fbpx
indriði og Aron

Bleikt og blátt

Fyrir mörgum árum, löngu áður en þúsaldarkynslóðin gerði það að félagslega viðurkenndri iðju og sjálfsagðan atvinnuveg að framleiða klám á Onlyfans, áttu íslenskir dónakarlar aðeins eitt athvarf: tímaritið Bleikt & blátt. Þar gaf að líta berrassaðar íslenskar stelpur, innan um uppfyllingarefni sem átti að gefa ritinu kúltíveraðra yfirbragð. Allir sáu í gegnum það trix.

Í einhverri andlitslyftingu blaðsins var það endurskírt b&b og Björn Jörundur gerður að ritstjóra. Dýpri rödd – sama klámið. Fréttaritari Framsíðunnar var ráðinn sem lausapenni, til að skrifa skringigreinar um fótbolta og lélegar vísindaskáldsögur. Það var ekki hápunkturinn á frílansferli hins sjálfstætt starfandi sagnfræðings.

Og talandi um bleikt og blátt! Það voru einmitt liðin sem mættust í bongóblíðunni í Sambamýri í kvöld. Framarar í hinum sígildu litum sjálfstæðisbaráttunnar, hvítum og bláum, sem valdir voru af rammpólitískum unglingum úr aðdáendasveit Hannesar Hafstein. Gestirnir, Akureyrar-Þór, mættu hins vegar ekki í hefðbundnum hvítum treyjum og rauðum stuttbuxum – heldur í bleikustu bolum sem sést hafa á byggðu bóli. Þeir litu út eins og framhaldsskólanemar sem ákveðið höfðu að dimmitera sem bensínstöð frá Orkunni. Hvílíkir tímar, hvílíkir siðir!

Fréttaritarinn mætti tímanlega í mýrina fögru og ekki einsamall. Til að lágmarka vistsporið óku hann og Kristján Freyr vallarþulurinn geðþekki saman í bíl. Skjaldsveinninn Valur Norðri var sóttur í leiðinni. Bíllinn gekk á metani, en farþegarnir á etanóli. Markafleygurinn góði var loksins með í för.

Leiðin lá í veislusalinn í Framheimilinu þar sem fínimenni félagsins gröðkuðu í sig samlokur með roastbeef og laxi. Nonni þjálfari kynnti liðsuppstillinguna og leikplanið. Það fólst í stuttu máli í að keyra hratt á Þórsaranna í byrjun leiks á meðan þeir væru enn með harðsperrur eftir að hafa keyrt Hvalfjörðinn. Gott plan. Liðið var á þessa leið: Ólafur í marki, Kyle og Gunnar miðverðir, Halli og Alex bakverðir. Aron Þórður, Indriði Áki og Albert á miðjunni með Má og Fred á köntunum og Þóri fremstan. Bekkurinn var mjög sterkur. Breiddin hjá okkur er slík að sterkir menn komast jafnvel ekki á varamannabekkinn.

Með allar sóttvarnir til fyrirmyndar var fréttaritaranum og skjaldsveini vísað til númeraðra sæta rétt við hlið sjónvarpsmyndavélarinnar. Í röðinni fyrir neðan sat eftirlitsmaður KSÍ en í efri röð voru tveir af þremur Guðjónssonum. Hér yrði ekki töluð vitleysan!

Framliðið hafði greinilega hlustað vel á þjálfarann og blés til sóknar frá upphafi. Eftir fimm mínútur höfðu tvö góð færi litið dagsins ljós. Í bæði skiptin var það Kyle hinn bandaríski sem var nálægt því að skora. Hann hefur greinilega ákveðið að gerast Ágúst Ólafsson sinnar kynslóðar og gera alvarlega atlögu að silfurskónum í deildinni úr stöðu aftasta varnarmanns. Vel gert!

Eitt helsta skapgerðareinkenni Þórsara hefur alla tíð verið hin sterka réttlætiskennd félagsmanna. Hún birtist einkum í því að mótmæla, tuða og kvarta undan hverjum einasta dómi. Þeirri hefð var rækilega viðhaldið frá fyrstu mínútu. Höfðu gestirnir þó í raun ekki yfir neinu að kvarta frá hendi Aðalbjörns Heiðars, dómara leiksins – manns sem fréttaritarinn hefur aldrei heyrt um áður. Það voru sýnilega margir leikir í gangi í kvöld og KSÍ splæsti ekki einu sinni í dómara á ljósaskiltið.

Leikaðferð Þórsara var augljós: að liggja djúpt til baka og treysta á skyndisóknir, sem helst sköpuðust eftir kæruleysislegar sendingar Framara á miðjunni eða í vörninni. Fæstar sköpuðu þó mikla hættu og gripu varnarmenn eða Ólafur í markinu vel inní þegar þurfa þótti. Hættan var öll hinu megin á vellinum. Eftir tæplega fimmtán mínútna leik braust Fred upp að endamörkum, sendi á Albert sem átti hárnákvæma vippu inn á teiginn það sem Indriði Áki kom svífandi og skallaði í netið, 1:0.

Framarar gengu á lagið og áttu nokkrar fínar sóknarlotur í framhaldi af markinu. Um miðjan hálfleikinn braust Alex í gegn og átti bylmingsskot framhjá í sömu mund og aðvífandi varnarmaður sparkaði hann niður í teignum. Ekkert var þó dæmt.

Sól skein áfram í heiði og fréttaritarinn leit forviða á fólkið í kringum sig, íklætt flíspeysum og útivistarfatnaði á meðan hann sjálfur var í stuttermabol og fína appelsínugula vestinu. Við verðum að standa með íslenska vorinu! – Þessar vangaveltur voru þó truflaðar af fyrsta hvatningapeppi vallarþularins frá Hnífsdal, sem leiddi mannskapinn í hvatningasöng: „Framarar, Framarar, Framarar!“ Þetta var nánast eins og Ragga Ríkharðs væri mætt í stúkuna og árið væri 1991.

Frábær sóknarlota á 34. mínútu hefði átt að tvöfalda forystuna þegar Þórir og Halli brutust upp völlinn og boltinn barst að lokum á Albert sem var í dauðafæri en Þórsmarkvörðurinn varði meistaralega.

Þórsarinn (getur einhver útskýrt hvers vegna leikmenn Akureyrar-Þórs eru Þórsarar en Vestmanneyja-Þórs eru Þórarar?) kom hins vegar engum vörnum við á 40. mínútu þegar Framarar fengu hornspyrnu og varnarmenn andstæðinganna sáu enga ástæðu til að reyna að valda Ágúst Ólafsson… ég meina Kyle McLagan sem fékk frían skalla á markteig, 2:0.

Við annað markið var öll mótspyrna gestanna brotin niður og undir blálok hálfleiksins kom rothöggið: Þórir og Fred áttu góða sóknarlotu sem lauk með hornspyrnu. Upp úr henni barst boltinn til Fred sem stóð fyrir utan vítateig og hafði nægan tíma til að athafna sig og skaut innanfótar í markhornið – þó ekki fastar en svo að markvörðurinn leit ekki sérlega vel út.

Með góða forystu og þrjú stig nánast í höfn vappaði áhorfendaskarinn í Framheimili. Af miskunsemi, en mögulega í nokkrum trássi við sóttvarnarreglur, var gamall vinur og bumbuboltafélagi sem er Skagfirðingur sem heldur með Þór (ég hef aldrei skilið það heldur) dreginn með. Framarar eru vel upp aldir og enginn híaði á hann. Þórsliðið er ungt og að sönnu efnilegt. Þeir munu ekki blanda sér í toppbaráttuna í ár en hver veit hvað gerist eftir 1-2 ár?

Í félagsheimilinu slóst gömul kempa í hópinn. Eini maðurinn sem gat skorað fleiri mörk en Ágúst Ólafsson í gömlu 2. deildinni fyrir hundrað árum. Hann var örlítið illa áttaður – hafandi gert ráð fyrir að leikurinn byrjaði klukkan sjö. Var honum óðara fundið sæti við hlið skjaldsveinsins.

Seinni hálfleikur hófst rólega og ekkert dró til tíðinda fyrstu tíu mínúturnar sem verðskuldaði að párað niður í minnisbókina. Sól dró fyrir ský og þurfti fréttaritarinn jafnvel að bregða sér í fínu gráu peysuna sína um tíma. Ekki þó lengi.

Fyrsta afgerandi færið eftir hlé kom á 56. mínútu eftir fínan undirbúning hjá Alberti og Fred, þar sem Már átti bylmingsskot yfir. Fréttaritarinn, sem er þó með orðvarari mönnum, sá ástæðu til að hripa niður gildisdóminn: „Þórsarar eru úti á þekju“ eftir tæplega klukkutíma leik.

Þegar fjórðungur leiktímans var eftir gerði Jón Sveinsson tvöfalda skiptingu. Aron Þórður og Már fóru af velli en Alexander og Gummi Magg komu inn í staðinn. Báðir höfðu staðið sig með prýði – eins og raunar má segja um allt liðið í kvöld.

Fjórum mínútum eftir skiptinguna leit fjórða markið – og það flottasta – dagsins ljós. Fred lék neonbleika vörn Akureyringa grátt, sendi síðan út á Indriða Áka sem náði hárnákvæmu skoti í bláhornið rétt fyrir utan teig. Rándýrt mark og staðan orðin 4:0.

Kættust nú Framarar mjög á pöllunum og markahrókurinn tímavillti sýnu mest, enda fleygurinn góði kominn á loft. Það er ótrúleg glaðværð og kátína sem ríkir í stuðningsmannahópnum þessi dægrin. Gamlir sóðakjaftar eru prúðir og klappa þegar Hnífsdælingurinn hvetur þá áfram. Við vælum furðulítið yfir dómurum og Sævar Guðjónsson á það jafnvel til að hrósa mönnum að fyrra bragði. Hvílíkir tímar til að lifa!

Fyrsta færi gestanna sem verulega kvað að leit dagsins ljós þegar tuttugu mínútur voru eftir, en Óli varði afbragðsvel með fótunum. Skömmu síðar var Þórir næstum sloppinn í gegn en einn bleikur og keikur renndi sér fyrir hann á síðustu stundu – virtist þó handleika knöttinn en komst upp með það.

Þegar stundarfjórðungur var eftir kom stundin sem flestir höfðu beðið eftir. Nonni gerði aðra tvöfalda skiptingu. Gunnar fór af velli fyrir Aron Kára og Þórir fyrir Guthrie, úrvalsdeildarkempuna sem allir fótboltanirðir landsins hafa beðið með öndina í hálsinum eftir að sjá.

Stutta útgáfan er þessi: Danny Guthrie lítur út eins og bekkpressukappi. Að sögn er hann með svo svera kálfa að félagið þurfti að panta sokka í yfirstærð. Hann á talsvert í að komast í form fyrir 90 mínútur en það er enginn leikmaður í þessari deild að fara að stugga við honum á velli og þessar 2-3 sendingar sem hann átti voru brilljant. Mættum við fá meira að heyra!

Alex var nærri því að bæta fimmta markinu við þegar tíu mínútur voru eftir. Uppgjöf gestanna var algjör. Albert fór af velli fyrir Tryggva skömmu síðar. Fred hefði mátt gera betur eftir góða sókn skömmu síðar, en á þeim tímapunkti var leikurinn farinn að snúast upp í hálfgerða vitleysu.

Þórsarar minnkuðu muninn eftir fágætt einbeitingarleysi í Framvörninni í síðustu snertingu leiksins, 4:1. Þau úrslit láta gestina þó líta of vel út. Yfirburðir okkar manna voru miklur í kvöld og sex marka sigur hefði verið nær lagi. Indriði Áki var maður leiksins en fleiri verðskulda hrós. Nú mætum við öll í Grafarvoginn eftir viku. Og plís – eigum við að reyna að mæta öll í stuttermabol og vesti? Þessar flístreyjur er hálfvandræðalegar í sólstrandarblíðunni.

Stefán Pálsson

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!