„Vaktu með mér Maríanna, mig langar þig að fá – til að standa með mér, Maríanna, er stórhríðin oss skellur á!“ – Með laginu „Sól í dag“ á plötunni „Horft í roðann“ bætti Stuðmaðurinn Jakob Frímann Magnússon mikilvægri viðbót við flóru þeirra dægurlaga sem fjalla um konur að nafni Maríanna. Þetta er helvíti fínt lag og talar sterkt til fréttaritara framsíðunnar sem býr einmitt í sömu Eskihlíðarblokk og Kobbi Magg ólst upp í. Tengingin við Maríönnu-nafnið verður útskýrð betur síðar.
Fréttaritarinn var hálftaugaveiklaður fyrir leik kvöldsins. Framarar hafa verið ósigraðir í Dal draumanna í sumar, en um helgina fokkaðist sú tölfræði upp eftir að stelpurnar okkar misstu unnin leik, 2:0, niður í 2:3 tap á lokamínútunum gegn skattaskjólinu á Valhúsahæð. Myndi sagan endurtaka sig í karlaleiknum – og myndi fyrsta tapleikjaskýrslan líta dagsins ljós? Fyrirsagnir og sögulínur sem miðuðust við verstu útkomu voru farnar að spretta upp kolli pistlahöfundar.
Það var letilegur dagur í Eskihlíðinni og Fréttaritarinn horfði fyrst á hans menn í Hearts missa Edinborgarslaginn gegn Hibernian niður í jafntefli á lokasekúndunum (annar slæmur fyrirboði), því næst sá hann Manchester City vinna West Ham að viðstöddum kotrosknum syni og vinum hans og því næst FH-inga úti að skíta á móti Akureyri í Bestu deildinni. Þrír fótboltaleikir sem mynduðu prýðilegan upptakt að átökum kvöldsins. Skjaldsveinninn Valur Norðri bætti fyrir ítrekaðar fjarvistir með því að sækja fréttaritarann í tæka tíð fyrir fáeinar samlokur og tvo bjórbauka í fínumannaboðinu í Úlfarsárdal…
Tvíeykið mætti of seint til að hlusta á Nonna kynna liðið, en internetið – sem veit ýmislegt – upplýsti að það væri á þessa leið: Óli í markinu. Brynjar Gauti og Hlynur miðverðir. Alex og Jesús bakverðir. Indriði Áki og Almarr á miðjunni með Tiago og Magnús á köntunum. Albert og Gummi Magg frammi. Líf Fréttaritarans varð mun auðveldara eftir að hann hætti að lýsa liðsuppstillingu okkar sem neinu öðru en 4-4-fokkíng-2, þrátt fyrir að hann hafi oft miklar efasemdir um að það sé endilega besta lýsingin.
Í fínumannaboðinu var nóg af fólki. Víkingsformaðurinn slefaði yfir aðstöðunni eins og aðrir gestir – og viðurkenndi að hugur þeirra væri ansi mikið bundinn við Evrópuleikinn í vikunni. Við þiggjum slíkt! Gamlar kempur voru á hverju strái og stemningin almennt góð.
Skömmu áður en leikurinn hófst trítluðum við niður til að næla í sæti við miðjan völlin fyrir okkur tvo og félaga Rabba sem ætlaði að mæta með synina tvo. Það mátti ekki tæpara standa. Það er slegist um sætin á Framvellinum í Úlfarsárdal, þar sem allir gömlu Framararnir og allt fólkið í hverfinu mætir á hvern einasta leik. Það þurfti einbeitingu til að verða ekki starströkk með Pétur Ormslev, Gumma Torfa og Martein Geirsson í næstu röð fyrir neðan, ásamt Stefáni Eggertssyni, pabba alls hópíþróttafólks sem nær máli í þessu landi síðustu áratugina. Stundum spyr maður sig: er ég staddur á íþróttakappleik eða í hverjir-voru-hvar dálki?
Víkingar komu ákveðnir til leiks, pressuðu hátt og fengu fyrsta dauðafærið eftir tæpa mínútu, þegar leikmaður þeirra skaut framhjá óvaldaður á markteig. Þetta lofaði ekki góðu. En Framarar létu þessa slæmu byrjun ekki slá sig út af laginu. Þegar um tíu mínútur voru liðnar af leiknum skeiðaði Jesús upp kantinn, lék upp að endamörkum, náði glæislegri sendingu á Gumma sem potaði boltanum áfram á Magnús sem kom aðvífandi og skoraði auðveldega, 1:0. Maggi fagnaði að hætti hússins. Það er frábært að sjá uppalinn leikmann blómstra eins og raunin hefur verið með hann í sumar og megi það endast sem lengst!
Um miðjan hálfleikinn virtust Framarar hafa náð að tvöfalda forystuna þegar Albert skoraði en rangstöðuflaggið var komið á loft, líklega réttilega. Eftir þessa líflegu byrjun okkar manna tókst gestunum að vinna sig jafnt og þétt inn í leikinn á ný og sóttu stíft. Óli gerði þrívegis mjög vel í markinu og jafnoft skutu gestirnir yfir eða framhjá úr fínum færum áður en flautað var til leikhlés. Framarar vörpuðu öndinni léttar.
Í hléi tók að kvisast út að Blikar væru að tapa illa fyrir Stjörnunni og því væri til enn meira að vinna fyrir Víkinga að fá eitthvað út úr leiknum. Miðað við bylmingsskot fyrri hálfleiksins var ljóst að atlagan yrði hörð, Fréttaritarinn, spakur sem hann er, spáði því að við tæki tíu mínútna nauðvörn í byrjun seinni hálfleiks – en að henni lokinni myndu opnast færi til sóknar. Þetta þótti spaklega mælt…
Eftir meiri bjór og samlokur hófst leikurinn á ný. Það var fáránlega mikið af fólki, eins og verið hefur á hverjum einasta leik Framara á nýja heimavellinum. Vallarþulurinn tilkynnti að áhorfendur væru 1150. Þúsund og fimmtíu… Ellefuhundruð og fimmtíu… Það er MCL með rómverskum tölum – sem eru einmitt upphafsstaðir Maríönnu Clöru Lúthersdóttur, leikkonu og sameiginlegrar kunningjakonu Fréttaritarans og Kristjáns stuðtrymbils! Hverjar voru líkurnar!!??
Hvenær í fjáranum fórum við að fá MCL a.k.a. ellefuhundruð og fimmtíu áhorfendur á leik gegn fokkíng Víkingum? Jújú, veðrið í Úlfarsárdal er sannarlega betra en nokkurs staðar annars staðar á höfuðborgarsvæðinu. Fólkið úr hverfinu mætir sannarlega í hrönnum og finnst frábært að hafa loksins sameiningartákn til að binda saman þetta skemmtilega samfélag þarna uppfrá. Og vissulega drífa að gamlir Framarar, sem segja eins og einn sem ég hitti í sjoppunni í kvöld: mér hefur aldrei fundist við eiga heimavöll síðan í Skipholtinu, fyrr en hér í dag! – En ellefuhundruðogfimmtíu… herregud! MCL!!
Það fór eins og Fréttaritarinn spáði. Víkingar blésu í herlúðra og sóttu stíft eftir hlé, vitandi að sterk sólin skini beint í augu Framvarnarinnar. Þegar sléttar tíu mínútur voru liðnar af hálfleiknum komust gestirnir næst því að skora eftir augnablikskæruleysi í Framvörninni, en Ólafur varði vel. Fyrr í sumar var í tísku að hallmæla Óla í markinu en í kvöld var hann líklega okkar besti maður ásamt Brynjari Gauta.
Spádómur Fréttaritarans rættist fullkomlega. Um leið og fyrstu tíu mínúturnar voru afstaðnar breyttist leikurinn og þá þegar náði Maggi að skeiða upp kantinn og senda fyrir á kollinn á Alberti sem kom aðvífandi og skoraði 2:0, Albert hafði fram að þessu sýnt lítið en frábært að sjá hann ná sér strik. Markapelinn fór á loft og mamma Þóris fékk á dreypa á auk hefðbundinna gesta.
Ekki liðu nema tvær mínútur uns boltinn lá í Frammarkinu 2:1, eftir snarpa skydisókn gestanna. Um sex mínútum síðar höfðu Víkingar jafnað eftir klafs í vítateig Framara þar sem varnarlínunni tókst ekki að hreinsa frá. Ekki voru margar sekúndur liðnar uns staðan var orðin 2:3 og óþægilegar minningar um kvennaleik laugardagsins voru farnar að rifjast upp.
Eftir þennan viðsnúning gerði þjálfarateymið tvöfalda skiptingu. Fred og Tryggvi komu inná fyrir Almarr og Albert. Nokkrum mínútum síðar var Brynjar keyrður niður í vítateig Víkinga, án mikils tilefnis en augljósri vítaspyrnu sleppt. Karma punktaði þetta hjá sér…
Þegar tvær liðu af venjulegum leiktíma fengu Framarar horn. Tiago tók spyrnuna, Gummi Magg skallaði að marki og Brynjar Gauti var á undan í frákastið og skoraði, 3:3. Fór hann í Ingvar á undan markinu? Mjah… karma hefur sínar leiðir til að jafna metin.
Þórir kom inná fyrir Gumma í blálokin en lítið gerðist það sem eftir var leiks (fyrir utan eitthvað smotterí eins og sláarskot Víkinga í fjórðu mínútu uppbótartíma). Niðurstaðan var hins vegar 3:3 jafntefli, hjá eina liðinu í Bestu deild sem skorar í hverjum einasta leik. Dalur draumanna er staðurinn til að upplifa mörk og dramatík. Getum við lengt þetta Íslandsmót í 40 umferðir þá yrðum við pottþétt meistarar! Sjáumst annars gegn Leikni annan mánudag, á þessari fullkomlega glötuðu leikdagsetningu sem KSÍ hefur fullkomnað.
Stefán Pálsson