fbpx
Fram - FH 1 5765x4078

Marteinn fyrstur til að skora hjá FH

Þegar Fram og FH mætast í fyrstu umferð Íslandsmótsins í knattspyrnu, efstu deild (Bestu deild) í kvöld kl. 19.15 á Framvellinum í Úlfarsárdal, verður það 61. leikur liðanna í efstu deild. Deildaskipting var tekin upp á Íslandi 1955 og lék Fram þá í efstu deild, en FH tryggði sér rétt til að leika í deildinni 1975 og voru Framarar fyrstu mótherjar FH-inga og fór viðureignin fram á malarvellinum í Kaplakrika 17. maí.

Marteinn Geirsson, fyrirliði Fram og landsliðsins, ásamt Hugrúnu Pétursdóttur, eiginkonu sinni
Marteinn Geirsson, fyrirliði Fram og landsliðsins, ásamt Hugrúnu Pétursdóttur, eiginkonu sinni

FH-ingar fögnuðu þá sigri, 1:0, með marki frá Leifi Helgasyni. Þess má geta til gamans að mark Leifs var það eina sem skorað var í fyrstu sex leikjum deildarinnar, þannig að hann var markahæstur í dágóðan tíma, með eitt mark!

 Fram lék heimaleik sinn gegn FH á Laugardalsvellinum 14. júlí og fagnaði sigri, 2:0. Það var sjálfur „Kóngurinn“ Marteinn Geirsson sem skoraði fyrrra markið og fyrsta mark Fram gegn FH með skalla eftir aukaspyrnu Eggerts Steingrímssonar. Eggert var mjög öruggur í aukaspyrnum og sögðu gárungarnir, ef hefði verið leikið með reimuðum bolta eins og á árum áður, hefði Eggert séð um að reimarnar snéru fram þegar samherji hans skallaði knöttinn inn í vítateig. Rúnar Gíslason skoraði seinna markið.

 Framliðið var þannig skipað í fyrsta heimaleiknum gegn FH: Árni Stefánsson, Símon Kristjánsson, Marteinn Geirsson, Jón Pétursson, Ómar Arason, Gunnar Guðmundsson, Rúnar Gíslason, Ágúst Guðmundsson, Eggert Steingrímsson, Kristinn Jörundsson, Erlendur Magnússon. Steinn Jónsson og Heiðar Halldórsson komu inná sem varamenn.

Fram hefur leikið 30 heimaleiki gegn FH í baráttu um Íslandsmeistaratitilinn í efstu deild, unnið 11, gert 6 jafntefli og tapað 13 leikjum. Markatalan er 40:55.

 Fram hefur leikið 30 leiki í Kaplakrika; unnið 10 leiki, gert tvisvar jafntefli, tapað 18 leikjum. Markatalan er 50:62. Árangur Fram í þessum sextíu leikjum, er: 21 sigrar, 8 jafntefli og 31 tap. Markatala 90:117.

 Þegar Fram vann FH, 1:0, í Úlfarárdal í Bestu deild sumarkið 2022, hafði Fram tapað 10 leikjum á heimavelli í röð (markatala 4:27), eða síðan 2003. Þá skoraði Ingvar Þór Ólafsson sigurmarkið á Laugardalsvellinum, 1:0, en í fyrra skoraði Tiago Manuel Da Silva Fernandes markið.

 Fram fagnaði síðast sigri í Kaplakrika 2003, 3:2. Andri Fannar Ottósson og Kristján Brooks, tvö, skoruðu mörkin. Síðan þá hefur Fram leikið 11 leiki í Kaplakrika án sigurs, gert tvö jafntefli, tapað níu leikjum. Markatalan 12:26.

 Þess má geta að Fram lék einn aukaleik í Bestu deild, neðri hluta, gegn FH 2022 og fagnaði sigri í Úlfarsárdal, 3:0.

Þrennur gegn FH

Ómar Torfa
Ómar Torfason með Gullskóinn 1986.

Þrír Framarar hafa skorað þrjú mörk í leik gegn FH í efstu deild og settu þeir allir þrennuna í Kaplakrika.

 * Ómar Torfason 1985, 5:1.

Gummi Torfa
Guðmundur Torfason með Gullskóinn 1987, er hann jafnaði markametið; skoraði 19 mörk.

* Guðmundur Torfason 1986, 6:1. Hin mörkin skorðu Pétur Ormslev, tvö og Guðmundur Steinsson, í stærsta sigri Fram á FH í efstu deild.

Jón Erling og Rikki Daða
Jón Erling Ragnarsson fagnar marki, ásamt Ríkharði Daðasyni.

 * Þá skoraði Jón Erling Ragnarsson þrjú mörk gegn sínum gömlu félögum 1991, 3:1.

 

 

 

 

 

Léku með Fram og FH

Pétur og Ásgeir
Pétur Ormslev og Ásgeir Elíasson í baráttu í leik FH og Fram í Kaplakrika 1980.

Þó nokkrir leikmenn hafa leikið bæði með Fram og FH í efstu deild. Ásgeir Elíasson reið á vaðið, þegar hann var þjálfari og leikmaður FH 1980, en eftir komu leikmenn eins og Guðgeir Leifsson, Ólafur Hafsteinsson, Hilmar Björnsson, Atli Einarsson, Jón Sveinsson, núverandi þjálfari Fram, Steve Lennon og Sam Hewson. Frá FH til Fram komu leikmen eins og Gunnar Bjarnason, Janus Guðlaugsson og Jón Erling Ragnarsson, sem urðu Íslandsmeistarar með Fram og einnig urðu þeir Íslandsmeistarar í handknattleik með FH. Þórhallur Víkingsson, Hallsteinn Arnarson, Auðun Helgason og Jónas Grani Garðarsson, sem varð markakóngur með Fram 34 ára 2007; skoraði 13/1 mark.

Texti: Sigmundur Ó. Steinarsson.

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!