Í stjórnkerfi dönsku hirðarinnar á átjándu og nítjándu öld var að finna ýmsa óvenjulega en þó að sjálfsögðu hávirðulega titla. Ráðgjafar fengu ólík nöfn eftir stöðu í goggunarröðinni. Etatsráð og kansilíráð voru í lægri þrepunum en geheimeráð þótti einna fínast. Konferensráð var í miðjunni og veitti tign á við lága aðalsnafnbót en öfugt við slíka titla gengu þessar embættisnafnbætur ekki í arf. Tveir kunnir Íslendingar urðu konferensráð, þeir Magnús Stephensen og Jón Eiríksson. Sá síðarnefndi rataði bæði á frímerki og peningaseðil. Það gera engir dónar.
Konferensráð var einnig titilinn sem valinn var á fyrsta formann íslenska krikketsambandandsins þegar það var stofnað um síðustu aldamót. Ragnar Kristinsson konferensráð var raunar prímusmótor í innleiðingu krikketíþróttarinnar á Íslandi og lét þar ekkert stoppa sig, hvorki óblíðar veðuraðstæður, skort á búnaði og yfirgripsmikið þekkingar- og skilningsleysi allra þátttakenda í öllu því sem snýr að krikket. Í dag er krikketið blómleg og ört vaxandi íþrótt á Íslandi. Í fyrrasumar var Ragnar útnefndur lífstíðarheiðursforseti Krikketsambandsins og tók við þeirri viðurkenningu úr hendi forsætisráðherra, sem vera ber.
Það voru því mektarmenn sem lögðu í ökuferð á Snæfellsnesið í gær. Fleygberinn og skjaldsveinnin frá Kópaskeri, Valur Norðri, var enn einu sinni á ferðalagi með fjölskyldunni – og hlýtur nú að vera fullt tilefni fyrir fjármálaráðuneyrið að vinda ofan af orlofsrétti opinberra starfsmanna miðað við þessar óhóflegu fjarvistir. En það er engin þörf að kvarta. Konferensráðið, sem reyndar er Víkingur – af Reykjavíkurgerðinni en ekki Ólafsvíkur – var meira en til í að bregða sér í bíltúr í blíðunni. Reykjavíkur-Víkingar eru upp til hópa sómamenn, enda Fram og Víkingur systrafélög. Fréttaritarinn hefur aldrei hitt nokkurn Framara sem er illa við Víkinga og er okkur þó illa við ansi marga.
Leiðin lá sem sagt til Ólafsvíkur á frestaðan leik gegn botnliðinu. Á vesturleiðinni var keyrt í gegnum Grundarfjörð og stoppað í hamborgara á meðan byrjunarliðið var skoðað á KSÍ-vefnum: Ólafur í markinu, Hlynur og Kyle í miðvörðum, Alex og Haraldur bakverðir. Á miðjunni Aron Þórður, Indriði Áki og Albert. Fred á öðrum kantinum og Már nýr inn hinu meginn og Þórir fremstur. Jón og Aðalsteinn ætluðu greinilega ekki að taka neina sénsa þótt gnótt stiga skildi liðin að.
Eftir bongóblíðu dagsins var orðið örlítið svalara þegar komið var á völlinn, enda gestastúkan í skugga. Gráa peysan kom sér því vel innanundir appelsínugula vestinu sem er í sívaxandi mæli að verða táknmynd sigurgöngu Fram þetta sumarið í hugum þjóðarinnar. Ætli það hafi ekki verið svona fimmtíu Framarar mættir á svæðið. Heimamenn voru talsvert færri en ekki þó færri en svo að finna mætti amk einn fyrir Valtý Björn til að rífast við meðan á leiknum stóð. Einhverjar hefðir verða menn jú að virða!
Vallarstæðið í Ólafsvík er eitt það allra fallegasta á landinu og nýi gervigrasvöllurinn góður, en hafði ekki tekist að bleyta hann nægilega fyrir leik. Framarar mættu greinilega staðráðnir í að kafsigla heimamenn strax á upphafsmínútunum og á fyrstu tuttugu mínútunum virtist allt stefna í stórsigur.
Strax eftir tvær mínútur átti Indriði skalla úr fínu færi eftir undirbúning Þóris og í næstu sókn fékk Fred frjálst skot en skaut rétt yfir. Næstu mínúturnar fengu Framarar allnokkur færi eða hálffæri. Már var flaggaður rangstæður og Albert féll í teignum svo dæmi séu tekin. Ólsarar lágu mjög aftarlega en áttu í mestu vandræðum, þar sem auðvelt var fyrir okkar menn að sprengja sér leið upp kantana.
Með tímanum dró úr kraftinum í Framsókninni og Víkingar náðu að skipuleggja sig betur. Þeir treystu alfarið á skyndisóknir og í 2-3 skipti tókst þeim að skapa sér e-ð örlítið fram á við, en Óli og vörnin náðu þó alltaf að stoppa slíka tilburði. Af stórtíðindum fyrri hálfleiks má helst nefna að Kyle ákvað að velja þennan leik til að tapa eina skallaeinvígi sínu í sumar. Skynsamlegt að klára það á móti botnliðinu.
Síðasta stundarfjórðunginn datt leikurinn nokkuð niður. Hætta skapaðist í vítateig Víkinga í tvígang eftir aukaspyrnur en hinu meginn fengu heimamenn sitt besta færi á 36. mínútu með bylmingsskoti í hliðarnetið.
Í leikhléi hófst leit að kaffibolla, en Ólafsvíkingar eru löghlýðnir menn og virtu sóttvarnarreglur í hvívetna. Engin sjoppa eða kaffisala, sem kom svo sem ekki að sök. Fréttaritarinn og konferentsráðið eru miðaldra menn sem hafa ekki gott af kaffiþambi eftir kvöldmat.
Flautað var til seinni hálfleiks og áhorfendur voru enn að koma sér fyrir þegar boltinn lá í neti heimamanna. Már hafði skeiðað upp kantinn og sent fyrir markið þar sem Þórir kom aðvífandi og negldi í knöttinn sem virtist á leiðinni í netið þegar einhverjum varnarmanninum tókst að henda sér fyrir hann. Frákastið barst til Fred sem skoraði með fínu skoti, 0:1 og snögglega varð hlýrra og bjartara á Snæfellsnesinu.
Heimamenn voru slegnir út af laginu. Það hlýtur að draga allan mátt og sjálfstraust úr liðum að tapa hverjum leiknum á fætur öðrum. Varamannabekkurinn var furðurólegur og áhorfendur daufir í dálkinn, nema rétt þegar þeim tókst að rífast við Valtý. Albert fékk færi til að auka forystuna en missti naumlega af sendingunni eftir um fimm mínútna leik. Þegar tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleik dró svo aftur til tíðinda. Dómari leiksins virtist ætla að flauta á Framara, en ákvað að beita hagnaðarreglunni sem fór þó ekki betur en svo að Framarar unnu boltann og Már spændi í átt að marki, en var felldur við vítateigshornið. Dómarinn átti engan annan kost en að draga upp gula spjaldið (og hafði raunar aðvarað sama leikmann í fyrri hálfleik fyrir að mótmæla dómi með því að sparka boltanum í burtu).
Ekkert kom út úr aukaspyrnunni en þrjátíu sekúndum síðar ákvað sá brotlegi að fara hátt í tæklingu með takkana á undan og uppskar seinna gula spjaldið sitt. Upplifðu heimamenn þetta sem stórkostlegt réttarmorð, en vandséð er hvað dómarinn hefði átt að gera annað.
Manninum færri voru Víkingum allar bjargir bannaðar og Framarar fengu nokkur fín færi til að bæta við mörkum. Fyrstu skiptingarnar okkar megin litu dagsins ljós þegar um hálftími var eftir. Óskar og Gummi Magg komu inná fyrir Þóri og Aron Þórð. Eflaust hafa þjálfararnir viljað passa að missa ekki þann síðarnefnda í bann í næsta leik, þar sem Haraldur verður víst fjarri góðu gamni.
Mínútu síðar stakk Fred sér í gegnum Víkingsvörnina en reyndi að sækja vítaspyrnuna. Uppskar gult spjald og vorum við ferðafélaginn sammála um að það væri réttlátur dómur – ekki fyrir leikaraskap heldur fyrir að skjóta ekki á markið! Aftur hélt Fred áfram að leika sér að Víkingsvörninni en heimamenn vörðust hetjulega. Þeir komu þó engum vörnum við á 70. mínútu þegar Indriði braust upp miðjuna, sendi á Albert sem lagði boltann yst í teiginn þar sem Fred skaut fast og örugglega í markhornið, 0:2.
Darraðardans er eitt af skemmtilegri orðum íslenskrar tungu. Orðið er reyndar miklu yngra í málinu en flestir telja, kemur fyrst fram á tuttugustu öld. Guðrún Kvaran tengir uppruna þess þó við Dörruð í Katanesi sem nefndur er í Njálu. Darraðardans er líka besta lýsingin á stórskotahríð Framara að Víkingsmarkinu tveimur mínútum eftir seinna mark Freds, þar sem brasilíska undrið fékk prýðilegt færi til að fullkomna þrennuna og Guðmundur hefði sömuleiðis átt að skora en inn fór boltinn ekki.
Albert fór af velli fyrir Alexander og skömmu síðar leystu þeir Matthías og Danny Guthrie þá Fred og Alex af hólmi. Fulltrúi Vestfriðinga á vellinum fljótur að láta til sín taka og átti langt innkast á Má sem hljóp eins og hind og virtist sloppinn einn í gegn þegar tröllvaxinn Ólsari náði hetjutæklingu á síðustu stundu. Það kom fyrir lítið. Már tók hornspyrnuna beint á kollinn á fyrirliðanum Hlyn sem skallaði inn, 0:3.
Yfirburðir okkar voru miklir í leiknum eins og stigataflan gaf svo sem fyrirheit um. Tölfræðinirðir eru farnir að liggja yfir bókum til að reikna úr hvenær Framarar gætu tölfræðilega tryggt sér sætið í landi mjólkur og hunangs. Það mun þó ekki gerast í næstu umferð á Ísafirði, hver svo sem úrslit þar kunna að verða. Vestramenn eru í það minnsta í miklu stuði og vinna flesta eða alla leiki. Fréttaritarinn mun þó ekki aka Djúpið heldur taka þann leik á textavarpinu – en hver veit nema hnífsdælski trymbillinn Kristján mæti með skrifblokkina.
Stefán Pálsson