Það innan við hálfur sólarhringur frá því að það byrjaði aftur að gjósa í Merardölum og fréttaritari Framsíðunnar er strax kominn með móral yfir að vera ekki búinn að arka á sínum götuskóm um einhverja björgunarsveitartroðninga til að taka selfí við gíginn. Gosviskubit virkar nákvæmlega eins og sólviskubit, þegar Íslendingurinn fær dúndrandi móral yfir að sitja inni yfir tölvuskjá í bongóblíðunni. Hvað hefði Jónas Hallgrímsson gert?
Fréttaritaranum til varnar keyrir leið 18 ekki úr Hlíðunum að Litla-Hrúti eða hvað svo sem þessir gígar annars heita. Leið 18 fer hins vegar – eins og fram hefur komið á þessum vettvangi – beina leið frá Friðrikskapellu og upp í Úlfarsárdal á leikvang draumanna. Það voru því tveir glaðværir miðaldra karlar, fréttaritarinn og Hnífsdælingurinn Kristján Freyr sem hittust á biðstöðinni. Kristján var klyfjaður trommusetti og bjórdós. Fréttaritarinn með kúlupenna og bjórdós. Svona er byrðum manna misskipt í þessu lífi.
Hálftíma síðar var stigið úr vagninum og beint inn í sólstrandarloftslag Úlfarsárdalsins. Trekk í trekk hefur Hlíðabúinn feilað á því að klæða sig upp til að verjast háfjallaloftslagi og vindstrengjum Hólmsheiðar, til þess eins að uppgötva að á nýja Framvellinum er alltaf bongó. Þetta er fullkomlega fáránlegt og kallar á ítarlegar veðurfræðirannsóknir.
Fínumannaboðið í vippinu var byrjað. Hinir barnungu stjórnarmenn knattspyrnudeildarinnar héldu ræður og fljótlega kvisaðist út hvernig byrjunarliðið væri skipað. Framliðið vantaði fjölmarga lykilmenn. Gummi Magg og Alex tóku út leikbönn. Jannik er meiddur og Fred byrjaði á bekknum, tæpur vegna meiðsla. Á móti kom að Þórir kom beint inn í byrjunarliðið eftir langvinn meiðsli. Þórir er Njáll Quinn sinnar kynslóðar: hann er annað hvort miðvörður eða senter þegar hann spilar. Að þessu sinni var hann senter.
Annars var liðið svona skipað: Óli í markinu. Delphin og Hlynur miðverðir. Enginn Brynjar Gauti, þar sem hann var að hjálpa vini sínum við að flytja. Már og Jesús í bakvörðunum. Almarr og Indriði Áki á miðjunni. Maggi og Tiago á köntunum (nema eins og við vitum er Tiago bara plat-kantmaður því hann fer alltaf inn á miðjuna) og Albert og Þórir frammi.
Það var asnalega mikið af fólki í stúkunni þegar fréttaritarinn valt niður tröppurnar, útbelgdur af fínumannasamlokum með sýrðum gúrkum og róstbíff. Blöndunin er frábær: fólk úr hverfinu og gamlir Framarar sem maður hefur ekki séð á vellinum í fjöldamörg ár. Hvað er eiginlega langt síðan við höluðum síðast upp meðaltalið af áhorfendum í efstu deild í stað þess að draga það niður? Vitiði hvað það er gaman að upplifa þetta eftir öll þessi ár þegar eina fólkið í stúkunni á Laugardalsvellinum vorum ég og Valur Norðri og Kolla handboltamarkvörður og maðurinn hennar, Þorgeir sem heldur með Coventry, orðljóti lögrfræðingurinn, Auðun Georg úr útvarpinu og Þorbjörn Atli eftir hlé?
Talandi um það… Valur Norðri skrópaði í hundraðasta sinn. Það var því enginn markapeli og fréttaritarinn sat við hliðina á Rabba og syni hans. Í næstu nálægð var svo einvalalið: Marka-Kiddi, Garðar bílstjóri Nojaranna, fyrrnefndur Þorbjörn Atli, Skonrokksbræður mamma Þóris og Siggi Tomm. Þetta er slíkt einvalalið að það mætti varla ferðast saman í flugvél.
Leikurinn byrjaði með látum. Jafnvel óþarflega miklum látum, því eftir einungis fjórar mínútur lá boltinn í marki Framara eftir skalla Stjörnunnar úr snarpri sókn. Þetta var ekki eftir handriti!
En mjór er mikils vísir. Strax í næstu sókn brutust Þórir og Albert í gegnum Stjörnuvörnina. Albert sendi fyrir og Þórir var hársbreidd frá því að pota boltanum í netið. Ekki gafst mikill tími til að svekkja sig á þessu, þar sem mínútu síðar áttu Tiago og … tja, vefmiðlarnir segja Indriði Áki, en Fréttaritarinn og gestirnir í fínumannaboðinu í hléi segja Albert… fínan þríhyrning rétt fyrir utan teig og portúgalska undrið smurði boltanum í netið með föstu skoti, 1:1.
Framarar tóku öll völd á vellinum í kjölfar marksins. Maggi Þórðar negldi framhjá nokkru síðar. Eftir rétt rúmlega kortér kom næsta mark Framara. Miðvörður Stjörnunnar sofnaði á verðinum og missti boltann klaufalega frá sér til Tiago sem lék óðara á hann, spilaði upp að vítateigslínu og negldi svo í bláhornið. Frábært mark og fréttaritarinn skal hundur heita ef það tryggði okkar manni ekki sæti í úrvalsliði umferðarinnar hjá öllum meginstraumsmiðlum!
Stjarnan er gott fótboltalið sem leikur sókndjarfan og skemmtilegan bolta. Eftir markið blésu Garðbæingar til sóknar á sama tíma og Framarar féllu aftar á völlinn. Það sem eftir leið hálfleiksins pressuðu Stjörnumenn en Fram beitti skyndisóknum, þar sem Jesús var sérlega öflugur og sókndjarfur. Sú spurning vaknar hvort við fengjum ekki enn meira út úr þessum ágæta leikmanni með því að nota hann alfarið með miðjumann í staðinn fyrir bakvörð?
Sóknarþungi Stjörnunnar jókst og Óli þurfti oft að taka á honum stóra sínum í markinu. Glæsivarsla á 32. mínútu stendur uppúr, en almennt á markvörðurinn okkar hrós skilið fyrir frammistöðuna í kvöld. Sama gildir um marga aðra leikmenn raunar. Maggi er að koma frábærlega inn í liðið upp á síðkastið. Almarr var gríðarlega traustur. Hlynur átti mikilvægar vörslur og Delphin er hægt og bítandi að breytast í miðvörð sem á að geta staðið sig vel í þessari deild eftir brothætta byrjun.
Stemningin í hléi var góð. Stöku Stjörnumanni hafði verið hleypt inn í fínumannaboðið, þar á meðal Mána af X-inu, sem var með fréttaritaranum í æskulýðsfylkingu Alþýðubandalagsins þegar að völvan var ung og sæt. Hann var fullur lotningar yfir þessari æðislegu aðstöðu og stemningunni í dalnum – sem Óskar með hattinn vill reyndar kalla: „mýri martraðanna“, sem er pínkulítið töff en samt dálítið glatað því að í fyrsta lagi er ekkert mýrlendi þarna og í öðru lagi væri ekki ljóst hvort martrarðirnar væru okkar eða andstæðinganna. 5/10 fyrir útfærslu, 8/10 fyrir viðteitni.
Seinni hálfleikur byrjaði fyrir alvöru á aukaspyrnu Tiago rétt fram hjá markinu… hann var alltaf að fara að skjóta í stað þess að senda. Það má ef þú ert búinn að skora tvisvar. Eftir tíu mínútna leik stakk Jesús sér í gegnum Stjörnuvörnina og átti gott skot sem naumlega var varið í horn. Hann virtist staðráðinn í að skora í þessum leik!
Mun meira jafnræði var á milli liðanna í seinni hálfleiknum en þeim fyrri og spilið einkenndist af stöðubaráttu á miðjunni. Um miðjan seinni hálfleik var loks komið að skiptingu hjá Fram þar sem Magnús og Albert fóru af velli fyrir Tryggva og Fred. Sá síðarnefndi átti eftir að koma mikið við sögu og tókst vel að halda boltanum, sem hafði verið talsvert vandamál fyrir Framliðið fram að þessu. Ó, við þurfum að fá Freddann okkar aftur í 90 mínútna stand sem allra fyrst!
Þórir var orðinn ansi framlágur þegar hér var komið sögu, enda ekki spilað lengi – hvað þá fullan leik. Hann fékk krampa á 83. mínútu og fór af velli fyrir Orra. Skiptingin fór fram þegar Stjörnumenn áttu horn og því miður jöfnuðu þeir úr hornspyrnunni með kröftugum skalla.
Það sem eftir leið leiks virtust Stjörnumenn öllu líklegri til að stela öllum þremur stigunum en við að koma til baka. Í uppbótartíma fékk Tiago svo heiðursskiptingu fyrir Óskar.
Hvað segir maður eftir leik eins og þennan? Óskar trymbill skutlaði fréttaritaranum og Kristjáni Hnífsdælingi heim og var drafafúll yfir tveimur töpuðum stigum. Fréttaritarinn virðir þó stigið. Hann horfir enn yfir öxlina á sér í fallbaráttunni og fagnar því hverju stigi í húsi. Hjá honum er glasið hálffullt. Tvö skemmtileg sóknarlið mættust í geggjuðu veðri við frábærar aðstæður. Fram er enn sem fyrr eins liðið sem skorað hefur í hverjum einasta leik í sumar. Þannig er það og þannig á það að vera. Næsti karlaleikur er á móti Víkingunum. Þar verða Kyle og Helgi Guðjónsson vonandi uppteknir í flutningum fyrir vini og ættingja.
Stefán Pálsson