fbpx
leikur mfl. kv.

Sex-núll-núll

Í æviminningabók Halldórs Einarssonar, stofnanda og eiganda íþróttavörufyrirtækisins Henson, er kostuleg lýsing á því þegar athafnamaðurinn sat uppi með marga stranga af óseljanlegu efni í skræpóttum appelsínugulum og skærgrænum lit. Um svipað leyti bönkuðu stjórnendur Vopnafjarðarfélagsins Einherja uppá og Halldór sannfærði þá um ágæti þessarar frumlegu litasamsetningar. Þannig varð frumlegasti íslenski fótboltabúningurinn til og enn í dag er ekki hægt annað en að gleðjast við að sjá Vopnfirðinga á velli.

Það er í sjálfu sér aðdáunarvert að ekki stærri staður en Vopnafjörður haldi ár eftir ár úti öflugum meistaraflokkum beggja kynja. Eftir því sem næst verður komist er Einherji líka eina íslenska félagið sem karlalið Fram hefur leikið við en aldrei náð að vinna. Sumarið 1983 léku liðin í sömu deild og lauk báðum leikjum með jafntefli. Í þessu efni hafa Framkonur amk skotið körlunum ref fyrir rass.

Það var hálfsvalt í Úlfarsárdal þegar flautað var til leiks klukkan tvö. Áhorfendur voru ekkert sérlega margir og heldur hljóðlátir þrátt fyrir ágætis brýningar félaga Kristjáns Freys í hlutverki vallarþular. Byrjunarliðið var sem hér segir: Marissa í markinu. Erika og Svava miðverðir. Karías og Þórhildur bakverðir. Ólöf, Ana og Iryna á miðjunni, Halla Þórdís og Ylfa á köntunum og Jessica frammi.

Fyrir leikinn hafði Framliðið unnið fimm fyrstu leikina og einatt skorað mörg mörk. Lið Einherja var hins vegar í neðri hlutanum með einn sigur í fjórum leikjum. Vonir stóðu því til þess að um auðveldan sigur yrði að ræða. Sú varð ekki raunin.

Lið gestana varðist vel og tókst ágætlega að brjóta niður allt spil Framkvenna þegar komið var á þeirra vallarhelming og gerðu sig alltaf líklegar til að hóta með skyndisóknum á móti. Framliðið átti í vandræðum með að tengja margar sendingar saman og á löngum köflum virtist leikmönnum liggja of mikið á að losa sig við boltann. Lítil hætta skapaðist fyrstu tuttugu mínúturnar nema þá helst þegar Jessica freistaði þess að leika ein sín liðs í gegnum vörn andstæðinganna og beitti til þess líkamsstyrk sínum.

Þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður dró til tíðinda. Framarar í stúkunni heimtuðu aukaspyrnu rétt fyrir utan vítateig, ekkert var dæmt en boltinn barst til hliðar á aðvífandi Framara (Önu?) sem stakk inn á teiginn. Sendingin virtist á leiðinni útfyrir en Höllu tókst að halda henni inná og afgreiddi kvöttinn svo snyrtilega fram hjá markverði Vopnfirðinga.

Strax í næstu sókn virtust Framarar ætla að klára leikinn en ágæt hornspyrna Irynu var naumlega varin yfir. Fréttaritarinn og félagi Sigurður Freyr hölluðu sér rólega aftur í sætunum. Nú virtist bara tímaspursmál hvenær allar flóðgáttir myndu opnast hjá gestunum. Það reyndist öðru nær. Marissa þurfti að hafa sig alla við með glæsilegu úthlaupi þegar sóknarkona Einherja slapp ein í gegn eftir hálftíma leik.

Fátt annað bar til tíðinda það sem eftir leið hálfleiksins, ef undan er skilið óvænt færi sem Halla fékk eftir að hafa náð að halda því sem virtist vonlaus bolti inni á vellinum. Það er jákvætt að sjá hvað Framkonur eru duglegar við að reyna að hlaupa í bolta sem við fyrstu sýn virðast vonlausir.

Eftir furðulega dragðdaufan fyrri hálfleik var tímabært að ylja sér á kaffi og bíða þess að lifnaði yfir leiknum eftir hlé. Þjálfarateymið ákvað að nota rækifærið og gerði tvær breytingar í við upphaf seinni hálfleiks. Lára kom inná fyrir Ólöfu og Emilía fyrir Þórhildi. Eflaust spilaði inní þá ákvörðun að Ólöf var á gulu spjaldi eftir að hafa nælt sér í áminningu eftir kortér fyrir engar sakir.

Fyrsti stundarfjórðungur seinni hálfleiksins var afskaplega bragðdaufur og nánast ekkert gerðist sem vert var að færa til bókar. Eftir um klukkutíma leik fór markaskorarinn Halla af velli fyrir Ólínu Sif og skömmu síðar fór Jessica nærri því að komast í dauðafæri. Skömmu síðar á Jessica svo prýðilega sendingu innfyrir en Ólína Sif missti af knettinum. Beint í kjölfarið náði Ylfa svo óvæntu skoti fyrir utan teig sem markvörður Einherja gerði vel í að verja.

Þótt skástu færin kæmu í hlut heimaliðsins gafst aldrei færi til að slaka almennilega á. Alltof oft misstu leikmenn Fram boltann kæruleysislega á miðjunni og sú hætta var stöðugt fyrir hendi að einhver Austankvenna næði að stinga sér innfyrir.

Enn var skipt inná þegar um tuttugu mínútur voru eftir og Kristín kom inná fyrir Önu. Skömmu síðar fengu Framarar tvö fín færi. Fyrst slapp Ylfa í gegn en markvörðurinn var á undan í boltann og því næst sópaði Ólína Sif boltanum yfir úr góðu færi eftir sendingu frá Jessicu. Þegar sjö mínútur voru eftir af hefðbundnum leiktíma kom Ásta Hind inná fyrir Ylfu, en fátt meira bar til tíðinda og Framkonur sigldu 1:0 seiglusigri í hús.

Það er ekki margt um leik dagsins að segja. Framarar voru talsvert frá sínu besta og hefðu getað fengið það í hausinn að nýta færin ekki betur. Einherji er hins vegar með fínt lið og engin ástæða til að forsmá sigur á þeim þótt naumur sé. Mun meiri prófraun bíður liðsins í næsta leik, á Hornafirði gegn Sindra sem vann í dag mjög sterkan sigur á Skaganum. Eftir stendur að Fram er með fullt hús stiga á toppnum með sex sigra í sex leikjum. Lengi megi það vara!

Stefán Pálsson

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!