Lokaumferðir Íslandsmótsins geta verið skrítnar. Á haustin er allra veðra von og oft leikið við hinar verstu aðstæður. Örlög flestra liða eru í meginatriðum ráðin og hugurinn kannski frekar farinn að hvarfla að átökum næsta keppnistímabils, þjálfara- og félagaskiptaslúðri. Lítt kunnug andlit dúkka upp á bekknum og fá jafnvel að spreyta sig. Og fastagestir af áhorfendapöllunum láta sig hverfa, taka jafnvel útsendingar frá enska boltanum framyfir – sem er alveg glatað.
Lokaleikir þegar lítið er í húfi reynast sjaldnast minnisstæðir. Viðureign dagsins gegn Kórdrengjum er þar fágæt undantekning.
Það var sól og blíða í Hlíðunum þegar fréttaritarinn og Hnífsdælingurinn Kristján Freyr lögðu af stað upp í efri byggðir. Þeir eru eldri en tvævetur og vissu því að veðrakerfið í Hóla- og Fellahverfi lýtur oft öðrum lögmálum en í veðurparadísinni. Hlý peysa innan undir gula vestið góða var því með í för. Kristján sá líka fram á að tromma sér til hita, sem ber vott um mikla ósérhlífni í ljósi þess að í gær var matarboð þar sem rauðvínsbelju var fórnað. Það var nóg pláss í bílnum fyrir trommusettið. Óskar með hattinn og Valur Norðri með fleyginn voru hvorugur mættir og fá mínus í kladdann.
Framarar voru orðnir Lengjudeildarmeistarar fyrir leikinn og höfðu í raun ekki að neinu öðru en stigametum að keppa. Það var því skiljanlegt að Jón og Aðalsteinn hafi ákveðið að hræra til í uppstillingunni og gefa mönnum tækifæri sem lítið hafa spilað. Besti sonur Hveragerðis, Stefán Þór, stóð í markinu í sínum fyrsta deildarleik í sumar. Fyrir framan hann voru Kyle og Hlynur en Halli og Jökull í sitthvorri bakvarðarstöðunni. Danny Guthrie aftastur á miðjunni með Óskari og Albert þar fyrir framan. Alexander og Tryggvi á köntunum og Þórir fremstur. Ólafur Íshólm, Fred og Alex voru allir á bekknum. Aron Þórður og Indriði Áki utan hóps vegna leikbanna.
Það var fámennt á vellinum þrátt fyrir blankalogn. Líklega hafa Framarar verið um 60-70 talsins en vart nema 10-15 manns fylgt heimaliðinu. Eflaust hafa þó miklu fleiri lagt af stað í hina endalausu þrautagöngu af bílastæðinu við Breiðholtslaugina og að miðasöluhliðinu sem var langleiðina í Seljahverfi. Vallarstúkan er lág og þétt við völlinn, svo sjónarhorn áhorfenda er mjög óvenjulegt.
Framarar voru sterkari aðilinn í byrjun, þótt varla sé hægt að tala um að liðin hafi farið úr öðrum gír. Eftir tíu mínútna leik átti Óskar, sem var mjög frískur og góður í dag, frábæra stungu á Albert sem skaut í slá. Heimamenn svöruðu þó í sömu mynt nokkrum mínútum síðar þegar Stefán í Frammarkinu blakaði boltanum í markslánna eftir skalla upp úr hornspyrnu.
Kórdrengir léku stíft og komust upp með það. Albert fékk sérstaklega að kenna á misklunnalegum brotunum. Lítið dró til tíðinda fyrsta tæpa hálftímann. Framarar héldu boltanum að mestu en sköpuðu litla hættu ef frá er talinn góður skalli Alexanders rétt framhjá.
Heimamenn náðu forystunni á 29. mínútu upp úr engu. Sending utan af kanti rataði í gegnum teiginn án þess að varnarmenn Fram næðu að hreinsa, hrökk til eins Kórdrengsins sem skoraði auðveldlega, 1:0. Markið fipaði okkar menn greinilega og litlu mátti muna að rauðklæddir tvöfölduðu forystuna beint í kjölfarið.
En strax í næstu sókn tókst Frömurum að jafna metin. Óskar átti ágætt skot að marki sem bjargað var í horn. Markvörður Kórdrengja reyndi að slá hornspyrnuna frá en kom boltanum beint á Kyle sem var fljótur að hugsa og skaut í netið, 1:1.
Fáein þokkaleg marktækifæri litu dagsins ljós það sem eftir var að hálfleiknum. Stefán varði vel í Frammarkinu en hinu megin fékk Tryggvi boltann í dauðafæri en náði ekki að leggja hann fyrir sig og ná almennilegu skoti. Sama gerðist í blálokin þar sem Danny var aðeins of seinn að bregðast við prýðileri sendingu Tryggva eftir undirbúnin Alberts.
Um leið og flautað var til leikhlés spruttu áhorfendur á fætur og tóku strikið á veitingasöluskúrinn, spenntir að vita hvort unnt væri að nota ferðagjöf stjórnvalda þar. Sú var ekki raunin, en að öllu öðru leyti reyndist þetta frábær sjoppa. Á boðstólum var skúffukaka (tvær sortir) og flatbrauð með ólíkum áleggstegundum: kæfu, osti og hangikjöti. Fréttaritarinn nældi sér í eina hangikjötsflatköku á meðan Kristján Freyr, sem er í ábatasamri bókaútgáfu, ákvað að splæsa í bæði ost og hangikjöt. Þar sem hann er líka fræg poppstjarna fékk hann forláta pappadisk með á meðan dónarnir máttu láta sér nægja eldhúsbréf. Kaffið var fínt, svo samanlagt var þetta besta hálfleikskaffiupplifun sumarsins. Ef Kórdrengir missa áhugann á því að halda úti fótboltaliði gætu þeir alltaf snúið sér að veitingaþjónustu fyrir fermingar og erfidrykkjur.
Eftir hlé fjölgaði áhorfendum lítillega eftir því sem fleiri komust á leiðarenda eftir kraftgönguna frá bílaplaninu. Tveir af þremur Guðjónssonum og Addi í bankanum voru þar á meðal. Fram gerði eina breytingu í hléi. Ókunnuglegur ljóshærður maður kom inná fyrir Albert, sem leiddi til þess að Kórdrengir þurftu að finna sér einhvern nýjan til að sparka sundur og saman. Nákvæm rannsóknarvinna leiddi í ljós að nýi gaurinn væri Gummi Magg með nýju hárgreiðsluna sína sem minnir mjög á Jonny Lee Miller í Trainspotting. („All I’m trying to do is help you understand that The Name of the Rose is merely a blip on an otherwise uninterrupted downward trajectory…“)
Illu heilli mættu heimamenn mun ákveðnari til leiks en Framarar. Þeir byrjuðu með látum og eftir örfáar mínútur fengu þeir þrjú færi í sömu sókninni, þar sem Stefán varði fyrst vel, því næst var skotið í slá og loks náði Jökull á síðustu stundu að fleygja sér fyrir bylmingsskot. Fyrstu tíu mínúturnar af seinni hálfleik voru hálfgerð einstefna en eftir það tóku okkar menn aðeins að ranka við sér á ný og leikurinn tók að jafnast.
Danny Guthrie var nærri því að opna markareikning sinn eftir klukkutíma leik úr aukaspyrnu á vítateigslínu eftir að Alexander var togaður niður. Hinu megin þurfti Kyle að grípa til sirkusvörslu, en hann var afar öflugur í leiknum að vanda.
Þegar tuttugu mínútur voru eftir gerðu Framarar tvöfalda breytingu. Jökull og Óskar fóru af velli fyrir þá Gunnar og Mikael Trausta, strák fæddan 2005 sem fór þegar í bakvarðarstöðuna. Hann tæklaði eins og togarajaxl frá fyrstu mínútu og uppskar lof áhorfenda sem vita fátt skemmtilegra en að sjá unglinga lúskra á fullorðnum mönnum.
Framarar virtust ívið líklegri til að skora á þessum tíma og því var það ansi mikið kjaftshögg þegar heimamenn náðu forystunni á ný þegar stundarfjórðungur var til leiksloka. Nafni fréttaritarans, sem staðið hafði sig með sóma í markinu, missti þá boltann frekar klaufalega frá sér eftir hornspyrnu, reyndi að endurheimta hann en braut þá af sér og vítaspyrna var dæmd. Úr henni var skorað af miklu öryggi, stöngin inn og útlitið orðið nokkuð dökkt.
Á 82. mínútu átti Tryggvi, sem var afar líflegur í dag, fína sendingu á Gumma sem skaut rétt framhjá. Kórdrengir drógu sig sífellt aftar og Framarar freistuðu þess að brjóta upp leikinn með óvæntum útspilum á borð við að færa Kyle nánast í framherjastöðuna undir lokin.
Tryggvi átti tvö markskot, á 86. og 88. mínútu, en hvorugt var sérlega hættulegt. Enn leið tíminn. Framarar sóttu og sóttu en Kórdrengir voru þéttir fyrir. Á 94. mínútu kom sending utan af kanti (sennilega frá Tryggva) sem Gummi náði að skalla frábærlega yfir markvörð Kórdrengja. Fréttaritarinn tapaði því litla kúli sem hann þó átti eftir með því að fagna glæsilegu marki, en boltinn reyndist syngja í slánni og fór þaðan útaf. Síðasta tækifærið virtist farið forgörðum…
…og þó. Á 96. mínútu virtist boltinn fara af Framara og aftur fyrir endamörk, en við fengum engu að síður hornspyrnu. Sú ákvörðun særði réttlætiskennd Davíðs þjálfara Kórdrengja svo mjög að hann náði að láta reka sig útaf. (Höskuldarviðvörun: hann fór ekki útaf.) Hornspyrnan var tekin og eftir þvögu í teignum kom Gummi Magg boltanum í netið. Allt varð vitlaust á pöllunum. Téður Davíð hljóp inn á völlinn og lét reka sig útaf öðru sinni. Þetta var síðasta snerting leiksins og eftir að flautað var til leiksloka hélt hamagangurinn áfram þar sem hluti Kórdrengja virtist búa sig undir aðsúg að dómurunum á meðan aðrir héldu aftur af þeim. Fáa öryggisverði var að sjá, enda slíkir starfsmenn leiksins flestir barnungir. Ekki umgjörð sem maður vill sjá í næstefstu deild.
Það er ekkert skemmtilegra en að skora flautumörk. Og ekki spillir fyrir þegar maður setur met í leiðinni. 55 stig eftir 21. umferð er met í þessari deild. Raunar mun það bara hafa gerst einu sinni í sögu þriggja efstu deildanna á Íslandsmótinu að lið hafi fengið fleiri stig í 12 liða deild. Það var Víkingur Ólafsvík í deildinni fyrir neðan okkur, 58 stig. Við getum jafnað það í lokaleiknum og þá jafnframt náð þeim einstaka árangri að fara taplaust í gegnum Íslandsmót. Það er engin afsökun fyrir því að sitja heima næsta laugardag þegar við tökum á móti Aftureldingu. Og ef þið ætlið að skrópa til þess eins að horfa á einhvern portúgalskan montrass í sjónvarpinu megið þið eiga mig á fæti.
Stefán Pálsson