fbpx
jannik vefur

Bongó

Besta dægurlag sem samið um menn sem bera nafnið Stefán er vafalítið „Þegar Stebbi fór á sjóinn“. Ljóslifandi myndin af spjátrungslegum landkrabbanum sem stendur út við lunningu á svörtum lakkskónum, ómeðvitaður um yfirvofandi veruleikabindingu með sjóveiki og uppsölum er sterk. Tíu ára gamli Stefán hataði þetta lag og þessa grenjandi Línu sitjandi á bryggjupollanum.

Næstbesta lagið um Stefána er hins vegar „Stefán“ með hljómsveitinni Risaeðlunni. Dóra Wonder fór hamförum á fiðlunni á meðan hvein í Möggu Stínu: „Steeeef-án! Steeeeef-án!“ Undir öllu dundi þéttur taktur Ívars Bongó. Það vita það ekki allir, en Ívar Bongó er einmitt ástæða þess að einstakt blíðveður á Íslandi er kallað bongó. Í dag var bongó.

Hvílíkur dagur til að kveðja Safamýrina! Við Framarar höfum í gegnum árin sýnt ótrúlega færni og hæfileika í að vera í nöp við alla, en engir eru jafnmiklir eftirlætisfjandmenn okkar og Valsarar – liðið sem deildi um langt árabil með okkur yfirráðunum í Austurbænum, þar sem ekkert skildi á milli nema portið yfir í bakgarðana milli Njálsgötu og Bergþórugötu. Norðan þess voru Framarar en fyrir sunnan Valsmenn.

Fréttaritarinn mætti snemma í musteri knattspyrnunnar og boltaíþrótta sem leiknar eru með harpixi. Þar hafði verið lofað fyrirpartýi Geiramanna, sem reyndist þó afar dannað og fólst helst í því að gúffa í sig hamborgara og einum gullbauk úti á plani í brakandi sólinni. Trymbillinn frá Hnífsdal var mættur en skjaldsveinninn sauðtryggi hvergi sjáanlegur. Ástæðan? Jú, leikurinn hafði upphaflega verið settur niður að kvöldlagi (en fluttur til vegna handboltaleiksins) og því hafði okkar maður álpast til að taka að sér vaktina á hamborgaragrilli Víkinga í einhverju fjáröflunargiggi fyrir unglingaflokk stúlkna – en skjaldsveinninn þarf líkt og fréttaritarinn að þola að horfa á sitt eigið hold og blóð sparka í bolta undir merkjum annarra liða. TURK-182.

Geiramenn smjöttuðu á borgurunum og voru brattir. Árið 1968 fór B-lið KR alla leið í úrslitaleik bikarkeppni KSÍ. Í ár stefna Nonni og Aðalsteinn augljóslega á að gera einum betur og verða bikarmeistarar á B-liðinu. Gott plan. Vonandi fáum við eitthvað skemmtilegt ródtripp í næstu umferð: Þorlákshöfn, Selfoss, Dalvík eða Mosfellsbæ. Ef veðrið helst svona gott grípur maður kannski með tjald og gerir ferðalag úr þessu með famelíunni.

Þegar klukkan var orðin rúmlega þrjú ákvað fréttaritarinn að nægum tíma hefði verið varið með almúganum og færði sig þess í stað í fínumannaboðið í veislusalnum (það þurfti jú að kveðja hann líka). Eitthvað samskiptaleysi hafði þó orðið til þess að Nonni mætti og tilkynnti byrjunarliðið áður en nokkur maður var mættur – enn og aftur undrar fréttaritarinn sig á því að þjálfarinn hafi þetta verkefni með höndum en ekki Aðalsteinn aðstoðarþjálfari og kjaftaskúmur.

Út frá vefmiðlum og KSÍ-vef var þó hægt að púsla saman byrjunarliði. Óli í markinu. Delphin og Þórir í miðvörðum, Hlynur og Jesús í bakvörðum. Tiago og Indriði Áki aftarlega á miðjunni með Albert fyrir framan sig. Fred og Jannik hvor á sínum kanti og Gummi Magg frammi. Ekki kannski fljótasta byrjunarlið sem Fram getur stillt upp, en leikbönn og meiðsli tóku klárlega sinn toll.

Fréttaritarinn gekk inn á völlinn rétt áður en flautað var leiks. Hann tók sér sæti á hefðbundnum slóðum, við hliðina á mömmu Þóris Guðjónssonar, sem má heita föst aukapersóna í þessum pistlum. Okkur bar saman um að það væri mjög fínt að Þórir væri kominn í vörnina. Í sætið hinu megin settist félagi Garðar Valur sem titlaður er Sjåfør og vaktmester á heimasíðu norska sendiráðsins. Þetta var rosalegt þríeyki! – Í næstu röð fyrir aftan sátu Skonrokks-bræður, sem líklega skýrði hvers vegna alræmdur Valsmaðurinn og himnastiginn Grímur Atlason hafði ákveðið að planta sér mitt í Framhópinn. Skemmst er frá því að segja að Grímur er ekki að fara að upplifa kátan mánudag. (Þetta er næntís-tónlistarreffi, þið hin getið lesið áfram.)

Kúskur sendiherrans benti á að Óli Íshólm væri í svartri markmannstreyju en ekki í kjánalegu HK-náttfatatreyjunni eins og í fyrri leikjum. Hugsanlega stýrðist það að því einu að Valur spilar í rauðu, en við vonum það besta. Annars byrjaði leikurinn af krafti. Bæði lið sóttu stíft og nánast mátti tala um nauðvörn Framarara eftir aðeins fimm mínútna leik. Tveimur mínútum síðar splundruðu hins vegar þeim Gummi og Jesús Valsvörninniu en Jannik skaut rétt framhjá. Það er alltaf fjör í Framleikjum þessa daganna og við nennum varla að byrja nema fyrir fimm marka leiki.

Eftir rúmlega stundarfjórðungsleik komust Valsmenn yfir eftir sókn sem Framarar virtust alfarið skapa sjálfir með gaufi og því að koma boltanum ekki almennilega í burtu. Antíklímax, en Framarar staðráðnir í að láta það ekki slá sig út af laginu. Geiramannatrommusveitin hélt uppi stuðinu með almennri gamansemi og sprelli. Við þurfum aðeins að passa okkur á að vera ekki of sniðug, ekki viljum við enda sem Þróttur úthverfanna!

Fjórum mínútum eftir mark Vals kom góð stunga inn á Jannik sem átti í hörkukapphlaupi við Valsmarkvörðinn um að ná til boltans. Þeir skullu illa saman og Valsarinn lá óvígur og blóðugur eftir. Hann var borinn útaf og hefur vonandi ekki meiðst illilega. Þetta reyndust þó algjör þáttaskil í leiknum, þar sem báðir aðalmarkmenn Vals eru nú meiddir. Þessí stað þurfti þjálfari Valsmanna að grípa til unglingamarkvarðar síns og fréttaritarinn fékk örlítið illt í pabbahjartað. Kristján Hjörvar, varamarkvörður Vals (já, við gerum örsjaldan undantekningu frá reglunni um að nafngreina aldrei mótherja) er nýorðinn sautján ára, stuttur í loftinu og bekkjarbróðir eldri sonar fréttaritarans. Hvílík eldskírn!

Það var aldrei í boði hjá Framliðinu að taka mildilegar á táningnum þrátt fyrir ungan aldur. Tveimur mínútum eftir að leikurinn fór í gang á nýjan leik sóttu Framarar upp hægri kantinn, þar sem Fred átti góða sendingu inn og Gummi stökk hæst allra og skallaði í netið, 1:1. Framarar fögnuðu í stúkunni en Grímur Atlason varð öllu stúrnari – taldi Jannik hafa hrint einum Valsmanninum í aðdraganda marksins. Það má líklega teljast rétt, en dómari leiksins hélt mjög furðulegri línu í gegnum allan leikinn þar sem bakhrindingar og stympingar voru heimilaðar.

Þegar vallarklukkan sýndi 39. mínútur heimtuðu Valsmenn víti eftir samstuð í teig Framara. Það hefði enginn getað kvartað yfir því ef það hefði verið dæmt. Tveimur mínútum síðar jafnaði dómarinn hins vegar metin þegar hann gerði enga athugasemd við að keyrt væri í bakið á Indriða Áka. Um það leyti höfðu Framarar tekið öll völd á vellinum. Fred átti flotta sendingu á Gumma sem negldi framhjá úr ágætu færi. Þegar fimm mínútur voru eftir af hálfleiknum ákvað einn Valsmaðurinn að reka nýjan nagla í líkkistu sinna manna með því að kippa Gumma niður á miðjum vellinum, verandi á gulu. Það sem eftir leið fram að hléi einkenndist af nauðvörn Valmsmanna, þar sem Framarar áttu nokkur dauðafæri – þar af eitt þar sem Jannik virtist frjósa, kominn einn á móti barnungum markmanninum en gleymdi að skjóta. Sú spurning vaknaði hvort meiðsli markvarðarins hafi setið í kollinum á honum.

Það voru sigurreifir Framarar sem hittust í Framherjakaffinu í hléi. Laxinn var kominn á öngulinn og nú var bara að þreyta hann, manni fleiri og með nýgræðing í hinu markinu. Meira að segja Valtýr Björn virtist í þokkalegu jafnvægi og ekki með aðra höndina á glasinu með sprengitöflunum.

Seinni hálfleikur byrjaði með sama fjöri og sá fyrri. Fred átti bylmingsskot sem drengurinn í Valsmarkinu varði vel. Skömmu síðar fengu Framarar aukaspyrnu fyrir utan vítateig sem allir biðu eftir að sjá lúðrað á markið til að reyna á guttann, en einhverra hluta vegna var í staðinn ákveðið að spila úr því, sem rann að lokum út í sandinn. Þessi furðulega tregða til að láta vaða á markið var skrítin og margir af lykilmönnum okkar virtust ekki alveg í sambandi.

Þegar tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleik notaði Gummi alla sína reynslu og nýtti sér allt reynsluleysi unglingsins til að sækja vítaspyrnu þar sem boltinn virtist nánast kominn út fyrir endamörk. Gummi tók vítið sjálfur og negldi út við stöng. Sá stutti var samt með átta fingur á boltanum, 2:1 fyrir Fram og Gummi Magg kominn með sex mörk, þrátt fyrir allar spár sérfræðinga um að hann væri enginn úrvalsdeildarspilari. Múhaha!

Furðulegt einbeitingarleysi þar sem Jesús missti boltann (reyndar eftir bakhrindingu, en þær voru vissulega leyfðar í leikum) varð til þess að Valur jafnaði 2:2 tveimur mínútum síðar og Framarar aftur komnir á byrjunarreit. Öll vötn voru þó farin að falla til Dýrafjarðar.

Hlynur átti hörkuskor framhjá þegar hálftími var eftir. Fyrirliðinn er búinn að vera frábær í sumar og virðist sinna öllum stöðum vel. Fimm mínútum síðar átti Tiago hárnákvæma stungu inn fyrir Valsvörnina þar sem Jannik skeiðaði í gegn og gerði að þessu sinni engin mistök, 3:2 og báðir framherjarnir okkar komnir rækilega í gang – það verður dýrmætt eftir landsleikjahlé.

Þegar tuttugu mínútur voru eftir misskeig Guðmundur sig illa í Framteignum eftir hornspyrnu og bað þegar um skiptingu. Alexander Már leysti hann af hólmi og var nánast búinn að skora úr sinni fyrstu snertingu. Beint í kjölfarið átti Hlynur gott skot sem Kristján markvörður varði vel.

Undir lok leiksins komu skiptingarnar á færibandi. Maggi Þórðar og Orri komu inn fyrir Albert og Fred. Skömmu síðar fór Jannik útaf og Aron Snær kom inná. Í millitíðinni kinksaði Hlynur afletlega en undrandi Valsmaðurinn sem skyndilega fékk færi lífs síns náði ekki að nýta sér það og Óli varði í horn. Í uppbótartímanum fengu Framarar þrjú góð færi, en enginn þó betra en Orri sem komst einn á móti Valsbarninu sem varði frábærlega. Valsmenn geta amk ekki kennt markverðinum um ófarir sínar í dag.

Að lokum gall flautan. Fram vann frægan sigur á erkifjendunum í síðasta heimaleik okkar í Safamýri. Verður það mikið betra? Alex, sem var kallaður inn úr úr leikbanni til að stýra Ziggi-zagga, var meira að segja í slíku uppnámi að hann skilaði bara stuttri útgáfu! Þetta tímabil fer frábærlega af stað og fréttaritarinn, Nonni og Aðalsteinn munum sitja niðri á Skúla kraftbar seinnipartinn á morgun og taka við afsökunarbeiðnum frá fótboltaspekúlöntum og álitsgjöfum sem héldu að Fram yrði fallbyssufóður í sumar. Besta deildin virðist nokurn veginn búín í sumar, þar sem Blikar eru búnir að vinna, fallbaráttan nokkurn veginn útkljáð og eina spurningin er hvort Fram endar í efri eða neðri hlutanum með sitt handboltamarkaskor í hverjum leik. Sjáumst á Skúla. Happy Mondays verða á fóninum.

Stefán Pálsson

Share this post

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!