fbpx
Gummi mark vefur

VÍRUS Í VESTMANNAEYJUM

Konunni minni leist mjög vel á þá sjálfsprottnu hugmynd mína að bjóða henni í rómantíska helgarferð til Vestmannaeyja um nýliðna helgi. Þetta kom henni skemmtilega á óvart því það er ekki oft sem við heimsækjum Eyjar. Ekki að við hefðum endilega þurft eitthvert sérstakt tilefni til, við erum bæði mjög hrifin af þessaum fallega bæ, en þá vildi svo skemmtilega til að það var hátíð í eyjunni. Matarhátíð, þar sem sjávarfang var í forgrunni. Alþjóðlegir gestakokkar voru í heimsókn á nokkrum vel völdum matsölustöðum eyjunnar og við pöntuðum borð á laugardagskvöldinu. Við hjónin erum bæði að vestan og hreinlega alin upp á kúluðum steinbít, signum bútungi, kæstu og mignu góðgæti úr hafi. Því ókum við full tilhlökkunar úr borginni á föstudaginn eftir vinnu og mættum til Eyja um kl. 19.00.

Sökum einhverrar meðvirkni konunnar þá hefur hún fylgst óvenju mikið með vefsíðunni Fotbolti.net. Af eintómri umhyggju hefur hún viljað fylgjast með stöðu mála þegar ég er sjálfur staddur uppi í Dal draumanna eða einhvers staðar á útivöllum að fylgjast með drengjunum eða stúlkunum í Fram. Kannski vill hún vita hvort ég komi hundfúll heim eftir leik eða í gleðivímu. Ég er nú samt duglegur að skilja eftir stærstu tilfinningarnar áður en ég kem heim og öskra gjarnan yfir blóðugum jafnteflum í bílnum eða strætóinum á leiðinni heim. Það endaði því auðvitað með því að hún fattaði að svo heppilega vildi til að Fram kæmi í heimsókn út í Heimaey á sunnudeginum. Mitt leikplan hafði gengið upp; ég gat fengið mér bjór yfir leiknum á sunnudeginum, hitt vígreifa Geiramenn – og ég var með bílstjóra og far heim.

Leikdagurinn leit ekki vel út í mínu tilfelli til að byrja með. Ég átti nefnilega pínu erfitt með að jafna mig eftir fyrirframpantað fiskhlaðborðið á laugardagskvöldinu. Við fengum kola, karfa, þorsk og einhvern saltfisk. Allt var þetta heldur bragðlaust og broddlítið, meðlætið ágætt en það var einhver sósa þarna sem fór illa í mig og ég lá óvígur eftir. Þetta var eitthvað annað en vestfirskur hnoðmör. Vírus í Vestmannaeyjum! (það að fá ónot í maga og hausverk er þó kannski ekki efni í barnabók í átt við bækur Gunnars Helgasonar) Það skal þó alveg viðurkennast að við hjónin erum ofdekruð eftir uppeldið á Tjöruhúsinu á Ísafirði, sem er besti veitingastaður landsins. Ég veit ekki hvað það var sem olli þessari ógleði en ég hugsa að ég bendi þessum erlendu gestakokkum á undraheima hamborgarans eða pizzunnar. Þeir kunna alla vega ekkert að hantera íslenskt fiskmeti.

Schawarma sig í gang
Við hresstumst aðeins lítillega eftir vefju á kebabstaðnum á næsta horni um hádegisbili. Þær voru reyndar alls ekki spæsí eins og ég óskaði eftir og ekki mikill karakter í þeim. Hver setur gúrkusneiðar í kebab? Þessi matarupplifun helgarinnar var því ekki til að hrópa húrra fyrir, á föstudagskvöldinu fengum við nefnilega indverskan mat sem ég náði að subba í hvítröndóttan bolinn minn (Jeminn, hvað ég er farinn að hljóma leiðinlega. Eins og Jón Viðar með veitingahúsarýni). Jæja, eftir að hafa schawarmað okkur í gang á sunnudagsmorgni var skundað á Hásteinsvöll. Þar mætti okkur frábær stemning hjá stuðningsfólki Fram, geggjuð mæting og fólk að þjappa sig saman í stúkunni. Við hjónin hittum góða Geiramenn á laugardeginum og fórum með þeim í gegnum undraheima vinsællar bruggstofu bræðra í Eyjum. Það var reyndar ágætis matarupplifun. Á leikdegi barst okkur svo heilmikill liðsauki og öllum skal hrósað hér fyrir eljusemina og stemninguna í Eyjum.

Liðsuppstilling kom ekki mikið á óvart og ánægjulegt að sjá Brynjar Gauta byrja inn á, eitthvað var nefnilega slúðrað um að hann væri meiddur. Annars var Óli í markinu, Delphin, Hlynur Atli, Mási, Alex, Almarr, Tiago, Fred og Jannik og Gummi frammi. Vindurinn var þó í aðalhlutverki í dag. Eyjamenn þekkja vindinn vel og gott ef ekki að þetta sé bróðir vindsins sem maður hefur hitt á Grindavíkurvelli. Báðir alveg hífandi hressir. Rokið setti svip á leikinn og það tók Framara smá tíma til að finna taktinn fram á við. Jannik var skæður fram á við og engu mátti muna að þeir skoruðu þegar rúmar tíu mínútur voru liðnar en eftir kortérsleik kom önnur sókn þar sem vel var spilað fram og endar með því að Jannik spólaði sig fram og gaf fyrir þar sem Gummi var mættur í potið. Fram komið yfir.

Eyjamenn náðu að jafna tíu mínútum síðar eftir bölvað tafs í teignum. Heimamenn áttu fáeinar tilraunir að markinu og hending að þeir skuli ekki hafa nýtt vindinn frekar í fyrri hálfleik. Ég hefði haldið að þeir þekktu vindinn talsvert. Flestir heimamenn eflaust með Stórhöfðasvítu Johnsen enn á heilanum eftir frumflutninginn ´97. Það var ekki bara vindurinn sem blés, heldur var dómarinn duglegur að blása líka og blés nú til hálfleikhlés. Það var ekki mikið markvert sem gerðist í hléinu. Ég sá að Eyjamenn voru með sitt fínumannaboð á efri hæð síns húss og þaðan sá ég ganga út fyrrverandi fyndnasta mann Íslands, man ekki hvað hann heitir. Sömuleiðis heyrði maður til fyrrverandi þingmanns sem var einnig fyrrum yfirmaður í Efstaleiti. Man ekki heldur hvað hann heitir. Sem sagt mikið um einhverja fyrrverandi hitt og þetta. Engin skömm í því svo sem.

Sautjánhundruð vindstig
Okkar menn léku með vindi í seinni hálfleik og þeim óx ásmegin. Við Framarar tókum nú eftir einum leikmanni ÍBV sem var einna hressastur og til alls líklegur. Það er ekki til siðs að nefna nöfn andstæðinganna en þessi leikmaður ber einmitt svo glettilega þrjú eiginnöfn. Og er uppalinn í Fram. Hann þarf að fara að snúa aftur heim í heiðardalinn sem fyrst. Á 64 mínútu dró svo til tíðinda þegar boltinn barst til Gumma Magg fyrir utan vítateig, hann snýr á leikmenn ÍBV og mundar skotfótinn. Úr varð eitt glæsilegasta mark sumarsins! Fram komið yfir aftur, 2-1. Restin af leiknum einkenndist að klafsi og baráttu og nokkrum áhugaverðum ákvörðunum dómarans. Furðulegt að dómarinn skuli ekki hafa leiðrétt sínar misfellur, við sem vorum svo dugleg í stúkunni að benda honum kurteisislega á það sem betur mætti fara í dómgæslunni.

Án þess að falla í þá klisju að kenna dómaranum um þá varð það nú svo að jöfnunarmark Eyjamanna kom upp úr klúðri við vítateig okkar manna þar sem við sáum ekki betur en brotið hafi verið á Alex. Það var eins og allir bláir á vellinum hefðu gengið út frá því að dómarinn myndi flauta og á meðan náðu þeir skoti og 2-2 varð staðreyndin. Úrslit sem við Framarar þekkjum óþægilega vel og þar við sat. Enn einn jafnteflisleikurinn þar sem við náum ekki að loka fyrir á lokametrum. Jæja, 2-2 er skárra en 14-2 eins og við segjum gjarnan. Það var gaman að fá Gumma aftur í vígahug, sömuleiðis hann Jannik. Þeir tveir eru hættulegir saman fram á við. Annars fannst mér margir okkar manna spila undir getu, eflaust að spara sig fyrir leikinn á laugardaginn en vindurinn sagði nú sitt. Tryggvi kom inn á undir lok, ásamt Indriða og svo þeir Albert og Þórir. Við eigum sannarlega góða breidd og ég hefði gjarnan vijað sjá Magnús Inga koma inná. Sömuleiðis hefði ég ekki skipt Gumma út af. En það er ástæða fyrir því að ég er ekki þjálfari, ég veit ekkert um fótbolta. Kannski best geymdur á trommunum bara.

Þetta var á endanum kannski bara sanngjörn úrslit, Eyjamenn hafa verið á siglingu og langt í frá sjálfgefið fyrir gesti að sækja mörg stig á þennan völl. Ég þurfti því ekki mikið að öskra eftir leik, fórum beint í næsta Herjólf þar sem við hjónin sátum með þeim góðu Skonrokk-bræðrum, þar sem við rifjuðum upp sögur af fyrri ferjusiglingum. Ms. Edda, ferjan milli Helsinki og Tallinn og Fagranesið komu þar við sögu. Heilt yfir var þetta dásamleg helgi og enn og aftur skemmti ég mér vel við að fylgjast með okkar fólki í Fram. Skemmtilegasti boltinn sem í boði er. Fram undan er síðasta leikur fyrir úrslitakeppni, á næsta laugardag og þar mætum við öll í geggjuðum fíling og fáum okkur Framborgara. Enginn vírus í boði þar! Á sunnudeginum mæta stelpurnar upp í Breiðholt, sigur þar á móti ÍR tryggir okkur upp um deild! Helgin fram undan verður frábær, ákveðum það hér og nú!

– Kristján Freyr


Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!