Karl G. Benediktsson F: 1. júlí 1933. D: 8. desember 2022.
* Útför Karls fer fram frá Hallgrímskirkju í dag, mánudag 16. janúar 2023, kl. 13.00
Kveðja frá Knattspyrnufélaginu Fram
Við fráfall Karls G. Benediktssonar sjá Framarar á eftir afar öflugum og litríkum félagsmanni sem setti sterkan svip á handknattleik hjá Fram og á Íslandi. Kalli Ben var faðir nútímahandknattleiksins á Íslandi; kerfisbundinn og vel skipulagðan handknattleiks.
Karl byrjaði ungur að leika knattspyrnu með Fram, en varð að hætta vegna hnjámeiðsla. Eftir að hann var skorinn upp fyrir meiðslunum, hóf hann að leika handknattleik með meistaraflokki Fram aðeins 17 ára, haustið 1950, en Framliðið hafði orðið Íslandsmeistari í fyrsta skipti þá um vorið. Karl var farinn að þjálfa Framliðið að mestu frá 1953, en 1955 hvarf hann á braut og hóf störf sem loftskeytamaður við bandarísku herstöðina á Straumnesfjalli vestur í Aðalvík, þar sem hann var í tvö ár. Þegar hann kom aftur heim varð Karl aðaldriffjöðurin í Framliðinu; sýndi mikinn hreyfanleika í leik og ógnaði með gegnumbrotum. Var fjörugur eins og Gísli Þorgeir Kristjánsson í landsliðinu í dag. Þá vakti það mikla athygli þegar Karl gerðist „indjáni“ í varnarleiknum; fór út á völl til að trufla spil mótherjanna, sem þekktist ekki áður.
Brotið var blað í íslenskum handknattleik þegar Karl kom heim frá Danmörku 1960, þar sem hann stundaði nám í íþróttafræðum í Vejle á Jótlandi um tíma. Karl kom þá með nýjar hugmyndir, sem áttu eftir að gjörbreyta handknattleiknum á Íslandi og má segja að nútímahandknattleikur hafi þá hafist á Íslandi. Karl lét lið sín leika kerfisbundinn handknattleik. Hann lét menn leika í föstum stöðum og tímasetningar voru í leiknum. Þegar hann kom með sínar hugmyndir og fylgdi þeim fast eftir, var bylting í íslenskum handknattleik – fyrst með Framliðið og síðan með landsliðið.
Karl er maðurinn sem lagði grunninn að „Gulltímabili” karlaliðs Fram í handknattleik 1962-1972 er liðið náði að stöðva sigurgöngu hins öfluga meistaraflokks FH – og varð Íslandsmeistari sjö sinnum á ellefu árum eftir geysilega harða og oft spennandi baráttu við FH-inga, sem er eitt sögulegasta tímabil í handknattleikssögu Íslands. Framliðið varð 5 sinnum meistari undir stjórn Karls og þá varð Fram 8 sinnum Reykjavíkurmeistari undir hans stjórn á árunum 1960-1970.
„Karl var alltaf að koma fram með nýjar hugmyndir, sem gáfu árangur,” sagði Sigurður Einarsson, sem var línumaður í hinu sigursæla Framliði. Sigurður sagði að það hafi orðið mikil breyting á handknattleiknum hjá Fram og á Íslandi þegar Karl G. kom heim frá Danmörku. „Karl byrjaði strax á því að leggja línurnar og byggja upp vel útfærðann og skipulagðann leik bæði í vörn og sókn. Við æfðum upp ýmsar leikfléttur og kerfi mjög vel og síðan var stöðugt verið að bæta ofan á það. Það þótti mörgum einkennilegt að sjá hvernig við lékum með þrjá línumenn í hinum litla Hálogalandssal.“
Þegar Karl tók við þjálfun ungmennaliðsins og a-landsliðsins í handknattleik í lok árs 1962 sagði hann að einstaklingshyggjan þurfi að hverfa úr íslenskum handknattleik fyrir sameinuðu átaki. „Hversu miklu höfum við ekki tapað fyrir sýndarmennskuna? Við viljum reyna að fá lið til að vinna sem eina liðsheild, en ekki sem einstaklinga – öðru vísi verður árangri ekki náð!“ Það var þetta sem Karl lagði alltaf áherslu á. Lið hans, Fram og síðan Víkingur 1975, voru ekki alltaf best mönnuðustu liðin. Þau voru fyrst og fremst lið liðsheildarinnar; Einn fyrir alla, allir fyrir einn!
„Þegar við Framarar urðum meistarar þrjú ár í röð 1962-1964, voru FH-ingar með betri mannskap, en við lögðum þá að velli með leikskipulagi. FH-ingar fundu svar við leik okkar 1965 og 1966, en þegar við urðum meistarar 1967 og 1968 vorum við komnir með jafn sterkan mannskap og FH,“ sagði Sigurður.
Birgir Björnsson, fyrirliði FH og síðan þjálfari FH-liðsins og landsliðsins, sagði að það hafi verið brotið blað í íslenskum handknattleik þegar Karl fór að þjálfa, en þá hófu Íslendingar að leika kerfisbundinn handknattleik. „Þegar hann kom með sínar hugmyndir og fylgdi þeim fast eftir, varð hér algjör bylting. Fyrst með Framliðið og síðan landsliðið. Karl fór svipaða leið og Rúmenar fóru; með hægum og yfirveguðum leik. Það pirraði okkur FH-inga mikið, enda vorum við vanir að leika hraðan handknattleik,“ sagði Birgir, sem sagði að Karl hafi verið mjög skipulagður og hann hafi fengið hugmyndir úr ameríska ruðningnum er hann var um tíma við störf í New York. Í ruðningnum hreyfa leikmenn sig ákveðið en rólega að settu marki. Karl lét leikmenn sína endurtaka atriði aftur og aftur, þar til að þau heppnuðust. Þá var hann ánægður. Leikskipulagið byggðist á því að einn varnarmaður sat uppi með tvo sóknarmenn og þá þurfti ekki að spyrja að leikslokum. Karl hugsaði eins og skákmaður – að færa leikmenn á borðinu í rólegheitum og finna leið til að máta andstæðinginn. Leikkerfin byggðust flest á því að koma skotmönnum það nálægt með nokkrum sendingum, að eftirleikurinn væri auðveldur. Ef farið var út á móti þeim, opnaðist leið inn á línuna. Karl lyfti íslenskum handknattleik upp á hærra plan,” sagði Birgir.
* Karl lék 13 landsleiki fyrir Ísland á árunum 1958 til 1963; var tvisvar fyrirliði. Hann var leikmaður á HM í Austur-Þýskalandi 1958 og Vestur-Þýskalandi 1961 og þjálfari á HM 1964 í Tékkóslóvakíu og 1974 í Austur-Þýskalandi.
Karl stjórnaði landsliðinu í 71 leik á fjórum tímabilum 1964-1968, 1973-1974, 1966-1967 og 1976-1978.
Fram þakkar Karli fyrir vináttu og mikil störf unnin fyrir félagið. Börnum hans og fjölskyldum eru sendar innilegar samúðarkveðjur.
Sigmundur Ó. Steinarsson