N1 mótið fór fram dagana 29. júní til 2. júlí. Mótið fór mjög vel fram og fór gríðarlegur fjöldi iðkenda á kostum á mótinu. Fullt af flottum tilþrifum, vítaspyrnukeppnum og mörkum í öllum regnbogans litum. Auk fótboltans var auðvitað farið í sund, gætt sér á Brynjuís og haldin var glæsileg kvöldskemmtun.
Fram sendi 6 lið til leiks sem öll stóðu sig með mikilli prýði, bæði innan og utan vallar. Fram 1 náði 10. sæti í Argentínsku deildinni. Fram 2 gerði sér lítið fyrir og vann Dönsku deildina. Fram 3 náði 4. sæti í Frönsku deildinni. Fram 4 lenti í 6. sæti í Grísku deildinni. Fram 5 nældi sér í 4. sætið í Japönsku deildinni og Fram 6 endaði í 16. sæti Norsku deildarinnar. Heilt yfir mjög góður árangur.
Það sem skiptir þó mestu er að öll lið og leikmenn voru til fyrirmyndar og nutu sín í botn við að mæta erfiðum andstæðingum. Leikgleðin var í fyrirrúmi og virkilega gaman að sjá hvað liðin voru dugleg að styðja hvert annað í leikjum og hve samheldnin í hópnum var mikil. FRAMtíðin er greinilega mjög björt.
Fleiri myndir hér: https://framphotos.pixieset.com/2022-n1mti/
Knattspyrnudeild FRAM