fbpx
Gummi gegn Leikni vefur

Langir skuggar

„Ertu kominn með fyrirsögn á pistil kvöldsins?“ – spurði Þorsteinn Joð sem sat við hliðina á skjaldsveininum Val Norðra um miðjan seinni hálfleikinn. Þegar maðurinn sem færði okkur „Þetta líf, þetta líf“ og kenndi þjóðinni að meta Blondie í tengslum við einhverja heimsmeistarakeppnina í fótbolta kemur með uppástungur, þá leggja réttir og sléttir fréttaritarar við hlustir. – „Nei, svo sem ekki. Ert þú kominn með eitthvað?“ – „Langir skuggar!“

Í eitt augnablik hélt fréttaritarinn að hér væri komin fáránlega djúp vísun í Langa Sela og Skuggana, hið epíska rokkabillíband sem frægast var fyrir hittarann „Breiðholtsbúgí“. Mótherjar okkar í kvöld, Leiknismenn koma jú úr Breiðholtinu (hnyttin tenging) en buðu ekki upp á neitt búgí… – Þetta var samt ekkert svona djúpt. Félagi Joð hafði einfaldlega veitt því athygli hvað skuggar leikmanna voru fáránlega langir á grasinu í Dal draumanna. Meira að segja sólin er með Fram í liði þessi dægrin. Meira um það síðar.

Fréttaritarinn tók strætó á völlinn eins og eiginlega alltaf eftir að hann uppgötvaði hvað leið 18 er mikil snilld. Eftir að hafa ítrekað mætt eins og fáráður kappklæddur á völlinn, var stuttermabolurinn látinn nægja að þessu sinni. Það er alltaf dýrðarverður í Úlfarsárdal. Maðurinn sem laug því að veröldinni að þarna uppfrá væri stundum næðingur hefur væntanlega verið útsendari einhvers ömurlegs fasteignafélags sem reynir að pranga skuggavarpsíbúðarholum inn á fólk á þéttingarreitum í vesturborginni til að kaupa gamla fótboltadani og aflóga körfuboltakringa. Ljótt, ljótt sagði fuglinn.

Húsið iðaði af lífi klukkutíma fyrir leik. Geiramenn söfnuðust saman í sinni álmu. Kvennaliðið okkar í parketglímu var við æfingar í íþróttasalnum og í fínumannaboðinu í vippinu voru samlokur skornar í þríhyrninga á þann hátt sem breytir bensínstöðvafæði í hanastélsbita á augabragði. Stemningin var pínkulítið skrítin. Allir gerðu kröfu um sigur, en um leið virkaði þetta einmitt eins og leikur þar sem við myndum misstíga okkur.

Fréttaritarinn stoppaði hjá Skonrokkbræðrunum Snorra Má og Skúla Helga. Þeir voru dálítið stúrnir yfir að vera ítrekað kenndir í þessum pistlum við tónlistarþátt sem þeir stýrðu aldrei. Því miður er alltof seint að breyta þessu. Þegar svona viðurnefni eru komin á flot í jafnvíðlesnum pistlum er útilokað að koma við nokkrum leiðréttingum. Athugasemdirnar voru því vegnar og léttvægar fundnar. Næst var líka komið að Nonna þjálfara að kynna liðið.

Meiðsli hafa sett Jóni og Aðalsteini nokkrar skorður upp á síðkastið. Fred hefur verið að kljást við hnémeiðsli allt frá viðureigninni við KR-böðlanna (ath: túlkun fréttaritara, ekki þjálfarateymis Fram) og Jannik hefur verið lengur að jafna sig af ökklameiðslum en vonir stóðu til. Við höfum virkilega saknað Danans okkar í sóknarleiknum, en þeir Guðmundur hafa náð frábærlega saman.

Óli var í markinu. Brynjar Gauti í annarri miðvarðarstöðunni og Delphin í hinni, fyrir Hlyn frá síðasta leik. Már kom aftur inn í bakvörðinn fyrir Jesús og Alex var hinu megin. Almarr og Indriði Áki á miðjunni með Tiago og Magnús á köntunum. Albert og Gummi Magg frammi. Fljótlega á eftir Jóni var heiðursgestur demantaklúbbsins í leiknum kynntur á svið, Hannes Þór Halldórsson – okkar eftirlætis Breiðhyltingur – rifjaði upp góð ár í Framtreyjunni. Beðinn um að spá fyrir um úrslitin svaraði hann: „Vinnið þið þetta ekki létt? 3:1?“ (Þessir markmenn vita ekki neitt.)

Niðri í stúku áttu fréttaritarinn, skjaldsveininn og Rabbi ásamt sonum í mestu vandræðum með að finna sæti á sínum kjörslóðum við miðlínuna. Það heldur áfram að vera sama mannmergðin á Framleikjum – í kvöld mættu 844 þrátt fyrir að afar fáliðað væri gestamegin. Það er líka alltaf skorað á Framleikjum. Og áhorfendur láta í sér heyra. Börnin á trommunum voru meira að segja með taktvissara móti þótt hnífsdælska trymbilsins væri að sjálfsögðu sárt saknað.

Framarar virtust ekki sjálfum sér líkir frá fyrstu sekúndu og eftir rétt rúmlega hálfa mínútu voru Leiknismenn nærri komnir yfir eftir frían skalla utarlega í markteignum. Gestirnir voru mættir til að sækja stig, eitt eða fleiri, en Framliðið var varfærið og virtist alltaf taka aukasnertinguna á hvern einasta bolta.

Eftir tæpar tíu mínútur sóttu Framarar hratt upp völlinn. Gummi nikkaði boltanum með kollinum fyrir fæturnar á Magga sem virtist annað hvort reyna fullkomlega kæruleysislegt skot úr slöku færi eða algjörlega misheppnaða sendingu – hvort svo sem það var lak boltinn á furðulegan hátt framhjá Leiknismarkverðinum. Vandræðaleg mistök, en Framarar komnir yfir.

Breiðhyltingar virtust staðráðnir í að svara strax fyrir sig og á næstu mínútum þurfti Óli í tvígang að verja vel frá þeim. Það er gleðilegt að sjá hvað markvörðurinn okkar hefur náð vel að hrista af sér vonda kaflann um mitt mót og er aftur kominn á þann stað sem við áttum að venjast í Lengjudeildinni í fyrra – sem virðist þó einhvern veginn vera fyrir hundrað árum síðan.

Fljótlega misstu gestirnir aftur móðinn og Framarar unnu sig aftur inn í leikinn. Okkar menn virtust hafa boltann drjúgan meirihlutann af leiknum en ógnuðu lítið, spilið var ekki nógu hratt og allt of oft leituðu sendingar aftar á völlinn í staðinn fyrir að fara fram á við. Fáein hálffæri litu dagsins ljós og fimm mínútum fyrir hlé vildi Alex fá vítaspyrnu, eftir að hafa talið andstæðing hafa kýlt sig á versta stað. Áhorfendur biðu spenntir eftir hefndarbrotinu en það kom aldrei og Alex lauk leik án þess að næla sér í gult spjald. (Má það?)

Umræðan í hálfleikskaffinu var öll á einn veg: engum fannst frammistaðan góð og ef Leiknismenn myndu aðeins ranka við sér í seinni hálfleik þá gæti farið illa.

Leikur hófst að nýju og einhverjar sætaskiptingar höfðu átt sér stað í stúkunni og fréttaritarinn sat nú við hliðina á mömmu Guðjónssona – en enginn þeirra var þó sjáanlegur á vellinum. Svo bregðast krosstré… Hins vegar var Jón Bergvinsson, gamli yfirmaður fréttaritarans í bæjarvinnunni mættur. Hann er eini stuðningsmaður Burton Albion á Íslandi á allan heiður skilið fyrir það, auk þess að vera öndvegis Framari.

Framarar byrjuðu betur og Albert og Tiago sóttu að Leiknismarkinu. Portúgalinn, sem var eins og venjulega okkar besti maður, var eitthvað lengi að gaufa og útkoman var horn. Mínútu fyrr hafði skjaldsveinninn Valur Norðri haft orð á því hvað sólin væri lágt á lofti og hlyti að skína skært í augu markvarðarins, sem hafði dregið fram derhúfu sem greinilega hafði ekkert að segja. „Er ekki bara málið að láta vaða eins nálægt markinu og mögulegt er – hann er aldrei að fara að verja þetta?“ – Tiago tók skjaldsveininn á orðinu og fleytti boltanum snyrtilega fyrir markið í seilingarfjarlægð fyrir sólarblindaðan markvörðinn og beint á kollinn á Brynjari Gauta sem stangaði í netið, 2:0.

Nákvæmlega hvers vegna Stjörnumenn leyfðu Fram að hirða miðvarðartröllið mun enginn skilja. Síðast í gær sat fréttaritarinn í Fjósi Valsmanna og horfði á Garðbæinga kjöldregna og spjallaði við kunningja úr Garðabænum… „Iss, Brynjar Gauti getur ekki neitt“, sagði kunninginn, „nema að skalla frá. Og að sparka í burtu…. og jú, hann er reyndar rosalega góður maður á móti manni.“ – Nákvæmlega hvað annað viltu fá frá miðverðinum þínum?

Í stöðunni 2:0 virtist allur vindur úr Breiðhyltingum. Breiðholtsbúgí með Langa Sela? Niii… meira Killer Boogie með Q4U…. Og þó! Eftir tæplega klukkutíma leik fengu þeir vítaspyrnu upp úr nákvæmlega engu þar sem Alex var örlítið klaufalegur í vörninni, snertingin lítil en víti dæmt. 2:1. Var leikurinn að fara að verða spennandi á ný?

Neinei… þetta var bara tímabundið stress. Fáeinum mínútum síðar fékk Tiago aukaspyrnu fyrir kjánalegt peysutog. (Miðað við bakhrindingarnar og peysutogið í leiknum mætti ætla að Leiknismenn væru handboltaliðið í þessari viðureing en ekki við.) Hann sendi fyrir þar sem Delphin kom óvaldaður en náði ekki til boltans. Það gerði hins vegar Gummi Magg sem var jafnóvaldaður og skallaði í netið. 3:1 og vondur dagur á skrifstofu varnarmálasviðs Leiknis.

Eftir þetta voru úrslitin aldrei spurning. Við hefðum getað skorað 7-8 mörk, en það hefði ekki verið sanngjarnt – því í raun var frammistaða Framara í dag ekkert til að hrópa húrra fyrir, þrátt fyrir alla lofrulluna í Stúkunni á Stöð 2 Sport, þar sem íþróttafréttamannastéttin er enn að reyna að bjarga andlitinu eftir að hafa spáð okkur hrakförum í byrjun móts. Fjórða markið leit þó dagsins ljós. Magnús átti flotta sendingu á Almarr sem framlengdi á Albert sem skoraði snyrtilega, 4:1.

Fljótlega eftir lokamarkið fór Magnús af velli eftir smápústra og Tryggvi kom inn. Orri kom inná fyrir Albert (og var fáránlega nálægt því að skora úr fyrsti snertingu og Arnór Daði kom inná fyrir Almarr. Síðar leystu þeir Jesús og Hlynur þá Má og Indriða Áka af hólmi. Það rammaði líklega leikinn fullkomlega inn þegar Hlynur var undir lokin sprottinn í gegnum Leiknisvörnina sem fremsti maður og nærri búinn að skora.

Þriggja marka sigur í Dal draumanna er auðvitað frábær úrslit. Þjálfarateymið sem sagði fyrir fyrsta leik að markmiðið væri að komast í úrslitakeppnina er á góðri leið með að standa við stóru orðin. Hamborgararnir í Úlfarsárdal eru betri en annars staðar og stuðningsmannalögin okkar fyndnari og svalari. Ekkert klapplið á landinu á betra hróp en „Við erum Geiramenn!“ – Gæti lífið verið ljúfara? Varla. Næsta stopp: 5:3 sigur á Blikum.

Stefán Pálsson

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!