Að vera fréttaritari fyrir fótboltalið er vanþakklátt hlutskipti. Hvaða fábjáni sem er getur skrifað um sigurleiki og fengið hundrað læk og rítvít fyrir pistilinn. Vandinn eykst þegar liðið manns tapar og allt fer í skrúfuna. Það var ekki gaman að þurfa að skrifa um þetta glataða tap fyrir Keflvíkingum í kvöld.
Dagurin byrjaði annars frábærlega. Hin framtakssama stjórn Fram splæsti í rútuferð Geiramanna til Sunny Kef sem fréttaritarinn þáði guðslifandi feginn. Skjaldsveinninn Valur Norðri bar við flensuskít og því mætti ykkar einlægur einn í Safamýrina til að fá skutl suður með sjó í slaginn um sjötta sætið. Mannauðurinn um borð var með hreinum ólíkindum.
Það var stoppað í Paddy´s í Keflavík, goðsagnakenndri knæpu sem býður upp á strandblakvöll, einn íslenskra skemmtistaða. Þar gerðu Framarar sér glaðan dag ásamt heimamönnum, þar á meðal trymblinum Joey, sem er mögulega eini fótboltavallatrymbillinn sem er frægari en okkar allra besti Hnífsdælingur.
Sumir í hópnum gúffuðu í sig hamborgara. Aðrir löptu Gull úr glasi því Guinnessinn var búinn. Fyrir leikinn ljóstraði starfandii formaður upp fréttum af leikmannamálum sem vöktu gleði.
Það var bongó á Paddy´s en á Keflavíkurvelli blés. Liðsuppstilling Framara var rökrétt miðað við meiðslastöðu: Óli í marki. Gunni go Hluynur miðverðir. Alex og Már bakverðir. Almarr Ormarsson – nýr í hópi – aftastur á miðju. Tiago og Indriði Áki fyrir framan hann. Tryggvi og Fred hvor á sínum kanti og Gummi Magg fremstur.
Í sumar hefur það ansi oft gerst að Framarar hafi gefið andstæðingum sínum forgjöf með marki á upphafsmínútunum. Þetta var einn slíkur leikur. Eftir þrjár mínútur fengu heimamenn hornspyrnu sem markverði og varnarmönnum Fram tókst ómögulega að beina frá marki í þremur til fjórum tilraunum og boltinn hafnaði í netinu. 1:0 og Fram var strax farið að elta!
Beint í kjölfar marksins virtust Framarar ætla að halda haus og á fyrstu tíu mínútunum héldum við uppi öflugum og góðum sóknarleik, þar sem boltinn gekk hratt á milli manna. Fljótlega dró þó úr þessum krafti og einu alvöru sóknir Framliðsins byggðust á einstaklingsframtaki þar sem Fred lét skotið ríða af þegar færi gafst.
Þegar um hálftími var liðinn af fyrri hálfleik og Framarar virtust hafa völdin á miðjunni mistókst þversending frá Hlyni gjörsamlega, heimamenn brunuðu fram og skoruðu 2:0. Leikurinn var nánast tapaður og það án þess að Keflvíkingar hefðu sjálfir skapað sér eina einustu sókn.
Framarar héldu áfram að sækja en sköpuðu lítið nema þegar Fred kom við sögu. Undir lok hálfleiksins meiddist hann í samstuði og stakk við það sem eftir var fyrir hlé. Í byrjun seinni hálfleiks leysti Maggi Þórðar hann af hólmi.
Snemma í seinni hálfleik átti Magnús ágæra sendingu á Tiago sem skaut beint á markvörð Keflavíkur. Tveimur mínútum síðar komust heimamenn í dauðafæri, en Óli greip vel inní.
Á 58. mínútu dró til tíðinda þegar Alex átti frábæra sendingu fyrir Keflavíkurmarkið sem Indriði Áki stökk fram og skallaði í netið. Markið virtist gott og gilt en aðstoðardómarinn flaggaði rangstöðu. Líklega kolrangur dómur en breytti þó tæplega heildarniðurstöðunni.
Tryggvi fór af velli fyrir Aron Snæ eftir um klukkutíma leik. Nokkru síðar átti Már ágæta sendingu á Tiago sem stakk fyrir á Gumma Magg sem skallaði glæsilega í netið, 2:1 og leikurinn snögglega galopinn á nýjan leik!
Adam reyndist ekki lengi í paradís. Þremur mínútum síðar fengu Keflvíkingar hornspyrnu og skoruðu í kjölfarið. Við erum alltof linir í föstu leikatriðunum og markvörðurinn okkar þarf að fá væna sprautu af sjálfstrausti! Staðan 3:1 og leikurinn í raun búinn.
Almarr og Alex fóru af velli fyrir Jesus og Aron Kára undir blálokin en það hafði engin áhrif á heildarniðurstöðuna. Ergilegt 3:1 tap gegn frekar slöku Keflavíkurliði var veruleiki og fátt til að kætast yfir ef frá er talin fín endurkoma Almarrs. Nú er bara að taka sig á og massa þetta gegn FH í næsta leik.
Stefán Pálsson