðvarsjoppan Doddakaffi var lokuð í tilefni baráttudags verkalýðsins – stéttvís maður Doddi, en annað var upp á teningnum í kjörbúð bæjarins sem reyndist opin. Fréttaritarinn er sósíalisti og dettur að sjálfsögðu ekki í hug að kaupa neitt á 1. maí – hins vegar vafðist það ekki fyrir honum að senda trumbuslagarann og grautarfræðinginn inn til að kaupa fyrir sig kaffi. Það var ekkert sérlega heitt eða vel út látið, en samt dýrðlegt og bjargaði því sem bjargað varð.
Með örlitla tilfinningu í fingrunum eftir snertinguna við volgt kaffimálið gat fréttaritarinn (er hann Roald Amundsen sinnar kynslóðar?) hripað niður skiptinguna í hléi: Már kom in á fyrir Albert. Fáeinum mínútum síðar þurfti að grafa upp minnisbókina á ný þegar Fred átti gott skot yfir Víðismarkið eftir að hafa dansað í kringum nokkra bláklædda heimamenn.
Eftir tæplega klukkutíma leik juku okkar menn forystuna í 2:0. Þórir átti góða sendingu á Fred sem afgreiddi boltann glæsilega yfir markvörðinn í hornið. Leikurinn var í raun búinn og nú tók bara við baráttan við sultardropana.
Þegar tuttugu mínútur voru til leiksloka gerði Nonni þjálfari tvöfalda skiptingu. Tryggvi og Þórir fóru af velli en Guðmundur og Aron Snær komu inná. Í kjölfarið fengum við nokkur þokkaleg færi en náðum ekki að bæta við. Segja má þó að Framarar hafi orðið óþarflega kærulausir í seinni hálfleiknum sem birtist í því að liðið nældi sér í þrjú gul spjöld sem var algjör óþarfi í svo ójöfnum leik. Síðasta skiptingin kom svo þegar um fimm mínútur voru eftir þegar Magnús kom inná fyrir Óskar.
Það er óhætt að segja að vorbragur hafi verið á frammistöðunni í dag, en það er líka erfitt að gera miklar kröfur til spilamennsku í roki eins og boðið var upp á. Ekki er ástæða til að taka neina sérstaka leikmenn út fyrir góða frammistöðu og skiljanlega er mannskapurinn með hugann við deildarleikinn vegn Ólafsvíkingum á fimmtudaginn. Fram og Úlfarnir verða bæði í pottinum þegar dregið verður í 32-liða úrslitin. Pant fá Úlfana á Hlíðarenda og Framliðið á heimavöll gegn Leikni í næstu umferð, það eru ákveðin óútkljáð mál frá síðasta tímabili…
Stefán Pálsson