fbpx
Almar gegn Fh

Bílriðan

Klukkan 8:05 ræsti fréttaritari Framsíðunnar bíl sinn fyrir framan heimili tengdaföður síns í Neskaupstað eftir tíu daga sumarfrí í Austfjarðaþokunni. Hann kvaddi gírkassinn á bílnum er tæpur og þolir illa brattar brekkur niðurímót.  Hann var örlítið svekktur út í sjálfan sig fyrir misheppnaða ferðahönnun sem þýddi að lesendur Framsíðunnar myndu annan leikinn í röð missa af skýrslu.

Klukkan 14:28 rennir fréttaritarinn inn á planið hjá N1 á Kirkjubæjarklaustri og hugsar: „Ég gæti náð þessu!“ Hann hringir óðara í Val Noðra og biður hann um að vera í startholunum. Valur er tilbúinn.

Klukkan 17:15 ekur fréttarinn framhjá Hveragerði og tilkynnir skjaldsveininum að planið sé í gangi! Fimmtíu mínútum síðar mætir Valur á velmegunarjeppanum, fullum af bjór og sækir fréttaritarann í Eskihlíðina. Bílriðan eftir tíu tíma af nálega samfelldum akstri er aðeins farin að bíta, en fréttaritarinn er harður af sér. Saman bruna þeir í fínumannahlutann í Seljahverfi og sækja Rabba. Tíundi áratugurinn er kominn aftur! Stefán, Valur og Rafn eru komnir saman á ródtripp – öllu eldri en engu vísari!

Eftir að hafa villst lítilega á hringtorgum Akranesskaupstaðar fundu þremenningarnir loks íþróttasvæðið og parkeruðu fyrir neðan fótboltahöllina. Tæknimeðvitaðir eins og þeir eru fundu félagarnir út úr Stubbs-appinu og komu sér fyrir á besta stað við miðbik vallarins. Í sætaröðunum fyrir framan var úrvalssveit Framkvenna: þær Elín Þóra, Svanhvít og Hulda Björk. Þar var sko ekki töluð vitleysan! Á næstu grösum voru gamlir jaxlar eins og Steinar Berg og sjálfur Marteinn Geirsson, sem var verulega gleðilegt að sjá á vellinum.

Liðsuppstillingin var svipuð og síðast. Óli í markinu, Brynjar Gauti og Dephin sem miðverðir. Már og Alex bakverðir. Almarr og Indriði Áki aftarlega á miðjunni með Albert þar fyrir framan á móti sínu gamla félagi. Albert hefur verið grátt leikinn af meiðslum í sumar og ekki skugginn af sjálfum sér og því gaman að sjá hann loksins í byrjunarliði! Maggi Þórðar var á öðrum kantinum og Tiago á hinum – að nafninu til í það minnsta. Gummi fremstur. (Fred er meiddur og því hvorki í liðinu né á bekknum.)

Áður en lengra er haldið, er líklega rétt að taka það fram að vallaraðstæður voru mjög óhagstæðar heimaliðinu – jafnvel svo mjög að velta má því fyrir sér hvort sanngjarnt hafi verið að spila við þessar kringumstæður. Hlýtt var á vellinum og nánast enginn vindur. Allir lesendur Opinberunarbókarinnar vita að logn á Skaganum er fjórða innsiglið – á milli engisprettuplágunnar og dauða frumburðanna!

Leikurinn hófst með látum þar sem bæði lið sköpuðu sér tækifæri. Framarar voru þó betri og Guðmundur og Magnús gerðu báðir atlögu að Skagamarkinu á fyrstu tíu mínútum á meðan heimamenn ógnuðu ekki að marki. Rétt í kjölfarið átti svo Indiriði góðan skalla að marki eftir sendingu Almars sem var varinn. Hinu megin á vellinum þurfti Óli að taka á honum stóra sínum í fáein skipti. Gleðilegt var annars að sjá hvað markvörðurinn okkar var grimmur í úthlaupum í teiginn í leiknum, sem hefur verið kallað dálítð eftir upp á síðkastið. Frábær frammistaða og hæsta einkunn í kvöld!

Nonni þjálfari er meistari í að greina veiku blettina í varnarleik andstæðinganna og láta sækja í þá í kjölfarið. Í dag var það hægri kanturinn hjá Skaganum sem bauð til veislu og Framarar létu ekki segja sér það tvisvar. Eftir nítján mínútna leik lék Albert út á kant, sendi boltann inn á vítateig þar sem Magnús kom aðvífandi, drap boltann niður, tók á aðvífandi mótherja og skaut svo beint í bláhornið, 0:1 fyrir Fram!

Fréttaritarinn féll einu sinni í þá gryfju að rugla saman Magga Þórðar og Má Ægissyni. Honum til afsökunar má benda á að allir mjóslegnir, burstaklipptir menn um tvítugt líta eins út. Það sannaðist tveimur mínútum eftir markið, þar sem Albert fékk boltann á ný, á nákvæmlega sama stað og fyrr, sendi hann inn í vítateiginn þar sem Már kom aðvífandi á sama stað og lyfti boltanum yfir Skagavörnina og markvörðinn í bláhornið fjær. Frekar vandræðalegt mark fyrir heimamenn, en flókið fyrir Framara þar sem Már fagnaði á nákvæmlega sama hátt og félagi Magnús. Er til of mikils mælst að annar þeirra liti hárið á sér grænt til aðgreiningar?

Í síðasta Framleik á Skaganum töpuðum við 3:0 með b-liðið inná. Í ljósi þess var hálffurðulegt að fara í hléið með tveggja marka forystu. Gestgjafarnir voru aumir og enginn hafði trú á verulegum viðsnúningi.

Seinni hálfleikur var nýbyrjaður þegar Alex tók á rás upp kantinn, lék í gegnum vörn Skagamanna og eftir að hafa sólað einn af öðrum hrökk boltinn til hans á ný og hann setti hann í netið, kostulegt mark en verulega vandræðalegt fyrir Skagavörnina! 3:0!

Albert fór af velli fyrir Tryggva eftir klukkutíma. Hann var greinilega rækilega búinn á því, en verulega gleðilegt að sjá hann eiga tvær stoðsendingar gegn sínu gamla liði. Í raun er magnað hvað Framliðið hefur skilað góðurm árangri án Alberts, okkar langbesta manns í fyrra, á þessu sumri. Skömmu síðar átti Tiago flotta sendingu á Magga sem sendi fyrir á Gumma Magg sem stangaði hann inn, 4:0 og markahrókurinn okkar færist enn nær toppsætinu.

Þegar um stundarfjórðungur var eftir fóru Alex og Almarr af velli fyrir Orra og Jesús. Undir lokin komu svo Aron Kári og Óskar inn fyrir Tiago og Magnús. Það hafði þó engin alvöru áhrif á úrslit leiksins og sigur Framara!

Fjögur núll á Akranesi eru úrslit sem Fram hefur ekki náð í áratugi. Lengi megi það lifa!

Að taka út frammistöðu einstakra leikmanna væri ekki fyllilega sanngjarnt. Varnarlínan verðskuldar þó sérstakt hrós enda hélt hún hreinu. Almarr ógnaði vel, Magnús og Már sömuleiðis. Tiago gerði allt sem hægt var að óska frá honum.

Stefán Pálsson

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!