fbpx
Albert gegn fjölni vefur

Gítarhetjan

Í síðustu viku var fótboltamót strákpjakka haldið á Akureyri sem kallaði á viðveru hins hefðbundna fréttaritara Framsíðunnar. Þegar kötturinn er úti bregða mýsnar á leik og skjaldsveinninn Valur Norðri ákvað að stökkva inn í valdatómið og skrifa sjálfur skýrslu um síðasta kappleik Sambamýrarstórveldisins. Þar var krítað liðugt og dregnar upp ljóslifandi myndir af náttklæðum eða frekar náttklæðaleysi þess er hér stýrir lyklaborði á ferðalögum erlendis. Mörgum þóttu grafískar lýsingarnar ganga of langt, en ekki fréttaritaranum. Hann er öruggari en svo um karlmennsku sína.

Í einni fótboltaferðanna sem hinn sauðtryggi Valur Norðri lýsti svo fjálglega, lá leiðin á viðureign Luton Town og Peterborough. Þótt Luton Town sé afbragð annarra knattspyrnuliða er heimaborgin sjálf hálfgerð rottuhola. Þess vegna var gist í nágrannabænum Bedford og knæpum staðarins gerð góð skil á hverju kvöldi. Á einum barnum var margt um manninn en einn heimamanna skar sig þó úr. Hálfgerður naggur en ofursvalur með klút á höfði. Honum fylgdi í hvert fótmál maður sem síðar reyndist vera umboðsmaður hins smávaxna Bedfordborgara.

Kjaftaglaðir Íslendingarnir undu sér upp að töffaranum og í ljós kom að hann var rokkstjarna. Nánar tiltekið aðalgítarleikarinn í bresku glysrokksveitinni Kórdrengjum sem gerðu allt vitlaust í Kaplakrika í fjarveru Poison um árið og hefðu orðið heimsfrægir ef fábjánarnir í Nirvana hefðu ekki fundið upp gruggið kortéri seinna og drepið glysið á einni nóttu. Guy Griffin ljómaði allur upp þegar hann hitti Íslendinga og gróf upp myndband í símanum sínum með fréttamyndum frá Kaplakrikatónleikunum. Umboðsmaðurinn sperrtist allur upp – eflaust séð möguleika á endurkomukonsert. Báðir fengu þeir kökk í hálsinn þegar þeir fréttu að á Íslandi væri starfrækt knattspyrnulið sem nefnt væri í höfuðið á sveitinni.

Það var enginn Guy Griffin í Sambamýri þegar flautað var til leiks Fram og Kórdrengja í kvöld. Það var heldur enginn fréttaritari. Hann var búinn að láta plata sig í viðtal um sögu bjórmenningar Íslendinga við breska B-klassa sjónvarpsstjörnu og miðað við stundvísi og vinnuhraða sjónvarpsfólks var tvísýnt að leikurinn næðist yfirhöfuð. En kraftaverkin gerast enn. Þegar vallarklukkan sýndi 27 mínútur mætti lafmóður fréttaritarinn á svæðið og fann fljótlega skjaldsveininn í mannmergðinni (hvaðan koma allir þessir Framarar eiginlega þegar vel gengur?)

Á þessum tímapunkti var staðan raunar orðin 1:1. Albert hafði komið okkur yfir eftir góða sendingu frá Fred en skömmu síðar höfðu gestirnir í Bjarnabófabúningunum jafnað metin. Mark er þó mark og fréttaritarinn dreypti á rándýrum einmöltungnum á meðan hann reyndi að glöggva sig á liðskipan. Hún var frekar einföld: Óli í marki, Kyle og Gunnar í miðvörðum, Alex og Halli bakverðir. Aron Þórður aftastur á miðjunni, Indriði þar fyrir framan, Fred og Tryggvi á köntunum, Albert frammi og Þórir þar fyrir framan. Allt eftir bókinni.

Fréttaritarinn var ekki fyrr sestur en fór að draga til tíðinda í leiknum. Kórdrengir vörðu á línu eftir hornspyrnu og beint í kjölfarið virtist boltinn í tvígang fara í hendur varnarmanna þeirra án þess að Arnar Þór dómari sæi ástæðu til að flauta. Ekki gafst þó mikill tími til að sýta þær vítaspyrnur því á 35. mínútu náðu Framarar foryskunni á ný. Aron Þórður geystist þá upp völlinn, sendi út á Alex Frey sem átti gullfallega stungu inn á Albert sem skoraði auðveldlega, 2:1.

Kórdrengir léku stíft. Jafnvel ruddalega á köflum og fljótlega upp úr markinu braut einn þeirra gróflega á Alex og mátti þakka fyrir að sleppa með gult spjald. Spennustigið var hátt í leiknum og átti bara eftir að fara vaxandi.

Lítið var að gerast í leiknum og áhorfendur farnir að búa sig undir kaffibrauðið í veislusalnum þegar vörn Fram sofnaði í andartak á verðinum, gerði fyrst heiðarlega tilraun til að gefa gestunum vítaspyrnu og leyfði þeim síðan að jafna í kjölfarið, 2:2 rétt fyrir hlé.

Kaffið og niðurskornu tebollurnar stóðu fyllilega undir væntingum í hléi. Þau framúrstefnulegu í hópi áhorfenda fóru í matvagn og átu hamborgara, sem voru vafalítið hnossgæti. Fréttaritarinn og skjaldsveinninn blönduðu þó ekki geði við neina úr fríðum flokki áhorfenda – voru of uppteknir við að leggja drög að næsta Luton-tvíæringi (sem er þrátt fyrir nafnið ekki árabátur heldur heitir svo af því að hann er haldinn á tveggja ára fresti).

Kórdrengir mættu ákveðnir til leiks í seinni hálfleik með leikaðferð sem gekk fullkomlega upp, þar sem öskufljótir kantmennirnir hlupu upp og niður völlinn og mötuðu tröllið í framlínunni á sendingum. Það skilaði árangri á 52. mínútu þegar gestirnir náði 2:3 forystu og Framvörnin leit illa út.

Sem fyrr segir var spennustigið afar hátt, einkum hjá liði Kórdrengja og þeir höfðu ekki fyrr náð forystunni en einn þeirra manna nældi sér í sitt annað gula spjald eftir klunnalegt brot á Gunnari á miðjum velli. Ellefu á móti tíu voru Framarar aftur komnir í bílstjórasætið í leiknum.

Það liðu ekki nema þrjár mínútur frá rauða spjaldinu þar til jöfnunarmarkið koma. Indriði Áki braust þá í gegnum vörnina af harðfylgi, sendi út á Alex sem kom aðvífandi og skoraði af öryggi.

Þegar klukkutími var liðinn af leiknum gerðu Jón og Aðalsteinn þrefalda skiptingu. Fred, Tryggvi og Þórir komu allir að velli – Fred nýstiginn upp úr meiðslum og Þórir kominn með gult spjald og í stöðugum átökum við Kórdrengi. Inná komu Guðmundur, Alexander og Guthrie.

Áfram héldu Framarar að sækja. Alex var sérstaklega ógnandi og átti í litlum vandræðum með að stinga af svifaseina Kórdrengi á sínum kanti. Á 67. Mmnútu lék hann upp að endamörkum og renndi fyrir þar sem Albert kom á ferðinni og fullkomnaði þrennuna. Frábær leikur hjá þeim félögum í dag.

Albert fékk heiðursskiptingu þegar tólf mínútur voru til leiksloka. Óskar kom inn á fyrir hann og komst í hörkugott færi undir blálokin en náði ekki nægilega góðu skoti eftir að hafa komist einn í gegn. Síðar fékk Alex hvíldina þegar Aron Kári kom inná. Lokamínúturnar urðu óþarflega spennandi þar sem Framarar drógu sig mjög langt til baka, en andstæðingarnir höfðu hvorki orku né þrek til að nýta sér það.

Mikill fögnuður braust út á pöllunum þegar flautað var til leiksloka. Geiramenn hljómuðu eins og Tom Waits á sjötta glasi, enda búnir að hafa sig alla við að hvetja liðið og gefa húsvíska lögmanninum í dómarabúningnum hlýlegar ábendingar um hvað betur mætti fara í störfum hans. Alex gerðist forsöngvari í Zigga zagga og í ljós kom að sá texti getur reynst lúmskt erfiður á dramatískum stundum.

Tíu umferðir búnar og við erum langbest. Fréttaritarinn getur játað það í þennan hóp að hann fer fimm sinnum á dag inn á Úrslit.net til þess eins að horfa á stöðuna í deildinni og finna kjánaglottið breiðast út um andlitið. Næsta stopp er uppí Mosó í slagnum um Korputorg.

Stefán Pálsson

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email