Ég skal alveg játa það á mig strax að ég hef alltaf haft einhvern veikan blett fyrir Hafnarfirði. Ég held að það sé landsbyggðarplebbinn í mér sem talar, bæjarbragurinn þarna heillar, allt hraunið, gömlu húsin, nálægð við sjóinn, systur mínar búa þarna og svo finnst mér vitinn fallegur. Ég er líka aðdáandi margra hljómsveita sem koma frá Hafnarfirði, Botnleðja, Stolía, Jet Black Joe, Woofer, PPPönk, Súrefni og Jakobínarína. En þetta allt merkir svo sem ekki að allt sé svona fallegt, slétt og fellt úr firðinum. Ég er t.d. enginn sérstakur aðdáandi álversins í Straumsvík, gímaldið sem geymir miðbæ Hafnarfjarðar er líka æði furðulegt, að hugsa um öll þúsund hringtorgin á Ásvöllum gerir mig mjög sjóveikan og svo er það hinn svarthvíti Kaplakriki sem er nú langt í frá fallegur á að líta.
Við ferðafélagi minn, hann Óskar sem er eini maðurinn sem ég þekki sem skartar Fram-húðflúri við púls annarar handar, vorum spenntir fyrir leik kvöldsins þrátt fyrir að hafa fylgst með okkar mönnum tapa gegn liði KR nokkrum dögum fyrr. Við vissum nefnilega sem svo að margt býr í liði Fram og það er eðlilegt að það taki smá tíma að hrista hrollinn úr liðinu. Persónulega held ég til dæmis að ég verði sjálfur ekki búinn að hrista af mér aulahrollinn við nafnið „besta deildin“ fyrr en í 13. umferð mótsins en það er önnur saga. Rétt eins og við Óskar, sem og annað stuðningsfólk Fram, vissu leikmennirnir sem mættu á völlinn að þeir ætti heilmikið inni frá síðasta leik og það átti eftir að koma í ljós. Við vorum komnir rétt í þann mund sem flautað var til leiks og okkur þótti vel mætt í Fram-stúkuna og stuðningsfólki skal hér hrósað fyrir góðan stuðning og stemningu!
Þjálfarateymið gerði þrjár breytingar frá síðasta byrjunarliði; þeir Alexander Már, Tryggvi Snær og fyrirliðinn Hlynur Atli komu inn og auk þeirra hófu leika þeir Óli Íshólm, Albert, Delphin, Gunni Gunn, Fred, Alex Freyr, Mási og Gummi Magg. Liðin byrjuðu að fóta sig varlega en þó mátti sjá fljótlega að bæði lið ætluðu að sýna tennurnar. Við Framarar könnuðumst óþægilega við 1-2 kauða í svarthvítu búningunum, skoski Framarinn sem ber sama föðurnafn og einn Bítlanna og svo rauðbirkinn ungur bakvörður sem ég man ekki hvað heitir. Þessi búningur fer þeim auðvitað illa og þeim rauðhærða leið ekki alveg nægilega vel, hann var nefnilega mjög oft rangstæður þrátt fyrir afar vinsamlegar ábendingar stuðningsmanna Fram. FH-ingar lágu þungir á vörn okkar manna á fyrsta kortéri og þvert á gang skoruðu okkar menn fyrsta mark leiksins. Það gerði hann Albert á 20. mínútu, en hann átti frábæran leik í dag. Því miður varði forystan ekki lengi því hinn ísfirski framherji FH náði að slefa boltanum inn tveimur mínútum síðar. Hann lak úr hönskum Óla Íshólm, eins og laxaseiði úr kvíargati. Okkar menn voru þó ekki lengi að þurrka þetta mótlæti af sér og komust aftur yfir á 26. mínútu með marki Alexanders. FH 1 – 2 Fram í hálfleik og góður andi í stuðningsfólki í leikhléi. Öfugt við markapela Stefáns og Vals Norðra þá jöpluðum við Óskar á Fisherman´s Friend með anísbragði.
Þó ég muni ekki brydda upp á þeirri klisju að kenna dómgæslunni um hvernig þessi leikur endaði þá fannst mér halla heldur á þá bláu. Á meðan okkar menn voru komnir með tvö gul spjöld fyrir lítilræði þá var lítið búið að flauta á þá svarthvítu. Reyndar vaknaði upp grunur þegar ég áttaði mig á að dómarinn var í alveg eins stuttbuxum og FH-ingar. Vantaði bara hvíta treyjuna. Fyrrnefndur ísfirskur FH-ingur sem ég man ekkert hvað heitir (en er þó frændi minn) var ýmist í því að hnoða menn niður ef hann lá þá ekki sjálfur á grúfu í grasinu. Það vantar greinilega allan vestfirskan hnoðmör í drenginn eftirsænska velferð og allt svifrykið. Það var þó ekki langt um liðið á seinni hálfleik þegar FH fékk fyrsta spjald. Þá höfðu menn fengið nóg af því að fylgjast með Má okkar Ægissyni sem átti frábæran leik í bakvarðastöðu. Það verður ýlfrandi gaman að fylgjast með Mása í sumar. Sami FH-ingur átti eftir að verða tekinn í bakaríið af Mása síðar í leiknum sem uppskar þá rautt spjald fyrir vikið.
Á 68. mínútu var gerð tvöföld skipting og inn komu þeir Jannik Holmsgaard og Hosine Bility í stað Alexanders og Hlyns. FH-ingar bættu verulega í sóknarþunga og reyndu hvað þeir gátu að jafna leika. Það gerðist svo á 78. mínútu. Það var einmitt um þetta leyti sem nokkrir litlir FH-stuðningsmenn voguðu sér að mæta yfir í Fram-stúkuna með tilbúinn derring. Þegar þeim var tjáð að þeir væri röngu megin sagði eitt litla gerpið sessunaut mínum einmitt að hoppa upp í óæðri endann á sér. Stórefnileg þessi svarthvíta æska FH-mafíunnar. Ég veit ekki hvort þessi stutti stuðningsmaður FH eða snyrtilegi, barbourjakkaklæddi KR-ingurinn í síðasta leik sem bað mig um að spila samba á trommurnar – sé í meira uppáhaldi. Kannski að KR-ingurinn hafi vinninginn, hann var jú með svo dýr krem í andlitinu og ólífuolíu í hárinu. Extra virgin.
Heimamenn efldust við jöfnunarmarkið og úr varð að þeir náðu að bæta við tveimur mörkum á síðustu mínútum, má segja að þau hafi komið upp úr þeirri hetjulegu baráttu okkar manna sem færðu sig framar á völlinn til að koma að sigurmarki. Úr varð tap gegn sterku liði FH á þeirra heimavelli en Framarar börðust allt til enda og voru síst lakara liðið í rúmar 80 mínútur þessa leiks. Það er ansi margt sem maður tekur jákvætt út úr þessum leik og bersýnilega mátti sjá mikla bætingu frá KR-leiknum í síðustu viku. Albert átti sannarlega skilið að hlaupa af sér hornin í kvöld eftir síðasta leik, Már var sömuleiðis frábær, Tryggvi, Gummi, Alex og Fred voru kappsamir, gaman að sjá Tóta koma inn og mögulega eigum við svo inni viðbætur á vörninni. Ég væri líka þakklátur að fá að sjá Aron Þórð klæðast treyjunni sem fyrst aftur.
Þetta er nefnilega allt að koma og það styttist óðum í okkar fyrsta sigur í sumar. Ég hlakka til næsta leiks því þetta var skref fram á við. Og talandi um bætingu, þá fannst mér góður andi yfir stuðningsfólki Fram og ef við sýnum áfram samhug og einbeitum okkur við að styðja við liðið í sætu sem súru, þá munum við uppskera enn meiri uppgang inn á vellinum. Það er ég viss um. Og ég get meira að segja lofað bætingu í næsta pistli, því þá mun sem betur fer mér reyndari og betri penni eiga allt blekið.
– Kristján Freyr
Share this post
Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email