Þegar Framstúlkurnar lögðu KH, Knattspyrnufélag Hlíðarenda, að velli, 3:0, í fyrsta leik í úrslitakeppni 2. deildar í knattspyrnu í gærkvöldi í Úlfarársdal, föstudaginn 26. ágúst, voru liðin 50 ár síðan Fram opnaði Íslandsmót kvenna með sigri á Breiðabliki á Vallagerðisvelli við Kársnesskóla í Kópavogi, 3:2.
Jessica Grace Kass Ray skoraði öll mörk Fram í gærkvöldi, þar af fyrsta mark úrslitakeppninnar og hún setti fyrstu þrennuna.
Þegar Fram lagði Breiðablik að velli í fyrsta leiknum 1972, skoruðu Jóhanna Halldórsdóttir, tvö, og Oddný Sigsteinsdóttir mörk Fram. Jóhanna skoraði fyrsta markið sem hefur verið skorað á Íslandsmóti kvenna í knattspyrnu.
Fram byrjaði með knöttinn í leiknum og átti miðherji Fram, Jenný Lind Grétudóttir, upphafsspyrnu leiksins og varð þar með fyrsta stúlkan til að spyrna í knöttinn í leik á Íslandsmótinu.
Fram vann fyrsta leikinn á Íslandsmóti kvenna, sem var jafnframt fyrsti útisigurinn hjá liði á Íslandsmóti kvenna.
Stúlkurnar í Fram sem voru á leikskýrslu og fögnuðu fyrsta sigri á Íslandsmótinu, fyrir 50 árum, voru: Anna Kristín Sverrisdóttir, Þorbjörg Albertsdóttir, Þórdís Ingólfsdóttir, Oddný Sigsteinsdóttir, fyrirliði, Elín Hjörleifsdóttir, Kolbrún Jóhannsdóttir, Sjöfn Sigsteinsdóttir, Jóhanna Halldórsdóttir, Jenný Lind Grétudóttir, Áslaug Jónsdóttir, Margrét Gunnarsdóttir, Guðrún Sigurðardóttir og Þórunn Jóhannsdóttir.
Á myndinni er Oddný Sigsteinsdóttir og Jóhanna Halldórsdóttir, sem skoruðu báðar í fyrsta leik Íslandsmótsins, fyrir 50 árum.
Texti: Sigmundur Ó. Steinarsson.