Í myndasögunni Astérix et les Normands, sem síðar fékk nafnið Ástríkur og Víkingarnir þegar hún var gefin út af bókaforlaginu Froski fyrir nokkrum misserum, segir frá hópi víkinga sem sigla að ströndum Gallíu, nánar tiltekið Gaulverjabæjar. Tilgangurinn er ekki að rupla og ræna heldur að fræðast. Víkingarnir þekkja ekki óttann, en hafa óstaðfestan grun um að hann gefi mönnum vængi.
Hugmyndin er snjöll. Hvernig útskýrir maður hræðslu fyrir manni sem aldrei hefur upplifað hana? „Á fjórtándu öld var rokkið ekki til, en í dag er rokkið staðreynd!“ – sagði hljómsveitin HAM. Hvernig myndi maður útskýra rokkið fyrir þrettándu aldar manni? Heimsins bestu kennarar stæðu hjálparlausir gagnvart slíku viðfangsefni. Hvað má þá einn vesalings fréttaritari segja, sem þarf að skrifa skýrslu um tapleik á heimavelli – leik þar Frömurum tókst ekki að skora mark!!?? Sjálf hugtökin eru lesendahópnum óskiljanleg.
Það var ljóst að þetta yrði skrítinn dagur um leið og fréttaritarinn, skjaldsveinninn Valur og Hnífsdals-trymbillinn stigu út úr einkabílnum í síðasta lausa bílastæðinu í Úlfarsárdal. Hvað var þetta blauta sem kom niður úr himninum? Rigning? Á öllum öðrum leikjum í sumar hefur verið unaðsblíða og skínandi sól. En núna rigndi. Reyndar var hlýtt og blankalogn, en það var samt eitthvað skrítið við þetta.
Fréttaritarinn skeiðaði upp í fínumannaboðið þar sem hann hafði verið beðinn um að halda stutta tölu í tengslum við það að leikmenn Íslandsmeistaraliða Fram árin 1962 og 1972 höfðu verið boðnir á leikinn sem heiðursgestir. Hvílíkur mannauður á einum stað! Brandari fréttaritarans í síðustu skýrslu um þríhyrningsskornu samlokurnar hefur greinilega valdið uppnámi á æðstu stöðum og að þessu sinni var boðið upp á plokkara með rúgbrauði og smjöri. Ég segi enn og aftur: ef þessar boltaíþróttir enda í skrúfunni þá getur félagið amk alltaf snúið sér að veislustjórn og mötuneytisrekstri!
Það leið að leik og til að lenda ekki aftur í sömu sætavandræðum og síðast flýttu fréttaritarinn og Valur Norðri sér niður í stúkuna og nældu í sæti fyrir Rabba og syni. Það reyndist óþarfa asi. Áhorfendur voru með færra móti á okkar mælikvarða. Það var víst eitthvað í sjónvarpinu sem var að glepja veikgeðja.
Liðsuppstillingin var örlítið breytt. Óli í markinu og Brynjar og Delphin miðverðir. Alex í öðrum bakverðinum en Jesús hinu meginn í fjarveru Más. Almarr á sínum stað á miðjunni en Tryggvi byrjaði inná í stað Indriða Áka. Tiago og Maggi á köntunum. Albert og Gummi frammi.
Segja má að leikurinn hafi aldrei komist upp úr öðrum gír fyrir hlé. Blikar stjórnuðu miðjunni en sköpuðu ekkert sem neitt kvað að. Framarar náðu fáum sendingum sín á milli og virtust afar ólíklegir til að ná að prjóna sig í gegnum vörn gestanna. Helst virtist hætta skapast þegar Blikavörnin og markvörðurinn áttu kæruleysislegar sendingar sín á milli sem stundum mátti litlu muna að okkar menn næðu að stela. Dómarinn tók strax í upphafi þá línu að leyfa talsvert, einkum af stympingum og bakhrindingum. Það mótaði leikinn nokkuð.
Um daginn spiluðu Blikar og Víkingar fótboltaleik þar sem einu fréttirnar virtust vera þær að boltasækjararnir í Kópavogi drægju taum síns liðs. Guttarnir á hliðarlínunni í Úlfarsárdalnum hafa greinilega drukkið þessa umræðu í sig og mættu fáránlega peppaðir til leiks, staðráðnir í að láta ekki nappa sig á slíku. Fyrir vikið gerðist það ítrekað í leiknum þegar sparkað var útaf að boltinn var enn í loftinu þegar búið var að koma nýjum bolta í lúkurnar á næsta Breiðabliksmanni. Svona rúllum við Framarar – meira að segja boltakrakkarnir okkar hafa siðferðislega og félagslega yfirburði á önnur börn!
Það er óþarfi að þræta fyrir að Blikarnir stýrðu spilinu langstærsta hluta fyrri hálfleiks og fengu til að mynda ótal hornspyrnur, en sem fyrr segir fylgdi þessum sóknum sáralítil ógn. Fyrsta skotið á rammann kom eftir hálftíma leik og fór beint á Óla í markinu. Skömmu síðar fengu Blikar svo sitt fyrsta verulega góða færi þegar misskilningur kom upp milli varnarmanna Fram sem létu boltann fara beint í fæturnar á aðvífandi Blika sem reyndi að skjóta niður nýju og fínu vatnsrennibrautina okkar – sem er ekki einu sinni búið að reisa. Hvers vegna þessi heift?
Fram fékk þó sín færi líka. Góð stungusending Gumma á Magga á 38. mínútu gaf af sér gott færi, en enginn var mættur á fjærstöngina þegar sendingin kom fyrir markið. Beint í kjölfarið átti Tryggvi frábæra sendingu á Magga sem misreiknaði hversu langt Blikamarkvörðurinn væri kominn út úr marki sínu og í stað þess að senda fyrir reyndi hann frekar misheppnað markskot. Um þetta leyti var mjög að lifna yfir Framliðinu. Magnús átti fína spretti og Jesús var þrælfínn jafnt í vörn og framávið.
Á fertugustu mínútu virtist okkar allra besti maður frá Venesúela vera að tæta sig í gegnum Blikavörnina en var rykkt fruntalega niður. Gult spjald, sem enginn gerði athugasemd við þá en var mögulega of mildur dómur miðað við það sem síðar gerðist í leiknum.
Í hléi hafði plokkaranum verið skipt út fyrir sætabrauð. Skyldu tannlæknafeðgarnir Ragnar og Kjartan leggja blessun sína yfir allt þetta vínarbrauð og glassúr á samkomunum okkar? Fréttaritarinn kjaftaði við Flosa trésmið og spurningaljón sem er formaður hjá Blikum og var svo huggulegur að mæta með blómvönd. Þarna var líka Haukur hagnaður, gamall uppáhaldsstræker úr Framliði tíunda áratugarins. Tíundi áratugurinn er Timothy Dalton Fram-áratuganna. Fagurkerunum finnst hann í raun bestur þótt bolurinn vilji bara rifja upp gullöldina.
Fram fékk fyrsta færið sem náði máli í seinni hálfleik. Gummi sendi á Tiago sem framlengdi hann á Albert sem reyndi einhvern veginn að klippa boltann í netið með hálfgerðri bakfallsspyrnu… þetta var ekki kvöldið þar sem slíkar æfingar voru að fara að gefa árangur.
Þegar tíu mínútur voru liðnar af hálfleiknum áttu gestirnir sókn sem virtist sakleysisleg. Skot upp úr engu og alls ekki sérstaklega fast, fyrir utan teig, náði einhvern veginn að smygla sér í gegnum smáþvögu og enda í markinu. Mögulega breytti boltinn um stefnu á varnarmanni og líklega sá Óli hann seint, en þetta leit þó frekar klaufalega út.
Eftir klukkutíma leik fór Maggi út af fyrir Fred. Maggi hafði verið mjög líflegur í fyrri hálfleik en það dró hratt af honum í þeim seinni. Við tók tímabil þar sem Framarar reyndu lítið annað en kýlingar fram á sóknarmennina sem höfðu úr litlu að moða. Spilamennskan alls ekki á sama plani og við höfum mátt venjast í sumar.
Þegar seinni hálfleikur var hálfnaður fóru Almarr og Albert af velli en Tóti og Indri Áki komu inná í staðinn. Hafi breytingin átt að hrista up í leiknum fóru þau áform út um þúfur tveimur mínútum síðar þegar kæruleysi á miðjunni varð til þess að Blikar geystust upp. Línuvörðurinn virtist flagga rangstöðu – og að réttilega – en setti flaggið jafnskjótt niður aftur. Eftir darraðardans við vítateig Framara sem endaði á að Óli varði markskot ákvað dómarinn að dæma aukaspyrnu á vítateigslínunni fyrir brot á sóknarmanni Blika fyrr í sókninni og sýndi Delphin (sem vel af merkja var okkar besti maður í þessum leik og er orðinn ómissandi í vörninni) rauða spjaldið fyrir að hafa rænt sóknarmanninn upplögðu marktækifæri. Eftir mikla reikistefnu skipti hann svo um skoðun og skellti rauða spjaldinu á Jesús. Nú kynni einhver að spyrja: hvernig í ósköpunum getur dómari sem telur sig sjá atvik svo skýrt að það réttlæti hreint rautt spjald um leið ruglast á jafnólíkum mönnum að vallarsýn? Fréttaritarinn skilur ekkert, en það er svo sem gömul saga og ný.
Tryggvi fór af velli fyrir Hlyn þegar stundarfjórðungur var eftir. Framarar skiptu í þriggja manna vörn og freistuðu þess að jafna metin. Það tókst ekki, en þess í stað náðu Blikar skyndisókn á lokamínútu venjulegs leiktíma og juku forystuna í 0:2.
Það er skrítin tilfinning að upplifa það að tapa fótboltaleik í Dal draumanna og ef til vill táknrænt að það gerist á sama tíma og slokknar á jarðeldinum í útjarði Haukasvæðisins á Völlunum. Þetta er þó reynsla sem við getum sagt barnabörnunum okkar frá eftir fjöldamörg ár. Þau munu ekki trúa.
Næsti leikur er á móti Val. Hann var upphaflega settur niður á laugardagskvöldi en hefur verið færður yfir á mánudagskvöld því að heimurinn er táradalur. Tökum þrjú stig þar og svo verður eftirpartý í Eskihlíðinni.
Stefán Pálsson