Sóknarmaðurinn Alexander Már Þorláksson hefur framlengt samning sinn við Fram og gildir nýr samningur út keppnistímabilið 2023.
Hinn 26 ára gamli Alexander Már gekk til liðs við Fram á nýjan leik haustið 2019 og hefur síðan þá leikið 46 leiki fyrir félagið og skorað 18 mörk. Hann lék stórt hlutverk í hinu frábæra Framliði sem fór taplaust í gegnum Lengjudeildina í sumar og náði hann meðal annars því ótrúlega afreki að skora fjögur mörk í einum og saman leiknum.
Alexander lék áður með Fram leiktíðina 2014 og hluta leiktíðarinnar 2015. Í heildina hefur þessi öflugi leikmaður leikið 82 leiki fyrir Fram og skorað í þeim 27 mörk.
Knattspyrnudeild Fram væntir mikils af Alexander Má á komandi árum og það verður spennandi að fylgjast með honum hrella varnir og markverði andstæðinganna í Pepsi-Max deildinni á næstu leiktíð.