fbpx
52079326365_104085caf1_c

Með höfuðið hátt

Það er lífseig goðsögn að endurreisnarmálarinn Michelangelo hafi hannað hina víðfrægu búninga einkalífvarðar páfans í Róm. Hið rétta mun vera að Jules Repond, svissneskur yfirmaður í varðliðinu, hafi útbúið þá á öðrum áratug tuttugustu aldar. Innblásturinn var vissulega fenginn úr gömlum listaverkum, en þeim ekki eftir Michelangelo heldur kollega hans Rafael.

Búningur varðliðsins er afgerandi í útliti: appelsínugulur og fjólublár. Það er glæsileg litapalletta og raunar sú sama og fréttaritari Framsíðunnar var íklæddur þegar hann yfirgaf heimili sitt í Hlíðunum til að aka í Kópavoginn. Fjólublár stuttermabolur með mynd af ítölsku myndasögupersónunni Línunni og appelsínugulavestið þjóðfræga. – „Ætlarðu að fara út úr húsi klæddur svona eins og trúður?“, spurði eiginkonan í forundran. Þetta er ágæt kona en veit nákvæmlega ekkert um endurreisnarlistamenn og kaþólska kirkjusögu.

Það var bongóblíða þegar fréttaritarinn sótti skjaldsveininn Val Norðra í Fossvoginn. Skjaldsveinninn var svo uppnæmur vegna ferðalagsins að hann steingleymdi veskinu og þurfti að sníkja sig bæði inn á völlinn og á barnum í hléi. Ljótt, ljótt sagði fuglinn.

Leikurinn var nýhafinn þegar tveir vinir og annar með veski hlömmuðu sér niður í stúkunni. Uppstillingin kom nokkuð á óvart og virtist við fyrstu sýn vera grjóthart 4-4-2. Óli í markinu með Hlyn og Delphin í miðvörðum og Má og Alex sem bakverði. Indriði Áki aftastur á miðjunni, Albert fyrir framan hann, Tiago og Fred hvor á sínum kanti og Jannik og Gummi Magg frammi. Áhugavert. Mögulega örlítið fífldjarft, en áhugavert.

„Blikarnir ætla örugglega að vinna þennan leik 8:0“, hafði fréttaritarinn í spáð í þessu hefðbundna þunglyndi sem einatt sækir á Íslendinga snemma á sumrin þegar veðrið er gott tvo daga í röð og allir vita að okkur á eftir að hefnast fyrir hrokann. Svo virtist sem þetta ætlaði að verða að áhrínisorðum þegar heimamenn byrjuðu með látum og sköpuðu okkur alls konar vandræði. Eftir nokkrar sóknarlotur Blika á upphafsmínútunum missti Framvörnin boltann á hættulegum stað þegar á sjöundu mínútu og var refsað með marki, 1:0. Tveimur mínútum síðar tvöfölduðu leikmenn UBK forystuna þegar víti var dæmt á Má eftir frekar litla snertinug, 2:0 og risið lágt á Frömurum í stúkunni.

Á þessum tímapunkti var fréttaritarinn kominn á fullt í kollinum við að reyna að draga fram jákvæð atriði varðandi leikinn til að troða inn í skýrsluna. Það helsta sem kom upp úr þeirri leit var að hrósa KSÍ fyrir að taka vitundavakningarátak sitt um litblindu í íþróttum alvarlega með því að láta Framara leika í hvítum treyjum en ekki bláum á móti grænum Blikum. Það er allt reynt!

Til að fullkomna ógæfu Framliðsins settist Albert á völlinn eftir um tíu mínútur og virtist meiddur. Á tuttugustu mínútu var fullreynt með áframhaldandi þátttöku hans og Tryggvi kom inná í staðinn. Við þá breytingu færði Tiago sig inn á miðjuna og Jannik datt aðeins aftar á völlinn. Við það þéttist miðjan snarlega og leikur okkar manna tók að braggast.

Eftir 25 mínútna leik komust Framarar í fágæta sókn. Tiago virtist vera að koma sér í færi en ákvað að sætta sig við hornspyrnu. Það gaf góðan árangur því úr horninu sem okkar allra besti maður frá Portúgal tók sjálfur stökk Gummi Magg manna hæst og stangaði af krafti í markhornið. Óverjandi og staðan orðin 2:1.

Innblásinn af stoðsendingunni hélt Tiago áfram að djöflast eins og árið værið 2018 og hann aðalspaðinn í Inkasso. Fljótlega eftir markið átti hann fína stungu á Jannik, sem náði ekki til knattarins. Þessi óvænta vítamínssprauta virtist þó ætla að fara fyrir lítið þegar Alex rakst utan í einn blikann í vítateig okkar manna. Grænklæddur sem verður vitaskuld ekki nafngreindur hér bjó sig undir að fullkomna þrennuna en lyppaðist niður gagnvart nístandi augnaráði Óla markvarðar í ljótu HK-peysunni sinni og spyrnan fór himinhátt yfir.

Rétt mínútu eftir seinna vítið komu Framarar sér enn og aftur í stórvandræði í teignum og máttu þakka fyrir að munurinn ykist ekki enn. Lítið meira bar til tíðinda fyrir hlé fyrr en á lokamínútunni þegar Fred átti stórkostlega sendingu á Jannik sem lagði boltann fyrir markið þar sem Gummi kom aðvífandi í dauðafæri en skaut framhjá. Frábær sókn og sú besta fyrir hlé.

Það voru örlítið ringlaðir Framarar sem vöppuðu niður í veitingasölu Blika. Hvenær breyttist kúltúrinn í efstu deild svona varðandi það að dæla bjór og skenkja vín fyrir opnum tjöldum? Síðast þegar við vorum hérna uppi var pukrast með þetta í hliðarsölum og veitingar á fótböltavöllum voru staðið kaffi og harðar tebollur!

Blikinn og Lutonmaðurinn Gylfi Steinn – sonur GSP sem gerði Ólaf Ragnar að forseta og bjó til slagorðið „Mjólk er góð“ – heilsaði við innganginn. Hann var ekki í mjólkinni. Ásgeir Friðgeirsson sem var einu sinni Kópavogskrati og Hákon Gunnarsson sem er ennþá Kópavogskrati komu líka og spjölluðu. Allir voru frekar undrandi á þessari óvæntu mótspyrnu Framara í leiknum og að þetta skyldi í raun ennþá vera leikur í hléi!

Hvernig yrði seinni hálfleikurinn? Hlytu heimamenn ekki ná vopnum sínum og skora 1-2 mörk fljótlega? Njah… það var reyndar ekki að sjá. Fred átti fínt skot yfir á upphafsmínútunum og þótt Blikar næðu sínum sóknum virtust þeir furðulega bitlitlir og vita ekki alveg hvering bregðast skyldi við mótspyrnunni. Á 55. mínútu var fáránlega augljósu víti sleppt þegar Jannik var keyrður niður í teignum. Ekki gafst þó langur tími til að æsa sig yfir réttarmorðinu því tveimur mínútum síðar fékk Fram aukaspyrnu til hliðar við vítateginn hægra meginn. Eiturskörp augu fréttaritarans og skjaldsveinsins námu þegar að Blikamarkvörðurinn var hálfblindaður af sól og átti bágt með að sjá hvað væri að fara að gerast. Fred var vel með á nótunum og tók fasta spyrnu nærri markinu sem virtist skjótast framfyrir alla og þaðan beint í markið án þess að nokkur fengi hana snert, 2:2.

Nú tók við mikill darraðardans. Tveimur mínútum eftir jöfnunarmarkið komust Blikar yfir á ný. Billeg aukaspyrna rétt fyrir utan vítateig rataði beint á kollinn á óvölduðum Kópavogsbúa, staðan orðin 3:2 og börnin í sætaröðinni fyrir framan lærðu nokkur ný og hraustleg blótsyrði.

En fjörið var rétt að byrja! Strax í næstu sókn átti Fred frábæra sendingu á Jannik sem sendi fyrir á Tiago sem allt í einu var kominn í fremstu víglínu og skoraði af stuttu færi, 3:3 og sú litla rödd sem fréttaritarinn átti eftir snögglega rokin út í veður í vind. Það var eitthvað skrítið að gerast og allt í einu virtist allt Framliðið búið að blása til sóknar. Delphin skallaði naumlega framhjá en hafði raunar verið veifaður rangstæður, sem virtist hæpið. Skömmu síðar var Gummi keyrður niður án þess að neitt væri dæmt, en fáeinum sekúndum síðar uppskar hann sjálfur gult spjald fyrir mótmæli. Blikar virtust slegnir en Framarar staðráðnir í að sækja fjórða markið.

Aftur virtist brotið á Jannik á 73. mínútu, þar sem honum var hrint á vítateigslínu. Í kjölfarið kom hörð sókn Framara þar sem Blikamarkvörðurinn varði í tvígang vel. Vítaspyrnukvótinn hafði greinilega verið kláraður fyrir kvöldið og þess í stað lét dómarinn nægja að spjalda Aðalstein af bekknum fyrir kjaftbrúk.

Á 78. mínútu fór Tiago af velli eftir hetjulega baráttu en Alexander kom inná í staðinn. Tiago klárlega maður leiksins og góðar fréttir að hann sé að komast í fyrra form. Rétt áður hafði boltinn legið í Frammarkinu en línuvörðurinn var löngu búinn að veifa rangstöðu.

Blikar verða Íslandsmeistarar í haust í nema eitthvað mikið klikki og meistaraheppnin var klárlega með þeim í liði þegar þrjár mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma. Blikar refsuðu fyrir augnabliks einbeitingarleysi í Framvörninni, nálega upp úr engu, 4:3. Ekki tóks okkar mönnum að gera neinar alvarlegar atlögur að því að jafna á ný það sem eftir leið leiks. Jannik og Fred hlupu saman í efnilegri sókn og því næst fór framherjaparið af velli fyrir þá Magga og Aron Snær. Sá síðarnefndi kom sér í eitt hálffæri, en lengra dugði tankurinn ekki. 4:3 tap í leik sem við verðskulduðum svo sannarlega meira úr. Fá lið munu hins vegar fara í Kópavoginn og skora þrívegis. Við megum vera rígmontin af okkar liði og nú er bara að klára fyrsta skrefið í átt að óumflýjanlegum bikarmeistaratitli í næsta leik.

Stefán Pálsson

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!