fbpx
mfl.kv

Einu skrefi nær

Árið 2022 er árið sem fréttaritari Framsíðunnar strengdi þess heit að horfa á 222 fótboltaleiki. Sú markmiðssetning reyndist metnaðarlaus. September er rétt byrjaður og í kvöld var það leikur nr. 206.

Og hann ekki af verri endanum! Úrslitakeppnisslagur gegn Akranesi er merkingarþrungin viðureign hvernig sem á það er litið. Framkonur hafa staðið sig frábærlega í sumar og með sigri í kvöld færðist liðið enn nær fyrirheitna landinu í næstefstu deild.

Það var úrhellisrigning þegar fréttaritarinn ók úr Hlíðunum í austurbyggðir. Föstudagstraffíkin lét ekki að sér hæða en það voru þó enn tuttugu mínútur í leik þegar komið var í hús. Það gaf færi á að tylla sér í fínumannaherberginu og gúffa í sig hamborgara með Sigga Tomm, formanni okkar allra. Hann var sigurreifur eftir að Framstrákarnir unnu fyrsta leik í deildinni í gærkvöldi. Framliðinu er spáð sjötta sæti í vetur, en Halli Þorvarðar bendir á að í tvö síðustu skipti sem það gerðist urðu Framarar Íslandsmeistarar. Maður rífst ekki við svona tölfræði.

Það var flautað til leiks og uppstillingin reyndist svipuð og í Gróttuleiknum um síðustu helgi. Marissa í marki. Erika og Emilía miðverðir. Eydís og Ólöf bakverðir. Lára Mist öftust á miðjunni ásamt Ólínu og Önu. Fanney og Ylfa á köntunum og Jessica uppi á toppi. Þarna var enga Irynu að sjá. Hún mun hafa kvatt liðið á síðustu æfingu og er farin aftur heim til Úkraínu. Það er skarð fyrir skildi á miðjunni og kom það greinilega í ljós í leiknum.

Framkonur byrjuðu betur og áttu tvö þokkaleg færi á fyrstu tíu mínútunum. Skagaliðið, dyggilega stutt af góðum hópi áhorfenda, átti þó sín færi og eftir rétt um tíu mínútna leik skapaðist stórhætta þegar Marissa misreiknaði sig í úthlaupi og sóknarkona ÍA náði skoti úr þröngri stöðu sem hafnaði í markstönginni. Í kjölfarið fékk Skagaliðið hornspyrnu sem erfitt var að sjá hvort fór yfir marklínuna. Dómarinn dæmdi ekkert, sem jók mjög á pirringsstig Akurnesinga sem var ærið fyrir. Meira um það seinna.

Ólína geystist upp að endamörkum skömmu síðar og sendi fyrir markið þar sem Fanney náði ekki góðum skalla að marki í hörkufæri. Framliðið hélt áfram að vera líflegra fram á við, en vörnin var brothætt og lítið mátti út af bera til að hætta skapaðist. Eftir tæplega tuttugu mínútna leik gerðist nákvæmlega það, efnileg sókn Framarara strandaði á miðjunni. Gulklæddar geystust af stað, leikmaður Fram braut á Skagakonu og dómari, línuvörður og fréttaritari góndu á brotið í stað þess að horfa framar á völlinn þar sem sóknarkona gestanna var komin tíu metra inn fyrir vörnina – annað hvort kolrangstæð eða besti spretthlaupari í heimi – og skoraði vandræðalítíð fram hjá Marissu, 0:1.

Fimm mínútum eftir markið gekk dómarinn að varamannabekk ÍA og sýndi þjálfaranum beint rautt spjald. Ómögulegt var að heyra fyrir hvaða sakir, en í leikhléi giskuðu menn með dómarapróf á að það hefði verið fyrir atvik sem átti sér stað löngu fyrr, þegar téður Skagaþjálfari hljóp langt út fyrir sitt afmarkaða svæði til að skammast í línuverði. Þar sem eftirlitsdómarar og þráðlaus talbúnaður eru ekki staðalbúnaður á leikjum í annarri deild kvenna hafi það einfaldlega tekið aðstoðardómarann svona langan tíma að láta dómarann vita.

Framaliðið fór ekki á taugum þrátt fyrir markið og á 26. mínútu fengum við aukaspyrnu á hættlegum stað rétt fyrir utan vítateig. Ana er baneitruð í föstu leikatriðunum og hún sendi á fjærstöngina þar sem Ylfa kom aðvífandi og skoraði með góðu skoti, 1:1.

Bæði lið fengu hálffæri næstu mínúturnar en fátt sem bar sérstaklega til tíðinda. Á 35. mínútu áttu Framkonur hins vegar glæsilega sókna, þar sem Ylfa – sem átti mjög góðan leik í kvöld – lék upp að endamörkum, sendi hárnákvæmt á Önu í miðjum teignum sem dró til sín alla nálæga varnarmenn en stakk boltanum síðan inn á Jessicu sem átti ekki í nokkrum vandræðum með að skora 2:1

Ekki leið nema mínúta frá markinu þar til Skagastúlkur fengu næsta kjaftshögg. Leikmaður þeirra braut klunnalega af sér og af tilefnislausu úti á miðjum velli og fékk réttilega gult spjald að launum. Hún virtist hins vegar ekki hafa áttað sig á því að fyrr í leiknum hafði hún fengið gult spjald fyrir að fara inn á völlinn eftir aðhlynningu – vissulega eftir að línuvörður hafði gefið henni merki um að hlaupa inná, en án þess að dómarinn hefði heimilað. Uppskeran var því rautt spjald. Gríðarlega svekkjandi niðurstaða fyrir ÍA (en þó lögfræðilega rétt) og leikurinn hálf-ónýtur.

Þrátt fyrir að vera manni fleiri gerðu Framstelpur heiðarlega tilraun til þess að hleypa ÍA aftur inn í leikinn fyrir hlé með því að missa boltann á versta stað en Marissa bjargaði hetjulega. Fréttaritarinn játar fúslega að hafa ekki séð eins marga leiki í þessari deild og æskilegt væri, en leyfir sér þó að fullyrða að Fram eigi besta markvörðinn.

Það var mikið skrafað um dómgæslu og vafaatriði í fínumannaboðinu í hléi. Fínumannaboð er samt kannski óþarflega fínt heiti yfir nokkra kaffisötrandi stjórnarmenn og Gumma Magg í vippinu. Félagi Guðmundur var ekki eini leikmaðurinn úr karlaliðinu sem mættur var á völlinn. Jesús og Tiago, með blekið að þorna á nýja samningnum, voru líka mættir. Alltaf gaman að sjá meistaraflokksmenn mæta á völlinn.

Framliðið mætti sterkara til leiks í seinni hálfleik, meðvitað um liðsmuninn. Fá afgerandi tækifæri voru þó fyrstu tuttugu mínúturnar. Um miðjan hálfleikinn kom Halla Þórdís inná fyrir Fanneyju. Tveimur mínútum síðar fékk Framliðið hornspyrnu. Skagastúlkur vörðust með því að spyrna í eigin þverslá en þaðan barst boltinn út í teiginn á Láru Mist sem stýrði boltanum örugglega í netið, 3:1 og sigurinn virtist í höfn.

Næstu mínúturnar leit út fyrir að eina spurningin yrði hversu stór sigurinn yrði. Ana átti skot sem söng í slánni eftir góðan undirbúning Jessicu. Á þessum tímapunkti sagði fréttaritarinn hátt og snjallt eitthvað um að það væri greinilegt að Skagastúlkur væru orðnar þreyttar vegna liðsmunarins og við það að gefast upp. Að sjálfsögðu unnu gestirnir boltann þremur sekúndum síðar, skeiðuðu upp kantinn og sendu fyrir á hörkugóðan framherja ÍA sem skoraði af krafti, 3:2 og aftur komin spenna í leikinn.

Síðasta stundarfjórðunginn bar þó fátt til tíðinda. Framkonur voru klókar í að láta tímann líða og voru í raun miklu líklegri til að bæta við mörkum en gestirnir að jafna. Rétt undir lokin kom seinni skiptingin þar sem Þórhildur Elín kom inná fyrir Ylfu. Valalrþulurinn tilkynnti að Ólína hefði verið valinn maður leiksins, sem var alls ekki fráleitt val. Fögnuðurinn í lokin í rigningunni og vindstrekkingnum var ósvikinn og ziggi-zaggi síst lakari í flutningi kvennakórs en karla. Þetta var dýrmætur sigur en eins og stendur þurfa Framkonur þó að taka fjögur stig í lokaleikjunum tveimur. Sjáumst í Breiðholti á móti ÍR í næsta leik.

Stefán Pálsson

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!