fbpx
Sindri - FRAM III

Á hálum ís

Um miðjan tíunda áratuginn stóð Hollywood frammi fyrir óvæntu vandamáli. Sovétríkin, sem verið höfðu endalaus uppspretta trúverðugra illmenna í hasarmyndum af öllu tagi, hrundu til grunna. Við tók Rússland Jeltsíns sem mátti heita samfellt niðurlægingarskeið dólgakapítalisma og hruns allra samfélagslegra innviða á meðan forseti ríkisins varð ítrekað að athlægi með fylleríslátum sínum á opinberum vettvangi. Rússland var aðhlátursefni frekar en ógn.

Hin óvænta óvinaleit sem af þessari stöðu hlaust tók stundum á sig skrítnar myndir. Þegar ákveðið var að gera framhald af óvæntum smelli Emilio Estevez, um ísknattleiksliðið Mighty Ducks, voru andstæðingarnir harðsnúið lið Íslendinga undir stjórn hinnar harðsvíruðu Maríu Ellingsen. Mighty Ducks 2 sló í gegn og hefur öðru fremur ýtt undir ranghugmyndir umheimsins um styrk, fúlmennsku og svalheit íslenskra íshokkíleikmanna. Það eru ekki sálarlaus ofurmenni heldur klunnaleg gæðablóð upp til hópa.

Fréttaritari framsíðunnar spenntist þó allur upp á leiðinni í Sambamýri í kvöld til að horfa á stelpurnar okkar takast á við Skautafélag Reykjavíkur. Áður en lengra er haldið er rétt að taka fram að fréttaritarinn er meðvitaður um þá staðreynd að Skautafélagið er EKKI íshokkílið sem skiptir pekkinum út fyrir bolta á sumrin, heldur er þetta venslalið Þróttar Reykjavíkur sem fær að nýta kennitölu skautamanna. Það mun þó ekki hindra höfund þessa pistils í að segja alla þá skautatengdu brandara sem honum kann í hug að koma. Þessi tækifæri gefast bara svo sjaldan!

Hitamælirinn í bílnum lofaði tíu gráðum en það voru frekar hæverskar tíu gráður. Í örlítilli golu og með skýjahulu sem hótaði súld í sífellu var frekar kalt. Gula vestið fína þurfti meira að segja að víkja fyrir síðum frakka og trefli í leikhléi.

Þóra Rún stóð í Frammarkinu með Eriku og Höllu Helgadóttur fyrir framan sig og Margréti Regínu og Freyju Sól í bakvarðarstöðunum. Kristín Gyða, Ólöf og Gianna á miðjunni. Oddný og Halla Þórdís hvor á sínum kanti og Hannah fremst. Litlar breytingar frá síðasta heimaleik í það minnsta. SR var stigalaust fyrir leikinn eftir þrjár umferðir, en hefur þó verið að skora í leikjum sínum og ekki tapa með miklum mun.

Leikurinn byrjaði afar rólega og gaf fréttaritaranum færi á að leggja drög að bjórkvöldi stuðningsmanna ásamt Kristni Rúnari og Ásgrími formanni. Takið frá 16. júní! Fyrstu færin sem vert þótti að hripa niður í minnisblokkina komu eftir um tuttugu mínútur. Framkonur voru þó klárlega sterkari aðilinn á meðan gestirnir reyndu að verjast og treysta á skyndisóknir.

Nokkur bjartsýnisleg langskot Framara, þar á meðal frá Oddnýju og Hönnuh (fallbeygir maður það ekki svona?) gerðu lítinn usla og helsta ógnin kom eftir tvær hornspyrnur. SR átti fáa en þó háskalega spretti, t.a.m. komust þær einu sinni þrjár á móti tveimur varnarmönnum Fram en Þóra markvörður bjargaði með ágætu úthlaupi.

Dómarinn flautaði til leikhlés án þess að bæta neinu við fyrri hálfleikinn. Við kettlingarnir í hópnum flúðum inn í félagsheimili til að ná í yl á meðan fullhugar í hópi áhorfenda (sem voru svona 40-50 talsins) gúffuðu í sig stóreflis bakaríssnúða í kaffiskúrnum, dável hvattir áfram af líflegum vallarþul. Þrjár smástelpur, rétt á grunnskólaaldri, börðu á bumbu og sinntu hvatningarhrópum.

Fram hefur ágætlega breiðan hóp og þjálfararnir eru ekki smeykir við að gera skiptingar. Tvær litu dagsins ljós strax í upphafi seinni hálfeiks. Ólöf og Freyja fóru af velli en Svava Björk og Ásta komu inn í staðinn.

Leikurinn var rétt hafinn á nýjan leik þegar boltinn small í útrétta hönd eins varnarmanns SR inni í vítateig. Áhorfendur kvörtuðu en dómarinn dæmdi ekkert. Víti hefði svo sem verið fjári harður dómur. Þriðja skiptingin kom svo eftir fimm mínútna leik þegar Margrét Selma kom inn fyrir Oddnýju.

Þessar þrjár skiptingar virtust hrista upp í leiknum og sóknarþungi Framara jókst. Það var þó nánast upp úr engu þegar Framstúlkur náðu að skora á 56. mínútu. Við fengum innkast sem var grýtt inn í teig, þar mistókst SR-vörninni að hreinsa og boltinn hrökk fyrir fætur Höllu Þórdísar sem afgreiddi hann fumlaust í markhornið niðri, óverjandi, 1:0.

Fjórða skiptingin kom skömmu síðar. Kristín Gyða fór af velli fyrir Ölmu Dögg. Á 65. mínútu var Halla Þórdís nærri því að tvöfalda forystuna eftir góða stungusendingu en skot hennar fór yfir úr ágætu færi. Sama gerðist skömmu síðar þegar Gianna þrumaði yfir markið.

Svo virtist sem Framliðið væri að taka öll völdin í sínar hendur, en lið SR reyndist þó sterkt á svellinu (ókey, ég skal hætta núna)… þegar stundarfjórðungur var til leiksloka mátti engu muna að Laugardalsliðionu tækist að jafna metin eftir örlítinn vandræðagang í Framvörninni kom lúmskt vippa sem stefndi upp í markhornið en Þóra var vel vakandi og sló boltann yfir.

Þetta óvænta færi hressti SR rækilega við og fengu þær 2-3 góð marktækifæri sem vörn og markvörður náðu þó að verjast. Á þessum tímapunkti var eins og botninn dytti dálítið úr leiknum. Halla Þórdís átti lúmskt skot í stöng þegar tíu mínútur voru eftir, en tveimur mínútum síðar þurfti nafna hennar að bjarga með góðri tæklingu hinu megin á vellinum. Enn virtist Halla Þórdís ætla að bæta á markareikninginn þegar tvær mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma þegar hún var að sleppa ein í gegn en línuvörðurinn flaggaði rangstöðu sem virtist hæpinn dómur. Í uppbótartíma var henni skipt út af fyrir Gyðu sem var fimmti og síðasti varamaðurinn. Vallarþulur tilkynnti um valið á manni leiksins. Það var Þóra markvörður, sem er vel að því komin þótt fréttaritarinn hefði sjálfur valið markaskorarann í þetta skiptið.

Fleiri urðu mörkin ekki og góður sigur var í höfn eftir óþarflega spennandi leik þar sem okkar konur hefðu fyrir löngu átt að vera búnar að drepa leikinn með öðru marki. Þetta er erfið deild, einkum í ljósi þess að leikin er einföld umferð og því tilviljunum háð hvaða lið eiga heimaleikjaréttinn gegn hvaða andstæðingum. Til að eiga möguleika á sæti í úrslitakeppninni verða því allir leikir á borð við þennan að vinnast. Næsta viðureign er að Hlíðarenda gegn KH, sem er ekki Kaupfélag Hnappadalssýslu heldur venslalið ránfuglsins. Það verður hörkuleikur!

Stefán Pálsson

Share this post

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!